Gamlársdagur á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Er mögulegt að ég sé smáskrýtinn eða hvað? Ég sit einn heima og uni því vel. Mig vantar ekkert og ekkert gerir mig órólegan, mér leiðist ekki og ég á enga flugelda. Helst vildi ég að Susanne væri heima en það er bara ekki þannig. Við héldum okkar gamlársdag hátíðlegan fram til klukkan hálf þrjú þegar hún fór í vinnuna. Ég veit að hún býr yfir eiginleika til að fá skjólstæðingana til að finna sig í öruggum höndum á skammtímavistheimilinu þar sem hún vinnur. Þannig er það og svo get ég unað glaður við mitt.
 
Ég var á AA fundi í Fjugesta í gær og þar talaði ég einmitt um þetta að ég get unað glaður við mitt. Margt hefur skeð á lífseiðinni sem ég hefði óskað að hefði farið öðruvísi, sumt alvarlegt og annað minna alvarlegt. En ég lít þannig á að ég eigi að spila sem best úr því sem er, en ekki að gróa fastur í því sem fór á annan veg einhvern tíma áður.
 
Árið sem gengur til enda í kvöld er ár mikilla breytinga hér á bæ og í lífi mínu. Breytingarnar hér á bæ eru bara hálfnaðar eða svo en þær verða mjög góðar að lokum. Mér liggur ekkert á en mér er meira í mun að þessar breytingar verði sem bestar að lokum. Ég var í lítilli verslun í Fjugesta fyrir nokkrum vikum og sá eða sú sem afgreiddi mig óróaði sig yfir að þurfa að láta mig bíða eitthvað. Nokkrar manneskjur voru þar í kringum okkur og ég sagði að mér lægi ekkert á, ég hefði allt lífið framundan. Fólkið leit á mig og hló við. Ég horfði til baka til fólksins og hugsaði með mér í gamni; ætli þau haldi að ég sé orðinn gamall!
 
Árið hefur verið mér gott. Stundum hafa komið tregastundir og stundum sorgarstundir. Ég á auðvelt með að viðurkenna það og segja frá því. Svona stundir koma upp í lífi allra en fólk talar ekki svo mikið um það. En í heild hefur lífið verið mér gott og það er það sem ég met að verðleikum.
 
Ég hef heilsu sem er mér alveg ómetanlegt. Ég er með kviðslit og er búinn að vera all lengi en það hefur ekki verið svo alvarlegt. Aðallega er það svolítið leiðinlegt, sérstaklega þegar ég setst niður meðal fólks og það ropar hátt í kviðarholinu. Svo þarf ég stundum að leggjast á bakið til að fá hlutina þarna niðri til að fara á sinn stað. Ég er kominn á biðlista og mun fá þetta lagfært snemma á komandi ári. Mjaðmarliðurinn sem ég fékk fyrir rúmum sex árum virkar svo vel að ég man aðeins sjaldan eftir að ég sé með mjaðmarlið úr stáli. Ég á því láni að fagna að þegar eitthvað er að þá er það lagað og svo er það í lagi.
 
Það hefur verið óvenju lítið um heimsóknir á árinu en ég get líka lifað við það. Valgerður og vinkona hennar voru hér nokkrar nætur í vor og Rósa og fjölskylda voru hér nokkrar nætur í sumar. Á þessu ári hef ég reynt að klára sem mest en ég hef ekki byrjað á neinu nýju. Fólk hefur gjarnan spurt mig hvort ég sé ekki að byggja neitt núna en svo er ekki, ég er bara að vinna að hinum mörgu innansleikjum sem eftir eru og heildin sem mig hefur dreymt um svo lengi hefur komið nær og nær.
 
Ég get gefið dæmi um hvað ég hef verið að gera hér innan húss. Yfir hluta af íbúðarhúsinu er lágt loft sem ég hef ekki vitað almennilega hvað ég skal gera við. En nú er ég búinn að tæma þetta loft að mestu af öllumögulegu og allar bækur, á að giska ellefu lengdarmetrar af hillum, eru nú þar uppi. Við þetta opnaðist rými hér niðri og á næsta ári langar mig að fara með huggulega dýnu upp á loftið, liggja þar á henni og gera lista yfir bækurnar. Síðan vil ég geta gengið að þessum lista og valið mér bók að lesa, farið upp og sótt hana. Þegar ég flutti bækurnar upp sá ég að ég á mikið af góðum og fróðlegum bókum sem mig sárlangar að lesa. En ég hef allt lífið framundan til að gera þetta, hversu langur tími sem mér verður svo gefinn.
 
Ég þarf vart að geta þess að Susanne flutti inn á árinu. Þessi kona hefur reynst mér svo vel og verið mér svo góð að oft er ég alveg undrandi og að sama skapi afar þakklátur. Þetta er nokkuð stórt að segja frá og ég gæti auðveldlega sagt frá mörgu góðu þar sem hún hefur reynst mér vel. Ég reyni að vera góður til baka. Við vorum all mikið á ferðinni í sumar og ég sem hef oft gegnum árin bloggað um staði norður í landi sem mig hefur lengi langað að heimsækja, hitti allt í einu konu sem er að sama skapi veik fyrir stöðunum sem mig hefur dreymt um. Hún þekkir sig þar ótrúlega víða og ratar þar víða um án þess að þurfa að líta á landakort eða vegskilti. Hugur okkar stefnir þangað upp á nýju ári.
 
Í fyrri hluta janúar ætlum við til Rósu, Péturs og Hannesar Guðjóns. Við ætlum að taka með okkur lambalæri og fá Rósu og Pétur að matreiða það og þar með ætlum við að læra að gera þetta frábæra hráefni að góðum mat. Þetta er fyrsta ferðaáætlunin á nýju ári.
 
Nú er best fyrir mig að fara fram í eldhúsið og baka pönnukökurnar sem ég hef hugsað svo mikið um í dag. Við borðuðum góðan mat í dag, íslenskt lambakjöt sem mér tókst þokklega vel við að matreiða í leirpottinum hennar Susanne. Í kvöldmat ætla ég svo að hafa góða súpu og pönnukökur. Það er mjög vanalegur matur hér um slóðir á fimmtudögum.
 
Ég er vanastur og skrifa allt of mikið þegar ég byrja á annað borð. Held líklega að það sé svo merkilegt sem ég skrifa. Nú læt ég pönnukökurnar stoppa mig við skriftirnar og eftir pönnukökur les ég þetta yfir og ákveð þá hvort ég birti eða ekki.
 
Gleðilegt nýtt ár öll þið sem kíkið á þetta blogg og kærar þakkir fyrir allt sameiginlegt sem við höfum átt í lífinu. Susanne biður að heilsa.
 
Sólin er að ganga til viðar vinstra megin við grenitréð vinstra megin á myndinni. Ég held að ég fari rétt með að dagurinn í dag er tíu mínútum lengri en styttsti dagurinn var fyrir nokkrum dögum síðan.
 
Það eru margar myndir í skóginum um þessar mundir. Þetta birkitré er úti í vetrarmyrkrinu eina tíu metra frá veröndinni sem er utan við svefnherbergisgluggann minn þar sem ég sit núna.
 
Ég vil helst af öllu minnast sumarsins og ferð okkar Susanne upp til Jämtland. Þessi mynd er tekin frá útsýnisturni til norðurs frá Austursund. Þegar við komum þangað upp var mín fyrsta hugsun að við værum komin til útlanda.
 
Þessi mynd er tekin í fjöllunum í vestra Jämtland frá húsi sem við leigðum í fáeinar nætur á Kolåsen, allt of fáar nætur. Myndin er tekin í 500 m hæð yfir hafið og staðurinn er álíka norðarlega og Vestmannaeyjar. Hugur okkar er þegar farinn að beinast þangað aftur þegar við hugsum til komandi sumars.
 
 
Nálægt Kolåsen er kirkja sem nefnist Lappkapellen. Þar er lítill kirkjugarður og við hliðina á kirkjugarðinum er bekkur og á honum er skilti sem á stendur "Hugleiðslubekkurinn". Þar fengum við okkur auðvitað sæti á hugleiðslubekknum og tókum þessa mynd.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0