Myndir af nafna og fleirum

Ég hef sótt fjórar fötur af eldivið út í dag og annað hef ég hreinlega ekki gert utan kannski að taka lítillega af matarborðinu. Svo var líka smá fundur með smiðnum klukkan ellefu í morgun. En í gær gerði ég ennþá minna og sama í fyrradag. Inn á milli hef ég verið ögn óöruggur yfir því að vera ekkert að gera. Eftir smá gönguferð sem við fórum í dag lagði ég mig með bók. Það fór eins og í hin skiptin sem ég hef byrjað að lesa um helgina, ég fór að sjá stafina tvöfalt, reyndi að rífa mig upp og svo sofnaði ég. Það voru engir draumar en víst ekki alveg hljóður svefn heldur eftir því sem ég hef heyrt síðar. Svo hringdi klukkan. Hvað-hvað, á ég að fara að vinna!!? Ég þreif klukkuna, ýtti niður takkanum en hún hélt áfram að hringja. Hvaða vitleysa var þetta eiginlega að setja á vekjaraklukkuna. Svo hristi ég hana. Það var þá sem ég skildi að það var síminn. Svo böglaðist ég að símanum og svaraði -Guðjón. Það var hún Binna mágkona mín. Hún veit ekki ennþá að hún vakti mig en það get ég vel boðið upp á.

Eftir kvöldmatinn fór ég að skoða myndir frá jólunum. Ég skoðaði þær svolítið fram og til baka. Svo ákvað ég að setja nokkrar af þessum 125 myndum á bloggið mitt. Mjög margar þeirra snúast um yngsta barnabarnið.


Okkur nöfnunum kom vel saman. Málarinn var farinn og rafvirkinn var farinn og þá var hægt að fara að snúa sér að mörgum lokaverkefnum fyrir jólin þarna í Stokkhómi. Þetta er ég búinn að blogga nokkuð um áður. Hér var komið að því að setja saman mjög sniðugt skrifborð, í raun einfalt, en þó að ég sé gjarn á að bara fara í svona samsetningar og ljúka þeim sem snarast, þá fékk ég í þessu tilfelli að snúa mér að teikningunum og lesa mig vel til. Þar kom nafni minn inn í þessa mynd. Hann kom oft og benti mér á skrúfu og sagði na na en hann þvældist ekki fyrir. Svolítið var ég hræddur um að hann mundi reka litlu tærnar í þessar hvössu skrúfur sem með tímanum fóru að standa up úr þessum skrifborðshliðum, en svo fór þó ekki. Þá hefði ég líka fengi samviskubit. En þessi samvinna okkar vakti upp meira en 40 ára gamlar minningar sem ég kem til með að setja á blað innan tíðar.


Hann var jú yngstur og þess vegna fékk hann að opna pakka svolítið fyrr en aðrir. Hér er hann reyndar að hjálpa mömmu og pabba að taka upp eitthvað sem þau fengu frá ömmu hans og þau áttu að nota við jólaborðhaldið.


Mamma mín, viltu dansa við mig eða kannski bara taka mig. Þarna heldur amma á sósukönnunni sem hann hjálpaði til með að taka upp úr pakkanum. Og amma komin með jólasveinahúfu, hvað stendur til?


Við pabbi erum að byrja að æfa okkur á orgelið sem ég fékk frá henni Valgerði móðussystur minni, eða er hann ekki að segja eitthvað svona? Og svo held ég að hann segi líka; þakka þér fyrir moster Valgerður.


Búsáhöld frá mömmu og pabba. Þá get ég bara boðið þeim í mat.


Svo skreytti Pétur gamla arininn. Hann er líklega meira en 100 ára gamall þessi.


Svo var bara að komast í jólaskap fyrir jólamáltíðina. Valdís segist líta svo alvarlega út á þessum myndum en við erum nú amma og afi og megum ekki alltaf vera kæruleysisleg. En hvar er Hannes? Hann er jú að hlaupa innan um svo margt nýtt og spennandi en ég verð að segja að hann fór ótrúlega varlega drengurinn þó að hann liti margt augum fyrsta sinni þetta kvöld.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0