Landið nýja

Í dag, 17. janúar 2011, eru 20 ár síðan Kuwaitstríðið byrjade, sama dag byrjaði gos í Heklu og hún tengdamóðir mín varð 82 ára. það var líka þennan dag sem ég vaknaði á Hótel Sögu og fékk mér afréttara. Um tveimur tímum síðar brustu síðustu máttarstoðir lífs míns, bikarinn var fullur og það rann út yfir barmana. Með grátstafinn í kverkunum hringdi ég inn á Vog og sagðist hafa gefist upp. Léttirinn var ólýsanlegur.

Þennan dag komu í heimsókn til mín á Sögu þær Rósa dóttir mín og Svandís Svavarsdóttir. Þær komu til að sýna mér samkennd og gleðjast með mér yfir löngu tímabærri ákvörðun. Það dró líka úr skömminni sem er rótgróin í lífi alkohólistans. Þessi heimsókn var afgerandi því ég fékk mikilvæga staðfestingu á því að ég væri að gera alveg hárrétt og þó að ég væri viss um að svo væri þurfti ég að verða ennþá vissari. Einum eða tveimur dögum seinna fór ég til Vestmannaeyja þar sem ég fékk að dvelja hjá Valgerði dóttur minni og fjölskyldu þangað til ég fékk að komast inn á Vog. Ég þorði ekki heim þar sem ég var hræddur um að ef ég næði mér úr timburmönnunum og færi að vinna, að ég tæki til baka mikilvægustu ákvörðun lífs míns. Það mátti bara ekki ske.

Í Vestmannaeyjum sat ég gjarnan við norðurgluggann á daginn meðan ég var einn heima, horfði á eldana í Heklu í fjarlægð og velti fyrir mér örlögum lífs míns. 25. janúar flaug ég frá Eyjum og fór beint frá Reykjavíkurflugvelli inn á Vog ásamt AA manni í Reykjavík og Rósu dóttur minni. Við biðum nokkra stund í rúmgóðu andyrrinu þangað til hjúkrunarfræðingur kom og tók á móti mér. Ég var mikið hugsi, hræddur og leiður. Fram í andyrrið heyrðist kliður frá þeim innrituðu. Ég horfði mikið á þröskuldinn sem ég vissi að ég mundi bráðlega ganga yfir og hugsaði: Þegar ég stíg yfir þennan þröskuld geng ég yfir landamærin til nýja óþekkta landsins sem ég þrái svo mikið.

Á náttborðinu mínu liggur sænsk bók um þessar mundir sem ég lít í flest kvöld og hún heitir á íslensku Lyklar hjartans. Bókmerkið í þessari bók er mynd af mér tekin nokkrum árum áður en ég gekk yfir þröskuldinn til móts við nýja landið. Flest kvöld sem ég lít í þessa bók lít ég einnig á myndina og mig rekur eiginlega í rogastans og ég hugsa: Hvar er hann staddur þessi maður, hvað leynist bakvið þetta tekna, raunalega andlit og þessi líflausu augu? Myndin var tekin á þeim árum sem ég á mörgum erfiðum dögum huggaði mig við það að sólin mundi samt koma upp á morgun líka, hvernig sem allt gengi í dag, og ég mundi lifa til að vera með um það.

Dvölin í fimm og hálfa viku hjá SÁÁ var mikið sorgartímabil. Hver verður ekki sorgmæddur sem áttar sig á því upp úr miðjum aldri að honum hafi mistekist að lifa lífinu sem honum var gefið og ekki heldur tekist að nýta þá hæfileika sem fylgdu gjöfinni? Nýja landið reyndist gott land -nýtt líf. En það tekur tíma að verða fullorðinn maður upp úr miðjum aldri en mér tókst það. Stall af stalli, heiðarbrún af heiðarbún hélt ég áfram móti markmiðinu og víðsýnið jókst við hverja bungu sem ég hafði að baki. Ég er ennþá á þessari leið og vona að mér takist að halda því áfram til míns síðasta dags. Þegar ég staldra við í dag og lít yfir leiðina sem ég hef að baki er útsýnið bjart og gott. Maðurinn á myndinni á bókmerkinu hefur fengið nýja ásýnd og hann má aldrei, aldrei byrja að þræða slóðina til baka.

Á sumarmorgnum þegar sólin kemur upp hríslast hún fagurlega gegnum skóginn í austri utan við gluggann sem ég sit við á þessu augnabliki sem ég er að skrifa. Ég hef janúarkvöldið handan við gluggarúðuna. Ég er hættur að sækja traust í það að sólin muni koma upp á morgun líka hvernig sem á stendur. Ég get hins vegar dáðst að fegurðinni þessa sumarmorgna og notið þess að vera til, og ég get skynjað í vetrarmyrkrinu að ljósið finnist þar líka þrátt fyrir allt. Meira að segja þó að ég sé orðinn sextíu og átta ára get ég óskað mér þess á kvöldin að nóttin líði fljótt því að það verði svo gaman á morgun. Á þann hátt get ég séð ljós í myrkrinu og þá er myrkrið alls ekki svart.

Frammi í stofu situr konan sem hefur fylgt mér í fimmtíu ár. Hún er annars vegar að sauma í dúk og hins vegar að fylgjast með sjónvarpinu. Haustið 1993 var ég upphringdur af manni sem vissi að ég væri að leita að vinnu og hann gekk beint til verks og spurði: Guðjón, geturðu hugsað þér að flytja til Svíþjóðar og vinna þar. Ég leit á snöggt á konuna mína og sagði að maðurinn hefði spurt hvort við vildum flytja til Svíþjóðar til að vinna. Ég varð yfir mig undrandi en hugsaði ekki "nei". Ég sá á viðbrögðum hennar að hún hugsaði heldur ekki "nei". Það var ekki svo algengt að svona tilboð bara dyttu niður úr loftinu, og fyrir fólk sem var að verða fimmtíu og tveggja ára eins og við var það ennþá óalgengara. Og það var alveg öruggt að við mundum ekki fá svona tilboð oftar. Það var útilokað að neita þessu.

Landið nýja kom í tvennum skilningi, í myndmálinu og í raunveruleikanum. Við erum stödd í öðru landi sem er aukavinningur fyrir að hafa gefist upp fyrir ofuraflinu fyrir tuttugu árum, voga að taka góða ákvörðun og framkvæmd hana.

                                                Guð gefðu mér æðruleysi
                                                til að sætta mig við það
                                                sem ég fæ ekki breytt,
                                                kjark til að breyta því
                                                sem ég get breytt
                                                og vit til að greina þar á milli.



Kommentarer
Markku

Vackert så Gudjon. Bara att gratulera. 20 år och en spännande resa i ett nytt land.



Intressant att Googles översättning gör det enklare att förstå när man översätter från Isländska till engelska. Lättare än Isländska till Svenska. Men oavsett vilket man väljer, så går det att förstå - din begåvade berättelse. Tack för den.

2011-01-17 @ 09:36:21
Valgerður

Takk pabbi fyrir að deila með okkur öllum þessari sögu þinni. Ég á myndir af þér frá því þú dvaldir hjá okkur í Eyjum dagana áður en þú fórst á Vog og ég á myndir af þér teknar síðar. Ótvírætt eru þær sem teknar eru síðar af fallegri manni, bæði innan sem utan.

Kveðja

Valgerður

2011-01-17 @ 09:50:37
Brynja

Kæri Guðjón takk fyrir einlæga og myndræna frásögn, hún eflir kjarkinn hjá fólki og innilega til hamingju með áfangann.

knús frá Brynju og kær kveðja til ykkar hjóna.

2011-01-17 @ 10:42:23
Steinar Þorsteinsson

Til hamingju með þessi ár Guðjón og takk fyrir að deila þessari frásögn með okkur. Vonadi hún rati til flestra.

Sex ár eru liðin frá minni sex vikna dvöl á Vangseter þar sem eg losnaði við það svartnætti sem er förunautur alkoholistans og sem endar með tortímingu.



Það slær mig hve fanta góður penni þú ert.

Það hljóta að vera Suðursveitagenin.

Kveðja.

2011-01-17 @ 10:45:48
Steinar Þorsteinsson

Reyndar horfi eg daglega á næluspjaldið með númerinu mínu frá Vangseter.

2011-01-17 @ 10:49:25
Auja

Maður kemst nú bara við að lesa þetta, til hamingju með þennan áfanga og tek undir það nú er "snildarpenni" Guðjón

Auja

2011-01-17 @ 12:05:40
Anonym

Maður kemst nú bara við að lesa þetta, til hamingju með þennan áfanga og tek undir það þú ert "snildarpenni" Guðjón

Auja

2011-01-17 @ 12:06:17
Jenný Ragnarsdóttir

Kæri Guðjón. Ég vil þakka þér innilega fyrir að fá þau forréttindi að lesa bloggið þitt. Það vekur mann oft af dvala,og ýtir við þakklæti fyrir lífið sjálft.Kveðja og stórt knús á þig og Valdísi! Didda.

2011-01-17 @ 16:10:03
Árný Helga

Við sem horfðum á atburðarásina úr fjarlægð fyrir 20 árum áttum margar spurningar og skildum fátt. Mér fannst samt ákvörðunin um að flytja til annars lands og læra nýtt tungumál mögnuð og í raun ævintýraleg fyrir fólk á "ykkar aldri".



Nú þegar ég er að komast á þennan aldur, finnst mér ákvörðunin enn sýna mikið þor, en hef meiri skilning á að aðdráttarafl nýrra landa og uppgötvana er ekkert endilega minna fyrir fólk um fimmtugt en hjá þeim sem yngri eru. Maður er ekkert endilega með öll svörin þó árin fylli hálfa öld... Ef maður tryði því, væri maður örugglega hundleiðinlegt gamalmenni - burtséð frá árafjöldanum.



Með þökk fyrir fallegan og einlægan pistil. Hann er mannbætandi og hvetjandi.



Árný hin(Sólvallagötufrænka)

2011-01-17 @ 17:13:17
Þórlaug

Takk fyrir þennan pistil Guðjón. Hann er eins og svo margir aðrir pistlar frá þér mannbætandi og fær mann til að hugsa um svo margt.

Til hamingju með tuttugu árin, það þarf kjark til að byrja upp á nýtt og í nýju landi.



Bestu kveðjur til ykkar í nýja landinu,



Þórlaug

2011-01-17 @ 19:44:27
Guðjón Björnsson

Þetta var nú bara nokkuð mikið og er eiginlega tilefni í heilt blogg. Þakka ykkur kærlega fyrir.Það verður gott að leggja sig á koddann að loknum þessum línum. Á morgun förum við Valdís til Vingåker, en þar veit ég um góða galdrakonu sem bæði gefur nudd og nálar og góða heilsu. Góða nótt og sofið vel.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2011-01-17 @ 23:23:02
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðjón Björnsson

Hej Markku! Tack för din fina kommentar. Duktig du är att översätta men det har vi ju vetat så länge. I morgon blir jag närmare dina hemtrakter. Vi råkar träffas vid något tillfälle när vi inte anar kan jag tänka mig. Ha det bra.

M v h från Guðjón

2011-01-17 @ 23:27:15
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðmundur Ragnarsson

Til hamingju með árin tuttugu! Ég dáist að hugrekki ykkar að taka ykkur upp og fara. Ekki síst Valdísar, að fylgja þér út í hið ókunna.

Bestu óskir til ykkar,

Kveðja frá þakklátum nemanda þínum.

2011-01-17 @ 23:38:37
þóra H Björgvinsdóttir

Guðjón til hamingju með tuttugu árin og vonandi verða það mörg góð ár í viðbót ,kjarkurinn var mikill hjá ykkur að Valdísi að fara erlendis og byrja þar á nýjum kafla í lífi ykkar , þúr er frábær penni og vonandi ferðu nú að skrifa bók með einlægum og fræðandi pislunum þínum ég kaupi hana sko örugglega .

kveðja til ykkar

Þóra

2011-01-18 @ 00:26:33


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0