Batnandi manni er best að lifa

Ég heimsótti hann sögunarMats í morgun. Ég hef alltaf gaman af að hitta þann mann. Hann var í skóginum í gær að sækja sér tré til að saga niður í byggingarefni. Það er eitthvað sjálfbært við líf þessa manns. -Hvað hefurðu marga hektara af skógi? spurði ég hann. Og hann svaraði með sinni hógværu röddu -Þrettán hektara. -Nægir það þér þannig að þú klárar ekki skóginn. -Já þetta svo gömul tré að þau eru hætt að stækka. Eiginlega standa þau bara þarna og þorna.
 
Þá fór ég að skilja betur þennan gríðarlega styrk í viðnum hjá honum. Ég þarf að koma út í skóginn hans og sjá þessei gömlu tré. Væri Mats eins og meiri hluti skógareigenda sem vildi einungis hafa ríflegan ágóða væri hann búinn að fella allan skóginn og planta aftur trjám sem vaxa mikið hraðar en gamla grenið í skóginum hans. Það greni verður heldur aldrei sterkt og það er ekki erfitt að reka þriggjatommuna í slíkan við.
 
Sex metra langt borð hjá Mats, eins og tvö þau efstu eru á kerrunni, og 20 sm breitt og þar að auki meira en tommu þykkt, það eru borð sem síga í og ég ber bara eitt svoleiðis borð í einu jafnvel þó að ég lyfti tveimur.
 
Það var ekki bara til að gera Mats glaðan sem ég keypti við hjá honum í morgun. Nei, nú skyldi koma gólf í eldiviðargeymsluna mína. Í gær sagaði ég niður gangstéttarhellur og lagði þær sem undirstöður undir gólfið sem koma átti. Auðvitað notaði ég hallamál og réttskeið, múrskeið slaghamar og viðarklossa því að allt skyldi gert samkvæmt kúnstunum í mér.
 
Þetta gólf er að vísu ekki nema tíu fermetrar en það er helmingi stærra en öll gömlu viðarskýlin mín og þar að auki meira en helmingi hærra. Það nægir vel fyrir mig og þar að auki á ég eitt gott, lítið skýli sem ég tekið undir við ef ég vil. Hann sagði við mig í dag hann dóttursonur minn í Noregi að ég gæti látið fólk gista þarna ef á þyrfti að halda. Já því ekki það? Það verður alla vega gott loft þarna inni. Hægra megin er svo pláss upp á fjórtán fermetra og þar verður "Guðjóns litla trésmiðja".
 
Ég chattadi við hann Markku vin minn undir kvöldið þegar ég var búinn með þetta gólf. Markku sem er Finni og kyndir með eldiviði eins og ég, hann kann að fara með við. Hann virtist verða hissa þegar ég sendi honum þessa mynd og hann spurði hvað þetta eiginlega væri. Þegar ég var búinn að segja honum að þetta væri mynd af nýju viðargeymslunni minni hvarf hann alveg um tíma. Síðan hafði hann orð á því að það hlyti að verða heldri manna viður sem yrði geymdur í þessari geymslu. Sannleikurinn er sá að margur mundi vilja vera eigandi þessarar geymslu. En það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að mér þykir gaman að gera hlutina svona úr garði og mér þykir gaman að ganga um húsakynni sem ég hef unnið að með alúð.
 
Með það er kominn háttatími hjá mér. Á morgun er hreingerningadagur og annað kvöld byrjar helgi. Ég er nefnilega farinn að halda helgarnar hátíðlegar og án skítagalla. Næsta helgi verður líka haldin hátíðleg. Batnandi manni er best að lifa.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0