Að þora að láta umheiminn sjá

Við Björn Jóhannsson vorum saman í Skógsskóla í einn vetur fyrir fimmtíu og sex árum. Að hann gerði vísur var af og frá að ég tel en svo hefur verið að sýna sig á síðustu árum að hann birtir oft á tíðum vísur sem hann gerir og alla jafnan eru vísurnar hans með djúpt innihald. Snemma í morgun fór ég ferð fram í baðherbergið og þegar ég kom til baka leit ég í tövuna og leit á nokkur efstu nöfnin á Feisbókinni. Þá las ég þetta ljóð sem Björn hafði birt seint kvöldið áður.
 
                                                     Sat í stofunni og horfði
                                                     á sumt eða ekki neitt.
                                                     Leitaði að ljúfu orði
                                                     langaði að nota það eitt.
                                                     Það orð kom ekki til mín
                                                     falið djúpt í huga mér
                                                     hugsa þó alloft til þín
                                                     því orðið var ætlað þér.
 
Svo hugsaði ég mikið um þetta ljóð, merkingu þess og kraft orðsins. Ég hugsaði líka um þau áhrif sem ljóðið hafði á mig. Svo sofnaði ég aftur um stund.
 
Já, hvort þetta var ekki kunnuglegt. Ég vil segja eitthvað en orðið kemur ekki en ef ég byrja að skrifa, þá getur orðið komið eftir nokkurn tíma, eða eftir margar skrifaðar línur -en oft alls ekki. Ég get baukað við verkefni mín hér á Sólvöllum, eða í vinnunni, eða þegar ég ek bílnum mínum, og þá kemur orðið. Ég ákveð að varðveita orðið og festi það í huga mér með myndum, með öðrum orðum og til og með með tilfinningum. Að kvöldi sest ég svo við tölvuna en orðið er ekki lengur til, eða ef til vill eins og Björn segir í ljóðinu; falið djúpt í huga mér. Og þá verður ekkert meira. Og jafnvel þó að ég muni orðið en hef tilfinninguna ekki lengur til staðar, þá verður heldur ekkert orð.
 
Ég vil ekki skrifa til að romsa upp úr mér staðreyndum, ég vil skrifa til að láta eitthvað flæða fram innan frá. Ég hef skrifað til að reyna að komast í gang án þess að komast í gang. Svo þegar ég les yfir og sé staðreyndarunu á skjánum. Þá gríp ég stundum fyrir andlitið og hendi svo því sem ég hef skrifað.
 
Ég kynntist honum Kristjáni Hálfdánarsyni fyrir tuttugu til þrjátíu árum síðan. Síðan sköruðust leiðir okkar Kristjáns ekki í árafjöld og ég hafði gleymt að ég hafði kynnst þessum hlýlega og prúða manni. En svo allt í einu fyrir nokkrum dögum birtist hann á Feisbókinni og nú erum við Feisbókarvinir. Nú man ég hann svo ákaflega vel eins og hann var. Hann býr í Danmörku. Í dag sagði Kristján að hann hefði verið að lesa bloggið mitt og að það hefði verið gaman að lesa það og ekki síst vegna þess að það hefði augljóslega verið skrifað frá hjartanu. Það var líka meiningin, annars hefði ég hent því.
 
 
"Andinn virðist hafa yfirgefið fólkið" segir í gamalli frásögn um nokkra aldraða munka og gyðingaprest. Þetta skrifaði ég fyrir nokkrum dögum og ég skrifaði einnig: "Og þannig er það með mig núna að andinn neitar alveg að koma en það er trúlega öllum að meinalausu."
 
Þannig skrifaði ég og svo skrifaði ég ekki meira þann daginn og ekki næstu daga á eftir vegna þess að orðið kom ekki. Þegar vinur minn Björn sat í stofunni vildi orðið ekki koma. Samt komu orð, önnur orð, og þegar hann raðaði þeim saman í ákveðna röð fengu þau mjög fallega meiningu. Mér finnst ég sjá hann fyrir mér með tregablandna ásjónu, hugsandi til þess sem hann vill segja orðið til, einhvers sem ekki er lengur meðal oss. Aðrir sjá kannski aðra merkingu, en þannig er það oft með orðið að sá sem notar það af snilld gefur okkur færi á að ætla því merkingu.
 
 "Gaurarnir", gæti ég trúað að sagt hafi verið um þessa mynd af einhverjum. Þarna vorum við ungir í Skógaskóla og Björn átti skinnjakka en ég fékk lánaðan skinnjakka. Við notuðum brilljantín og svo fórum við í myndatöku. Okkur þótti vissar stelpur betri og fallegri en aðrar stelpur en við spáðum ekki svo mikið í merkingu "orðsins" þá. Við notuðum hins vegar sum orð meira en önnur orð.
 
Svo slitum við Björn barnsskónum og gengum út í lífið og einnig stelpurnar sem voru berti og fallegri. Við héldum hvert í sína áttina. Við höfum hittst öðru hvoru gegnum lífið og einmitt við slíkt tækifæri tók stelpa sem hafði verið betri og fallegri þessa mynd af okkur. Við hittum báðir nýjar stelpur sem voru betri og fallegri en nú eru þær farnar þangað sem orðin ná ekki til þeirra. Því sitjum við stundum í stofunni heima og leitum að orðum. Fyrir okkur báða hefur "orðið" fengið merkingu sem við sáum ekki svo vel þá.
 
 
Það sem ég hef skrifað hér hef ég skrifað fyrir mig. Ég hef verið í ákveðnum heimi meðan ég hef skrifað þetta og nú er það skrifað og ég að mestu kominn til baka frá þessum ákveðna heimi. Eitthvað hefur átt sér stað innra með mér meðan ég var að skrifa og það var það sem ég sóttist eftir. Þessi skrif hafa því hvað mig áhrærir skilað gildi sínu og þess vegna gæti ég hent þeim. Að einu leyti hafa þau þó ekki skilað gildi sínu ennþá og það varðar að þora að láta umheiminn sjá þau. Með því að þora að láta umheiminn sjá þau hef ég gengið leiðina á enda.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0