Skemmtileg vinna

Það er langt síðan ég talaði um það hér heima að þegar ég hefði unnið nótt í Vornesi ætti ég aldrei að vinna neitt meira þann daginn eftir að ég kæmi heim. Svo kom ég heim um hálf þrjú leytið í dag eftir að hafa verið rúmlega einn sólarhring í Vornesi og þegar ég var búinn að smakka samviskusamlega á því sem hún Valdís bakaði í gær fór ég út í nýbyggingu að sinna viðhaldsvinnu á vélsöginni okkar. Ég tók strax eftir því að mér fór þetta ekki sem best úr hendi og ég missti skrúfjárnið í gólfið, týndi skrúfu og svo þegar ég var búinn að setja nýju klóna á kapalinn tók ég eftir því að það var ekki kló heldur mótstykkið sem ég hafði gengið svo vandvirknislega frá. Ég komst þó svo langt að dytta að einu og öðru og að ganga úr skugga um að sögin væri í besta lagi.

Ég er sjálfsagt ekki nógu vel gefinn til að þegja yfir svona algeru axarskafti. Rafvirki mundi alla vega ekki einu sinni geta hlegið að þessu trúi ég. Ég fann líka að það nálgaðist að mér færi að þyngja í skapi. Utan við dyrnar var Valdís að ryksuga bílinn og þar virtist allt ganga samkvæmt yfirvegun og verklagni. Ég reyndi að raula og vera fullorðinn. Það var líka strax eftir síðustu helgi að ég var að byrja að slípa sparsl á einum 50 fermetrum af gipsónettklæddum veggjum að ég komst að því að þetta væri óendanleg vinna, ógeðsleg og heilsuspillandi. Undarlegir menn sem eyddu ævi sinni í málningarvinnu! Mér sóttist verkið ekki vel og mér fannst sem ég ynni það illa. Svo tók ég kaffipásu, fór úr öllum fötum sem voru hlaðin sparsli og settist inn. Við Valdís töluðum um nágrannann, smiðinn sem varð ellilífeyrisþegi í fyrra og tekur gjarnan að sér smá verkefni. Hann tók að sér að sparsla og slípa hjá öðrum nágranna í fyrra og gerði því góð skil.

Svo hringdi ég í smiðinn og eftir kurteisistal spurði ég hann hvort hann væri ekki góður við að sparsla og slípa. Ég bókstaflega heyrði hvernig raddböndin hjá þessum lítilláta og góða manni drógust saman og röddin varð ótrúlega mjó. Ég hugsaði á augnablikinu að honum þætti þetta álíka ömurlega leiðnlegt og mér svo að ég breytti snögglega um umræðuefni og spurði hann hvort hann væri ekki vanur að eiga við eldhúsinnréttingar. Röddin varð aftur eðlileg og nú varð hann ræðinn og sagði meira að segja að hann gæti vel hjálpað mér við slíkt, það væri alveg sjálfsagt. Við ákváðum svo að tala betur um það innan tíðar og svo kvöddumst við.

Eftir kaffitár sem mig langaði eiginlega ekki í fór ég aftur út og tók mér sandpappír í hönd. Valdís spurði af góðsemi sinni hvort hún gæti hjálpað mér en mér fannst algerlega fráleitt að hún með sinn astma færi að hætta lungunum í sparslkófinu. Nú hafði ég líka tekið ákvörðun. Ég ætlaði að breyta afstöðu minni og gera mér verkið auðvelt. Með sandpappírsgræjurnar á skafti fór ég nú hratt yfir hvern fermetrann af öðrum og sá fyrir mér fallega málað herbergi með vel skipulögðum húsgögnum og ég sitjandi í þægilegum stól frá Varsam. Stólinn ætlaði ég að hafa þannig að að ég gæti horft út um gluggann móti skóginum og með því að snúa honum pínulítið ætlaði ég að horfa móti Kílsfjöllunum og sjá sólina setjast. Svo ætlaði ég að nota útsýnið til beggja átta svo lengi sem mig lysti. Inn á milli ætlaði ég að líta á veggina og hugsa sem svo að það hefði verið ótrúlega skemmtilegt verk að búa þá undir málningu enda væri verkið vel unnið eftir því. Svo ætlaði ég að taka mér bók í hönd og lesa nokkrar línur. Þá heyrði ég að tekið var í útihurðina.

Ég lagði frá mér slípiáhaldið, tók af mér grímuna og fór fram að dyrum. Nei, þarna var smiðurinn nágranninn kominn, glaðlegur og vingjarnlegur að vanda. Svo ræddum við um málningarundirbúning, fórum inn í gamla hlutann og töluðum um eldhúsinnréttinguna og lífið var leikur einn. Hann sagði að okkur hefði tekist að gera húsið alveg ótrúlega fallegt. Hann vildi ekki kaffi því að hann var að fara til Hallsberg til að kaupa 25 lítra sekk af fuglamat. Svo fór hann og ég sneri mér blístrandi að slípivinnunni á ný. Þegar ég var búinn að slípa alla veggi sparslaði ég alla veggi aftur, sumt í annað sinn og sumt í þriðja sinn, og sparslið lét svo mjúkt og hlýðið undir spaðanum og brettinu. Ótrúlega var málningarvinna skemmtileg. Þar með var komið kvöld og ég ákvað að byrja snemma daginn eftir. Allri undirbúningsvinnu er nú lokið og þar að auki er ég búinn að vinna þriggja daga vinnu í Vornesi.

Ég ætla að fara að bursta og pissa og ganga svo til móts við Óla Lokbrá því að ég ætla að byrja snemma í fyrramálið og fara að kaupa kló á sögina og líklega nýtt hjólsagarblað. Svo ætla ég að útbúa áfellur á níu glugga og eina útihurð. En áður en ég sný mér að tannburstanum ætla ég að gera játningu. Ég prófsmakkaði aftur eftir kvöldmatinn afurðirnar frá bakstrinum hennar Valdísar í gær. Það er alveg ótrúlegt hvað ég er alltaf svangur eftir að hafa unnið nótt í Vornesi þrátt fyrir að þar sé ævinlega mikill matur á borðum.



Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Sæl, Guðjón og Valdís.

Skemmtilegur pistill, eins og alltaf. Það er svo gaman að lesa um þetta litla litla, sem maður kannast svo vel við að hafa upplifað sjálfur, og verður hálf hissa og feginn að fá þessa staðfestingu; aðrir lenda líka í svipuðu.

Það eru engar ýkjur hjá nágrannanum; húsið er orðið alveg stórglæsilegt hjá ykkur og gaman að skoða myndirnar af breytingunum í gegnum tíðina. Líklega er mikið til í því hjá þér, að geti maður stillt sig inn á jákvætt hugarfar gagnvart hlutunum, verða þeir miklu bærilegri og jafnvel báðskemmtilegir!

Bestu kveðjur til ykkar beggja,

frá Guðmundi

2011-01-30 @ 22:03:35
Þórlaug

Enn einn skemmtilegur pistill sem fær mig til að fara brosandi á fund Óla lokbrár eins og þú segir.

Ég tek undir með Guðmundi að húsið ykkar er ótrúlega fallegt og ég er næstum viss um að þið eigið eftir að gera eitthvað við það til að gera það ennþá fallegra.



Bestu kveðjur til Valdísar,



Þórlaug

2011-01-30 @ 22:50:48
Valgerður

Ég er með tillögu. Af hverju skella Þórlaug og Guðmundur (sem ég held að sé Mummi) sér bara ekki í heimsókn til ykkar? Ekki endilega á sama tíma hehe

VG

2011-02-01 @ 22:08:54
Valgerður

Ég er með tillögu. Af hverju skella Þórlaug og Guðmundur (sem ég held að sé Mummi) sér bara ekki í heimsókn til ykkar? Ekki endilega á sama tíma hehe

VG

2011-02-01 @ 22:09:29
Guðjón Björnsson

Þið komið bara öll þegar gestaherbergið er tilbúið en ekki endilega á sama tíma.



Kveðja, Guðjón

2011-02-01 @ 22:37:42
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0