Þar sem góða veðrið ríkir flesta daga

Í gærmorgun sat ég við austurgluggann í svefnherberginu mínu og horfði á hæstu trjátopana eins og ég geri svo oft. Þó að þeir bæru hver i annann gat ég ekki séð að þeir bærðust. Svo leit ég á veðurspána og það átti að verða lélegt ferðaveður þegar liði á daginn. Því ákvað ég að skreppa í Marieberg til að versla áður en það bristi á. Í kaupfélaginu í Marieberg eigraði ég óvenju mikið fram og til baka vegna þess að nú ætlaði ég að kaupa öðruvísi en venjulega, öðru vísi síld, öðru vísi kartöflur, öðruvísi grænmeti og öðruvísi ýmislegt fleira. Nóg er nefnilega úrvalið í Mariebergskaupfélaginu.
 
Ég er  sá gallagripur að þegar ég hef keypt eitthvað sem mér líkar, þá vil ég gjarnan halda áfram að kaupa akkúrat það og ekkert annað. Þannig er það til dæmis með síldina í tveggja lítra fötunum. Þá kryddsíld er ég búinn að kaupa í tvö ár og ég er að verða leiður á henni. Þar sem það eru seldar einar fimmtán til þrjátíu sortir af síld á hillunum þar, þá er þetta auðvitað alveg óþarfi.
 
Þegar ég yfirgaf kaupfélagið með svolítið öðruvísi vörur í pokanum mínum og stórt granatepli til að hafa sem eftirrétt einhvern daginn, þá var reyndar komin alveg þokkaleg stórhríð og nokkurra sentimetra snjór. Þannig geta veður skipast í lofti og veðurfræðingarnir haft rétt fyrir sér. Þegar ég kom heim stóðu trjátopparnir alls ekki grafkyrrir lengur, þeir sveifluðust frekar mjúklega með sporöskjulaga sveiflum og frá þeim barst óveðursgnýr. En niðri á sjálfum Sólvöllunum var logn og tíu sentimetra djúpur snjór.
 
Ég skipti um föt og fór út í nýja húsið mitt til að negla upp panel á innsíðuna. Þriggja tommu saumurinn fékk gríðarlega festu í viðnum sem ég hafði keypt hjá honumm sögunarMats. Viðurinn sem Mats selur er nefnilega kjarnaviður, þungur og harður, og hamarshöggin dundu í byggðarlaginu. Í þeirri kyrrð sem ríkir jafnan í Krekklingesókn, þá finnst mér alveg nóg um þessi gríðarlegu hamarshögg og ég byrja ógjarnan snemma á morgnana þegar ég þarf að negla í þennan við. Ég þarf líka að hafa kúbeinið við hendina því að sumir naglanna kengbogna áður en þeir komast svo langt inn í harðan viðinn. Það er að vísu spurning að þegja yfir þessu.
 
Það hætti fljótlega að snjóa en veðurgnýrinn í skóginum hélt áfram en skógurinn hélt líka áfram af trygglyndi að  skýla Sólvöllum. Ég fann fyrir öryggi í þessum faðmi og það var gott að vera til. Ég smíðaði, útbjó góðan mat, baukaði eitt og annað og tíndi til föt fyrir morgundaginn. Mér ávannst óvenju mikið í gær og það hefur líka verið meiningin frá þrettándanum að komast á góða ferð ferð. Áður en ég lagði mig hafði helminginn af snjónum tekið.
 
Þegar ég var að sofna um miðnætti heyrði ég ennþá veðurgnýinn í skóginum og þegar ég vaknaði um fjögur leytið var það óbreytt. Klukkan átta var ég út í glugga og það hafði hljóðnað og trén bifuðust mjúklega og gátu nú hvílst eftir all nokkur átök. Fyrir löngu síðan hafði ég draum um að rækta skóg á stærstum hluta Íslands til að þar yrði gott veður flesta daga. Síðar hætti ég við það en reyndi að rækta skóg á einhverjum erfiðasta stað á norðurhveli jarðar sagði mikill skógræktarmaður á Íslandi í gamansömum tón.
 
Eftir gróðursetningardaga í Skógum þar sem fólk frá Tumastöðum í Fljótshlíð var til aðstoðar kom maður til mín og bauð mér vinnu á Tumastöðum þegar skóla væri lokið. Oft sá ég eftir því að hafa ekki þegið það en ég veit ekki hvað ég á að segja um það núna. Þá hefði ég ekki eignast þá fjölskyldu sem ég eignaðist og þá væri ég örugglega ekki þar sem ég er núna. Það fór best á því að það fór sem það fór og í staðinn fyrir að rækta skóg á stærstum hluta Íslands flutti ég þangað sem góða veðrið ríkir flesta daga vegna þess að skógur vex á stærstum hluta landsins.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0