Djúpar hugsanir sem ekki kláruðust

Ég rölti um heima í morgun, kveikti upp í kamínunni og lagði mig aftur. Ég horfði upp í hallandi þakið yfir rúminu minu og sökkti mér niður í djúpar hugsanir. Tuttugu mínútur yfir átta hringdi síminn og ég teygði út hendina eftir honum með það í huga að nú væri skemmtilegt símtal framundan. Ég leit á skjáinn á símanum og öll tilhlökkun hvarf á braut. Þegar símanúmerið sem hringir endar á 80 90 og klukkan er að ganga níu að morgni, þá veit ég að það vantar í vinnu, trúlega sama kvöld. Svo var það einnig í þetta skiptið. Hann heitir Erik og hann gekk beint til verks og spurðu hvort ég gæti unnið í kvöld. Ég sem hafði ekki komist að neinni niðurstöðu í mínum djúpu hugsunum og átti svo að rjúka af stað í vinnu.
 
Ég sagði nei, að ég gæti ekki unnið. Þá var ekkert meira með það og við lögðum á. Svo fékk ég samviskubit og hringdi til baka. Ég hafði alla vega sýnt fram á að ellilífeyrisþegi getur sagt nei. Ég sagði Erik að ég hefði getað breytt plönum mínum og ég skyldi koma og núna sit ég í Vornesi. Allir innskrifaðir sitja dagskrárpunkta núna sem þau stýra sjálf og ég fæ hálftíma sem ég get stýrt fyrir sjálfan mig.
 
Í dag spurði ég Katarína í eldhúsinu hversu hátt hitamælirinn mætti fara þegar ég steikti rostbiff og kjötið mætti ekki vera rautt. 75 til 77 gráður svaraði hún en vildi samt athuga það og fór inn í litla herbergið sem þær hafa inn af eldhúsinu. Hún kom um hæl til baka og sagði að þetta væri rétt, 75 til 77 gráður. Það er nú meira hvað þær eru hjálplegar í eldhúsinu þegar ég ráðgast við þær varðandi matargerð. Á ég að nota nokkuð annað krytt en pipar og salt spurði ég svo. Nú urðu þær tvær til að hjálpa mér og sögðu mér að gera það alls ekki, ekkert annað en pipar og salt.
 
Nú er tíminn sem ég ræð mér sjálfur liðinn og ég þarf að koma mér á réttan stað. Ég finn að það hefði verið afar mikið notalegra að vera heima. Suma daga er einhvern veginn erfiðara að fara í vinnu en aðra daga. Ég get ekki sagt að ég sé hér núna af sama góða vilja og ég vil vera. Svo þegar ég fer heim eftir hádegi á morgun verð ég sjálfsagt ánægður með framlag mitt. Það er ekki svo vitlaust að vera ellilífeyrisþegi og geta hlaupið í skarðið þegar á þarf að halda. Ég ætlaði meðal annars að kljúfa við í dag og raða upp í fallegar stæður en ef ég get stuðlað að því að barn fái heim heilbrigða mömmu eða pabba, þá má stæðan svo sannarlega bíða þangað til ég hef tíma. Ég hef jú allt lífið framundan til að dekra við viðinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0