Tapað og ekki fundið

Ég var búinn að skrifa frekar stutt blogg og setja inn í það þrjár fínar myndir. Svo leit ég aðeins til hliðar og þegar ég leit á tölvuskjáinn aftur var ekkert blogg þar lengur. Þrátt fyrir leit get ég ekki fundið tangur eða tetur af þessu bloggi þannig að það er greinilega týnt og tröllum gefið. Farið hefur fé betra að öllum líkindum. Trúlega hefur bloggið bara verið svo lélegt að ósýnileg hönd hefur séð ástæðu til að grípa inn í. Svo ekki meira um það.
 
Ég sit í matsal starfsfólks í Vornesi og bauka við tölvuna -en með litlum árangri að því er virðist. Ég vann í gær, gamlársdag, hef unnið í dag, nýáradag, og svo kem ég til með að vinna á morgun. Mér finnst ég vera býsna þarfur þjóðfélagsþegn að gera þetta og mér finnst einnig að ég geri ekkert betra með þessa helgi en að rétta út hendina til systkina minna í viðleitni sinni til að gera góða hluti. Eftir þessa vinnudaga er mögulegt að ég leggist í flakk um nærliggjandi héruð.
 
Skammdegið fer að láta undan síga næstu daga þannig að það merkist. Samt er hætt við því að vetur konungur muni setjast að um tíma og leggja kuldakló sína yfir láð og lög enda væri annað óeðlilegt. En það kemur ekki í veg fyrir að vorið nálgast og góðir tímar eru framundan.
 
Ég óska ölluim gleðilegs árs og þakka fyrir hið liðna. Megi okkur öllum vegna vel.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0