Fjölskyldumót -lokaorð

Það virðist kannski nóg komið um þessa daga okkar í Stokkhólmi en lokaorð verða það nú samt. Þegar fjölskylda hittist ekki oftar en við gerum, og á ég þá sérstaklega við þau frá Vestmannaeyjum, þá verður að nota það út í ystu æsar í þau skipti sem það á sér stað. Valgerður er orðin vön Stokkhólmi en systurnar Guðdís og Erla minna. Í gær sagði ég að ég hefði farið með systurnar á safn en Valdís og Valgerður fóru hins vegar í smá verslunarferð í miðbæ Stokkhólms á sama tíma. Við tókum strætisvagn báðar leiðir til og frá safni og á leiðinni heim fór vagninn sem við vorum í einmitt um aðal miðbæjartorgið í Stokkhólmi, Sergilstorg. Og viti menn; hverjir komu ekki inn þar aðrir en Valdís og Valgerður. Þetta þótti systrunum nú aldeilis skemmtilegt, að hittast svona óvænt í strætisvagni í Stokkhólmi. En það átti sér líka stað annar svona atburður í Stokkhólmi. Þær mæðgur voru allar á ferðinni eftir einhverri gangstéttinni og hver kom ekki þar móti þeim annar en skólastjóri frá Vestmannaeyjum sem er kunningi þeirra. Það var ekki alveg það sem þær áttu von á. Já, það er gott að það ske skemmtilegir hlutir sem fólk á ekki von á.


Pétur á auðvelt með að gantast við þær systur og fá þær til að hlæja eins og sést á myndinni. Ég er ekki svo laginn við svoleiðis. Þær hljóta að hafa haft það með sér heim að Pétur er býsna skemmtilegur kall en afi og amma eru mikið eldri. Eins og ég talaði líka um í gær völdu þær að fara á deild á safninu þar sem sérstaklega eru sýndar uppfinningar kvenna. Þar er mynd af konu sem var húsmóðir á mannmörgu heimili í Suður-Svíþjóð um og eftir árið 1700. Það var einmitt þá sem kartöflurnar komu til Svíþjóðar og notuðust þær þá gjarnan sem skrautjurt segir þarna í texta. Á þeim árum notuðu bæði menn og konur púður og í púðrinu var arsenik. Það var kannski svo einstaklega umhverfisvænt. En þessi kona fann það út að það var hægt að gera púður úr kartöflum og það var víst mun heilnæmara eins og gefur að skilja. Smám saman fann konan líka út að það var hægt að borða kartöflur. En svo komum við kannski að því mikilvægasta, einmitt þá, þótt það láti undarlega í fyrstu. Það var hægt að gera bæði öl og brennivín úr kartöflum. Jahá, og hvað með það? Jú, þá var hægt að baka brauð úr korninu til að metta með svöng börn, konur og menn. Það þótti þessari miklu húsmóður mikilvægt og við getum líklega verið sammála. Það var held ég ekki spurning að þær systur áttuðu sig á boðskapnum í þessu og þær sáu að uppfinningar kvenna snerust meira um mjúku málin en karla um vélar og eitthvað sem var stórt í sniðum. Að vísu var það kona sem fann upp uppþvottavélina.

Ég hef grun um að þarna á myndinni sitji Valgerður við tölvuna og hafi sinnt um stund vinnunni heima í Vestmannaeyjum.


Hér er hún Erla að leika "Í bljúgri bæn" á blokkflautu sem Rósa átti þegar hún var á þeim aldri sem Erla er á þarna á myndinni. Þær mæðgur skildu svo blokkflautuna eftir til afnota fyrir Hannes Guðjón þegar þar að kemur. Þessi flautuleikur var hluti af skírnarathöfninni hans nafna míns.


Hann afi er ögn letilegur þarna í stólnum í baksýn og átti reyndar ekkert að vera með. Það er ungviðið sem ég er að sýna. Nafna mínum líkaði þessi stelling mjög vel og það var ekki slæmt að hvíla á örmum hennar Guðdísar frænku sem kom frá Íslandi til að heimsækja hann.

Eitt sem ég verð að segja um þær systur. Í gær, sunnudag, voru þær Valgerður og Úsha, sú sem þær gistu hjá, á stórri matarkynningu. En þær systur fóru í stóra verslunarmiðstöð, bara tvær, en verslunarmiðstöðin var að vísu tengd húsinu sem þær bjuggu í undir Stokkhólmsdvölinni. Þar dunduðu þær dá lengi og svo urðu þær svangar og fengu sér hamboregara. Ég hefði viljað vera fluga á vegg og fylgjast með þeim systrum prufa vængina i hinum stóra heimi. Ég vil geta þess að þær höfðu farsíma en fjári hefði ég orðið hræddur á þeirra aldri. Úff!


Þá getum við farið að loka þessu. Mæðgurnar frá Vestmannaeyjum eru kannski einmitt núna þegar ég er að ljúka við að skrifa þetta á mánudegi að koma um borð í Herjólf á leiðinn heim, en þær lögðu af stað frá Stokkhólmi í morgun. Við Valdís fórum heim í fyrradag, laugardag, og nú er Stokkhólmsfjölskyldan ein eftir í litlu íbúðinni sinni á Kungsholmen í Stokkhólmi. Ég þakka ykkur öllum fyrir þessa samveru sem ég ber í hjarta mínu núna þegar ég er að skrifa þetta og mun gera lengi, lengi framvegis.

Við Valdís erum komin á Sólvelli og við byrjuðum á því að kveikja upp í kamínunni sem núna er búin að gera húsið hlýtt eftir meira en viku fjarveru héðan. Valdís var hjá sjúkraþjálfara í morgun og var dauðþreytt þegar við komum hingað. Hún lagði sig þess vegna þegar við vorum búin að fá okkur góðan kaffibolla meðan kamínan sendi frá sér fyrstu hitageislana. En ég fór í all langa gönguferð og kom heim í myrkri. En nú er sem sagt hlýtt og bjart hér inni og gott að vera og una við minningarnar og smá sýsl. Á morgun verða gönguæfingar því að núna fer ég að setja kraft í fætur mína. Ég finn að ég er tilbúinn í það.


Kommentarer
Valgerður

Komnar heim og allir í reglubundnum athöfnum í dag, vinnu og skóla. Gaman að myndinni af þér pabbi og Guðdísi og Hannesi Guðjóni því öll berið þið nú sama nafnið ef grannt er að gáð þó Guðdís hafi mömmu nafn reyndar með líka.

Kv

Valgerður

2009-11-10 @ 12:03:41
Guðjón Björnsson

Já, ég þarf ekki að kvarta, nafninu mínu er vel viðhaldið. Það vantaði eiginlega bæði Blogg og Facebook þegar Guðdís var skírð. Þá vorum við í Svärdsjö, allt of langt í burtu og mótlæti ríkjandi varðandi framtíð okkar í Svíþjóð. Úr því rættist svo í árslok það ár. Þið Guðdís komuð svo í heimsókn árið eftir og Jónatan og Kristinn nokkrum dögum seinna.

Kveðja,

pabbi

2009-11-10 @ 20:39:14
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Guðdís er nú ekki beint fædd á ferðavænum tíma árs í byrjun janúar og ég man að þá var skaðræðisveður dag eftir dag og fyrstu þrjá mánuðina varla hægt að vera með hana úti því það var svo kalt.

VG

2009-11-11 @ 11:19:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0