"Ekki aðeins þau höfðu sál, heldur hlutirnir í kríngum þau."

Svolítið einkennilegur er ég auðvitað en ég get alveg boðið upp á það. Ég er gamaldags og vil halda í ýmsar dyggðir. Ég get skrifað endalaust um nokkra fermetra sem við erum að byggja. Í gær fór ég út í nýbyggingu og var alveg með það á hreinu hvað ég skyldi gera þann daginn. Það var notalegt að koma þarna út og ég bætti við rafmagnsofninn. Svo byrjuðu smíðarnar. Það var notaleg værð yfir mér og mér lá ekkert á. Ég upplifði sem ég ætti allt lífið framundan. Smiðurinn kemur um mánaðamótin til að hjálpa mér við að skipta alfarið um gólf í gamla hlutanum og ég hef beðið hann að koma við annan mann. Um mánaðamót þýðir auðvitað eins og einni viku eftir mánaðamót. Því veit ég að ég hef góðan tíma til að gera það sem ég þarf að gera áður en þeir koma.

Þegar ég hafði byrjað smíðarnar heyrði ég að Valdís var að sýsla hinu megin við bráðabyrgðaþilið milli þess nýja og þess gamla. Ég vissi vel hvað hún sýslaði. Hún var að pakka inn jólasveinunum sínum og setja niður í kassa. Svo vissi ég að hún settist öðru hvoru framan við sjónvarpið því að hún er mjög sænsk þegar skíðafólk er að koma í mark á þeim endalausu skíðamótum sem nú standa yfir.

Ég mældi listan sem ég þurfti að taka á lengd, listi sem var fjórir komma fimm sinnum sjö sentimetrar og átti að vera tæpur metri á lengd. Ég mældi upp á millimeter, tók vinkilinn og strikaði fyrir. Listinn átti síðan að fara bakvið klæðningu sem fyrst er 12 mm krossviður og á hann kemur 13 mm gipsónett. Listinn átti sem sagt að hverfa bakvið tvær sortir af veggjaplötum og ég hefði líka getað giskað nokkurn veginn á lengdina, sagað síðan með afli og séð að lokum hvernig nokkurra senntimetra löng flís klofnaði af kantinum sem síðast sagaðist. Þetta er mjög algeng sjón. En ég naut þess að saga mjúklega eftir strikinu og svo smellféll listinn á sinn stað. Síðan sneri ég mér að krossviðraplötunni sem átti að festast í listann og mældi nákvæmlega fyrir lengdinni, strikaði föstu striki og sagaði svo á sama mjúklega háttinn og áður. Endinn á krossviðarplötunni sem ég sagaði kemur til með að hverfa bakvið gipsónett þannig að ég hefði líka getað sagað þetta af afli og séð flís detta úr kantinum sem síðast sagaðist. Ég hef líka oft séð það ske.

Ég veit ekki hvort nokkur skilur þessa áráttu mína sem ég hef jú skrifað um áður. En það skiptir mig engu máli. Við eigum ekki lífið að leysa og hvers vegna skyldi ég gera þetta á þann hátt sem mér líður illa með. Ég vil njóta þess að byggja húsið okkar. Þetta er eitt af því sem ég kalla dyggð. Ef ég veit eftir á að húsið er fullt af þjösnalega gerðum atriðum sem eru falin bakvið panel og þilplötur mun mér finnast sem ég hafi ekki byggt bústaðinn okkar af dyggð. Það má njóta lífsins á margan hátt.

Að byrja aftur eftir næstum hálfs mánaðar frí frá byggingarvinnunni var býsna athyglisvert. Það hafði eitthvað skemmtilegt skeð. Tommustokkurinn og blýanturinn eru nú alltaf í vasa mínum, hamarinn alltaf þar sem hann á að vera og sögin alltaf sýnileg. Það var aftur á móti orðið þannig að þegar ég þurfti að mæla, þá þurfti ég að sækja tommustokkinn og blýantinn á einhvern annan stað og þegar ég þurfti að saga var sögin ótrúlega lúmskt falin bakvið eitthvað. Svo þegar ég var búinn að finna hana var ég búinn að týna einhverju öðru. Það er kannski eins og ég sé að lýsa einhverjum þroskaheftum og þá verð ég bara að taka því. Ég var orðinn þreyttur þarna fyrir jólin. Það má segja að þegar menn voru hér í vinnu var hraðinn oft meiri en ég átti auðvelt með að sætta mig við og það þvingaði mig of oft til að framkvæma hlutina á grófari hátt en ég á gott með að sætta mig við.

Allt þetta leið gegnum huga minn í gær og allt í einu datt mér í hug texti úr Heimsljósi, síðasta hlutanum sem heitir Fegurð himinsins. Ég læt hann fylgja hér skrifaðan á þann hátt sem skáldið sjálft gerði. Ólafur Kárason hafði komið heim til gamalla hjóna sem bjuggu á afskekktu heiðarbýli.

"Ekki aðeins þau höfðu sál, heldur hlutirnir kríngum þau. Þóalt allt væri komið af fótum fram, bæarkornið, amboðin, búsáhöldin, var hver hlutur á sínum stað, allt hreint og snurfusað. Það var ekki samloðun efnisins að þakka að hlutir féllu hér ekki í sundur, - hvað mundi verða um þessa tréskjólu ef hætt væri að mjalta í hana kvölds og morgna, hún mundi falla í stafi. Bærinn mundi hrynja þann dag sem hætt yrði að gánga hér um dyr með mjúka átakinu á snerlinum, varkára góðviljaða fótatakinu á pallfjölunum. Hér þekktist ekki að ganga um hlut einsog aungvan varðaði um hann, jafnvel þvaran í pottinum var merkileg sjálfstæð persóna með aðild og rétti; aldrei virtist neitt hafa verið gert hér af handahófi né skeytíngarleysi, lítilmótlegasta handarvik unnið af sérstakri virðíngu fyrir sköpunarverkinu í heild, af alúð einsog þvílíkt verk hefði aldrei verið unnið fyr og mundi ekki verða framar unnið."

Ég er að vísu ónógur með tilliti til þessara dyggu hjóna og þetta að hlutirnir séu alltaf á sínum stað fæ ég oft að þakka konunni minni fyrir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0