Stundum er ég meiri Íslendingur en annars

Ég hef verið á flakki um héruðin austan við Örebro síðan í helgarbyrjun. Ég lagði af stað á laugardagsmorgun klukkan átta og ætlaði að láta klippa mig. Ég stillti mér upp við dyrnar til rakarans tuttugu mínútur fyrir níu og ætlaði að verða öruggur með að verða fyrstur í stólinn klukkan níu. Þegar ég hafði beðið í fimmtán mínútur las ég áberandi texta á dyrunum þess efnis að það væri lokað á laugardögum. Þá rann upp fyrir mér að það væri laugardagur og ég yrði ekki nýklkipptur á þessu ferðalagi mínu.
 
Þegar ég kom heim í gær, þremur dögum seinna, kom ég við hjá rakaranum og ætlaði að láta ferðalag mitt enda á því að verða vel klipptur. Þegar ég kom að dyrunum fannst mér vera fremur dimmt inni á rakarastofunni en ég lét samt á það reyna og tók i handfangið. Það var læst. Svo las ég aukablað sem hengt var innan á glerið í hurðinni og þar stóð að það væri lokað á þrettándanum. Ef ég get ekki skilið að það er þrettándinn þá get ég heldur ekki skilið að það sé lokað hjá rakaranum.
 
Reyndar finnst mér þetta allt í lagi þó að ruglingslegt hafi það verið. Ég var í vinnu í Vornesi á gamlársdag, á nýársdag og á annan í nýári. Þar virtist enginn af vinnufélögunum átta sig lengur á því hvaða vikudagur væri og gat ég þó verið pabbi þeirra flestra og elsti bróðir hinna. Yngra fólkið var ekkert betra en ég. Núna er ég heima og er að koma á röð og reglu í sjálfum mér og svo ætla ég að láta það koma fram í daglegu lífi mínu hér heima á næstunni.
 
 
Ég tók soðið hangikjöt með í ferðina, einnig flatbrauð og heimabakað rúgbrauð. Átta fullorðnir áttu að borða þetta sem hádegismat í Västerås. Ég get ekki sagt að ég hafi verið alveg rólegur. Ef fólk hefði ekki viljað borða þetta hefði hugmynd mín að þessum hádegisverði verið misheppnuð. En viti menn! Fyrst var fólk svolítið gætið þegar það setti á diskana en þegar til kom fóru allir einu sinni eða tvisvar til að fá sér meira. Það sagði allt sem segja þurfti.
 
Í hópnum var pólskur tónlistarmaður að nafni Kajtek sem hefur verið út um allan heim að spila tónlist. Hann hefur smakkað margan réttinn og honum þykir mjög áhugavert að prufa rétti ólíkra þjóða. -Veistu hver Halldór Pálsson tónlistarmaður er? spurði hann mig. Nei, ég vissi það ekki. -Hann hefur verið lengi í Svíþjóð, sagði Kajtek -og hann er mjög, mjög fær. Þegar ég hitti hann ætla ég að segja honum að reykt lambakjöt sé mjög, mjög góður matur.
 
Heimabakaða rúgbrauðið mitt þótti lostæti hjá yngri sem eldri og einnig flatbrauðið sem Guðrún mágkona og Páll bróðir sendu mér fyrir jól. Stundum er ég meiri Íslendingur  en annars.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0