Lipurmenni hann Gústav

Fyrir helgi kom ég til Fordverkstæðisins í Örebro með vetrardekkin á kerru. Það féll í hlut Gústavs, sem er einhvers konar móttökustjóri þar, að líta á dekkin og meta gæði þeirra. Jú, tvö dekk voru að komast á síðasta snúning og í fyrstu ákvað ég að kaupa ný en hætti svo við. Gústav sagðist skyldi geyma kerruna bak við lás og slá þar til þeir gætu skipt um hjól undir bílnum sem gert var í dag. Að vísu erum við Valdís vön að skipta um hjól sjálf vor og haust en brugðum út af því að þessu sinni.

Það hafa verið svolitlar uppákomur með þennan blessaðan Ford okkar og það hefur ekki verið ókeypis. En Gústav hefur verið ótrúlega þægilegur vegna þessa og gefið afslætti á ýmsu og fyrirtækið sendi einhverja bónusávísun um daginn vegna viðskipta okkar við þá. Niðurstaðan er nú held ég sú að lokum að tapið á uppákomunum er orðið afar lítið. Svo stóðum við þarna hlið við hlið í dag, ég og Gústav, og hann jafn viðmótsþýðut og alltaf áður. Þá gat ég ekki látið vera að segja honum að hann væri sérstaklega góður í öllu viðmóti og ég væri honum þakklátur fyrir það. Gústav átti ekki von á þessu og varð hreinlega hálf feiminn en þakkaði svo fyrir og sagði að það væri ekki algengt að fólk segði þetta svona opinskátt. Hann sagði hins vegar að ef verk ekki stæðust eða varahlutir kæmu ekki í tíma, þá væri algengara að fólk segði álit sitt. Ég fann að honum hlýnaði um hjartaræturnar.

Ég á ekki erfitt með að segja fólki að það geri vel þegar við á og mér finnst það sjálfsagður hlutur. Þórarinn Tyrfingsson sagði sumarið sem ég vann á Vogi að það væri mikilvægt að segja eitthvað jákvætt um sjúklingana, en maður mætti samt ekki skrökva að þeim. Ég reyndi að æfa þetta. Svo kom ég til Svíþjóðar og fór að vinna í Svartnesi. Eitt sinn kom lítil rúta frá miðlungs stórum bæ í Mið-Svíþjóð og hún var hálf full af fólki sem hreinlega var tínt upp af miðbæjartorginu þar. Þetta fólk var af þeiri stétt sem kallast oft því ljóta nafni rónar. Nokkrir af þeim lentu í minni grúppu. Þetta fólk hafði án alls efa ekki heyrt neinar jákvæðar umsagnir sig á mörgum undanförnum árum og það var kannski ekki létt að hitta á jákvæða punkta til að benda því á. Það var líka þvingað í meðferð og var því erfitt viðureignar. Það var mjög misjafn sauður í þessu fé í grúppunni minni, meðal annars læknir einn úr Dölunum, afskaplega ljúfur maður og prúður þó að honum hefði mistekist með áfengið. Hann stakk í stúf við flesta aðra í grúppunni.

Eitt sinn þegar grúppunni var lokið vék hann sér til hliðar og beið þess að aðrir færu út. Ég skildi að hann vildi segja eitthvað. Þegar allir voru farnir út og við búnir að loka hurðinni sagðist hann endilega vilja segja mér nokkuð þó að það væri kannski ekki í hans verkahring að tala um það. Og svo kom það: Þú hefur alveg einstakan hæfileika til að finna eitthvað jákvætt að segja um hverja einustu manneskju og segja það þannig að fólk taki það til sín.

Já, og hvað segi ég þá. Hann var jú læknir síðan ein 20 ár til baka en ég var nýgræðingur í mínu fagi. Við töluðum saman þarna eins og jafningjar einhverja mínútu og svo var hann sjúklingur á ný. Enginn annar maður hefur verið mér meiri skóli í ráðgjafastarfinu en þessi prúði alkohólisti, læknirinn upp í Dölum. Ég skildi að mér hafði tekist að æfa vel eiginleikann sem Þórarinn Tyrfingsson benti á, ég hafði fengið það staðfest og það var mér mikilvægt. Ég æfði þetta á alkohólistum en get nú notað það meðal venjulegs fólks þegar mér finnst það eiga við. Gústav fékk að njóta þess.

Þetta lítur kannski út eins og grobb en það er það alls ekki. Mér finnst mikilvægt að segja það og hef oft ætlað að gera það eftir að ég fór að blogga. Nú er það sagt. Á tímanum sem við Valdís bjuggum í Falun hitti ég lækninn nokkrum sinnum. Við bárum virðingu hvor fyrir öðrum. Og hvers vegna er það mikilvægt fyrir langt genginn alkohólista að heyra jákvæðar umsagnir um sig. Jú, þetta fólk hefur tapað sjálfsvirðingunni, sjálfstraustinu, sjálfsmyndinni, finnur sig ekki duga til neins, vera öðru vísi en aðrir og fleira og fleira. Bara þetta getur fengið manneskjuna til að drekka aftur. En -að ég segi að það sé virkilega athyglisvert að hlusta á manneskjuna þegar ég heyri að hún segir sannleikann, það er kannski það besta sem hefur skeð í mörg ár. Sama manneskja brýtur ekki reglurnar fyrir framan nefið á mér næstu dagana.


Kommentarer
Per Ekström

Verklig fin epistel här på Din blogg. Fin berättelse om läkaren från Dalarna. Detta är allt så sant.

Mvh/ Per

2009-11-27 @ 09:53:46
URL: http://www.per.is


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0