Bloggað á annan jóladag

Rúmlega hálf sjö í morgun vaknaði ég við að það plingaði í farsímanum mínum. Ég gáði og það var góðan daginn sms frá Susanne og um að hún væri nú að byrja að vinna. Það er regla hér á bæ að láta vita af sér og það er regla sem líka ríkti milli okkar Valdísar. Susanne vann til tíu í gærkvöld og átti svo að byrja svona snemma. Hún svaf því á vinnustaðnum í nótt. Eftir að hafa svarað henni sofnaði ég aftur.
 
Næst þegar ég vaknaði var klukkan langt gengin í níu. Það var notalega hljótt heima og það eina sem ég heyrði var lágt tif í klukku einhvers staðar á vegg. Eftir stund tók ég farsímann og opnaði. Ég sá að feisbókin hafði sent mér eitthvað frá sama degi fyrir ári. Ég gáði. Þá sá ég að ég hafði skrifað blogg um jól í fyrra og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera það núna líka. En að skrifa um hvað? Svo flaug hugurinn af stað og ég sveif yfir víðáttur bæði í tíma og rúmi.
 
Ég var í Vornesi á þorláksmessukvöld. Þar var engin skata í matinn en það var góður matur samt sem var farinn að smakka jól. Ég tók blóðþrýsting hjá nokkrum á sjúkradeildinni. Kona sem var fjórum yngri en ég lá á bekknum og meðan ég setti mælirinn á arm hennar virti ég hana fyrir mér. Hún man fífil sinn fegri get ég sagt því að ég hef hitt hana nokkrum sinnum áður. Á árum áður rak hún lítið fyrirtæki í fjarlægu landi og var fjárhagslega frjáls, glæsileg, hraust og gerði spennandi hluti í lífinu. Nú lá þarna á bekknum skuggi þeirrar manneskju, rúin af öllu og heilsunni einnig. Hún var slitin, vansæl og þreytt. Þetta er það sorglega við vinnuna mína.
 
Næst kom á bekkinn kona sem gat verið lítið yfir tvítugt. Hún var ung og glæsileg en það fannst samt virkilega ástæða fyrir hana að koma til okkar í Vornesi, alla vega ef hún ekki vildi koma eftir fjörutíu og fimm ár og vera flöktandi skuggi af sjálfri sér eins og eldri konan á undan. Hún leit ekki út fyrir að vera farin að skaðast líkamlega af neyslu sinni. Við höfðum aldrei hittst áður. Ég spurði hana hvað hún ynni við þó að ég vissi ekki einu sinni hvort hún hefði vinnu. Ég er sjúkraliði og vinn á heimili fyrir fólk með alsheimer svaraði hún glaðlega.
 
Jahá, en hvernig er að vinna á svona stofnun, er það ekki erfitt spurði ég. Þessi unga kona varð eitt sólskinsbros og hennar fallegu augu urðu ennþá stærri. Hún sagði að það væri alveg stórkostlegt að vinna með fólk með alsheimer. Það væri skemmtilegt og mjög gefandi. Augnablikin þegar svona er sagt eru gleðinnar augnablik.
 
Daginn eftir kom ég heim rétt fyrir hádegi. Það var aðfangadagur og ég fann angan af jólamat mæta mér þegar ég nálgaðist húsið. Útihurðin var ekki alveg lokuð en til gamans hringdi ég dyrabjöllunni áður en ég gekk inn. Á móti mér kom Susanne með breitt bros á vör. Hún hafði opnað útihurðina svolítið til að ég skyldi finna betur að mér væri fagnað
 
Ég stend oftar við eldhúsbekkinn vegna þess að hún vinnur meira og er auk þess í skóla. Þarna var Susanne búin að vera í fríi í fimm daga og nú fannst henni sem hennar tími væri kominn og ég sá að hún naut þess að standa við eldhúsbekkinn. Annars kallar hún mig oft kallinn í eldhúsinu og ég kann því vel. Við höfum ýmis gamanyrði varðandi þetta sem eru einungis okkar. Eftir svona frí sem verður sex dagar samtals vinnur hún svo langa helgi. Frá föstudagssíðdegi til sunnudagskvölds vinnur hún rúmlega þrjátíu tíma. Þannig helgi er núna og svona er það á fjögurra vikna fresti. Það er þekkt í Svíþjóð að sjúkraliðar vinna mjög stranga vinnu fyrir lítil laun. Málsmetandi fólk skrifar stundum um þetta og talar um það með fjálglegum orðum, einnig að þessu verði að breyta en svo breytist ekki neitt. Það eru líka til menn sem vinna við þetta en þeir eru mun færri. Menn velja almennt betur launaða vinnu.
 
Susanne vinnur á heimili í Örebro sem heitir Rynningevíkin og stendur nærri þeim hluta af Hjälmaren sem heitir Rynningevíkin. Þangað kemur mikið af fólki frá sjúkrahúsinu í Örebro, fólki sem alls ekki getur farði heim en sjúkrahúsið hefur samt ekki aðstæður til að hafa. Fulltrúar frá sjúkrahúsinu koma fyrirvaralaust til Rynningevíkurinnar til að fylgjast með hvort allt sé vel gert og Rynningevíkin fær bestu einkunn fyrir sitt og mjög góða umfjöllun í blöðum.
 
Þangað kemur fólk sem kannski varð af með fót á sjúkrahúsinu nokkrum dögum áður, er kannski lamað, er blint, ratar ekki inn á herbergið sitt, getur ekki borðað hjálparlaust og sumir gera þarfir sínar í bleyju. Aðrir þurfa aðstoð til að komast á klósettið og sumir geta ekki baðað sig sjálfir. Sumir hafa blæðandi magasár eða stjórnlausan niðurgang. Margir þurfa að fá að halda í hönd og segja eitthvað sem er þeim mikilvægt. Sem betur fer er þar líka fólk sem einungis er gamalt og hefur það gott.
 
Það eru nokkrar vikur síðan við Susanne töluðum um vinnuálagið hjá henni og lágu launin. Við töluðum um aðra svipaða vinnustaði með léttari vinnu og við töluðum um aðra vinnu og berti laun og við komumst að því að það væru ýmsar leiðir að velja um. En eftir ummræðuna sagði Súsanne: En veistu það að mig langar bara svo mikið að hjálpa þessu fólki? Ég einfaldlega get ekki hætt. Ég vissulega vissi þetta og Súsanne hefur vitað lengi að ég veit það. Samt kemur þessi umræða upp hjá okkur öðru hvoru. Hún vann áður hjá hátæknifyrirtæki í tuttugu og fimm ár og í dag segir hún að hún geti ekki skilið hvernig henni tókst að gefa svo langan tíma af lífi sínu í þá vinnu.
 
Það er til svo mikið af góðu fólki en við heyrum ekki svo mikið talað um þetta fólk. Ég skrifaði jólabréf sem fjallaði nokkuð um að segja ekki svo mikið frá því góða. Ég kalla þetta bara jólablogg. Ég stend gjarnan við eldhúsbekkinn og hef til mat handa Susanne þegar hún kemur heim frá Rynningevíkinni. Svo þegar hún kemur inn hlær hún við og segir; "kallinn minn í eldhúsinu". Mér þykir vænt um það orðalag.
 
Það nálgast hádegi og það er alger kyrrð hér í sveitinni. Um tíma í morgun heyrði ég í mótorsög. Annars allt kyrrt. Ég valdi að skrifa þetta blogg í staðinn fyrir að koma röð og reglu á í svefnherberginu. Við sofum í öðru herbergi þar sem allt er á tjá og tundri í hinu eiginlega svefnherbergi. Þar sit ég þó og skrifa þetta blogg en óreiðan er fast við bakið á mér.
 
Ég vann aftur í gær, langan vinnudag, og hafði fyrirlestur og þrjár grúppur. Við vorum fá í vinnu en allt gekk vel vegna þess að við höfðum góða samvinnu og komum vel fram við þá sem þurfa á hjálpinni að halda. Vinnan mín um jólin var ánægjuleg og mér mikilvæg þegar öllu er á botninn hvolft. Kveikurinn minn virðist því ekki alveg slokknaður. Jólin kalla á hugleiðngar innra með mér sem mér líður vel með. Það var jólastemming í Vornesi og svo áttum við virkilega góðan aðfangadag hér heima. Þessi jól hafa verið blanda af mörgu góðu. Í vinnu, mat, í félagsskap heima og heiman og í hugarástandi sem hefur framkallað margar hugsanir um hið góða í heiminum.
 
Að lokum; ég er stoltur af hugsunarhætti og manngæsku konunnar sem vill deila lífinu með mér.
 
 
Við Susanne vorum upp í Orsa (Úrsa) um daginn og prufuðum þá þennan kuppaleik sem er alveg stórskemmtilegur. Við þurfum að eignast svona kubba.
 
 
Lotta og Jonas. Ég deildi vinnu með þessu fólki núna um jólin. Þau eru bæði tvö mjög fágaðar og góðar manneskjur. Jónas er svo hár að ég held að ég nái honum bara í höku. En ég ítreka það að þau eru bæði alveg einstakar manneskjur.
 
 
Malin og Sara sáu um jólamatinn í Vornesi. Þessar liðlega tvítugu konur eru báðar með fasta vinnu í eldhúsinu og þær eru líka ljúfar manneskjur og svo eru þær dulegir kokkar. Jólamaturinn var góður eftir því. Það voru fleiri sem unnu að jólamatnum en það voru Malin og Sara sem sáu um jólaborðið á aðfangadag.
 
 
Þetta jólatré stendur i dagstofunni í Vornesi og við hliðina á því stendur jólasveinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0