Eftir fjölskyldumót í Stokkhólmi

Nú er mál til komið að byrja aftur að blogga og ég ætlaði upphaflega að byrja þegar í morgun. En ég hef verið flakkandi um allt í huganum það sem af er degi og hreinlega ekki verið tilbúinn. Nú er ég sestur við bloggið og þá er von.

Það voru upplifunarríkir þrír dagar í Stokkhólmi af mörgum ástæðum. Ég get ekki látið vera að byrja að tala um yngsta barnabarnið, hann dótturson minn og nafna, Hannes Guðjón. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hann og fyrst svaf hann vært í vagninum sínum svo að ég varð að sýna þolinmæði og bíða þess að hann vaknaði. Já, og hvað á ég svo að segja. Það er langt síðan ég hef tekið svo ungt barn á arma mína og við nafni minn höfðum sex áhorfendur þegar ég tók við honum í fyrsta skipti. Það gekk vel og innan skamms tókum við tal saman og hjöluðum báðir. Hann hló líka fyrir afa sinn og það er alveg einstök tilfinninga að fá bros og til og með hlátur frá svona ungri og fallegri mannveru. Það er eins og það komist á samband sem ekki er nokkur leið að lýsa á blaði. Allir sem hafa reynslu af þessu skilja það og það verður að nægja.

Ég tala oft um þroska, orða það oft með því að segja "að verða fullorðnari". Ég held hreinlega að ég hafi verið þroskaðri nú fyrir barnabarn en ég hef verið áður og því voru áhrifin sterkari. Einnig að hún Rósa, yngri dóttir mín var orðin þetta fullorðin þegar hún fékk sitt fyrsta barn, það gerði einnig sitt.

Svo að Valgerður kom frá Vestmannaeyjum með systurnar tvær, Guðdísi og Erlu, það gerði þessa Stokkhólmsdaga ennþá mikilvægari. Það verður bara að viðurkennast að fjarlægðin gerir að við hittumst of sjaldan. Þó höfum við náð að hittast tvisvar á þessu ári þar sem Guðdís fermdist í vor.

Það var teklið mikið af myndum í Stokkhólmi og nú ætla ég að láta þær tala.


Síðasta daginn okkar Valdísar í Stokkhólmi, í gær, laugardag, var nafnið hans Hannesar Guðjóns staðfest, við getum kannski líka sagt að hann var skírður þó að enginn prestur væri viðstaddur. Í staðinn fyrir vatn fékk hann blómakrans á höfuðið. Eins og svo mörg önnur börn var hann ekki ekki alveg rólegur við þessa athöfn, en viti menn; svo sungu viðstaddir "Ó, Faðir, gjör mig lítið ljós" og Pétur lék undir á gítar. Þá varð hann svo undur rólegur. Ég verð nú að segja að þetta hafði áhrif á mig. Við vorum tíu þarna viðstödd, Rósa og fjölskylda, Valgerður og dætur, Elísabet vinkona þeirra í stokkhólmi og Embla dóttir hennar, og svo við Valdís.


En þó að hann yrði svona rólegur undir sálmasöngnum var alveg dásamlegt að hvíla sig á arminum hans pabba á eftir. Fyrsta barnið sem var skírt í þessum skírnarkjól var Valgerður og síðan mörg önnur börn, bæði í Hrísey og Reykjavík og meira að segja í Svíþjóð fyrir mörgum árum.


Þarna hvílir Hannes Guðjón á örmum Vestmannaeyjafjölskyldunnar, og sjáið minn mann, hann horfir beint inn í myndavélina og er hvergi banginn. Mikið var gaman að þið voruð hér Vestmannaeyingar. Daginn áður fór ég með systrunum á Tæknisafnið í Stokkhólmi. Við fengum kort af húsinu og þegar ég spurði þær hvort þær hefðu sérstakar óskir, þá svöruðu þær því til að þær vildu koma á deildina "Uppfinningar kvenna". Því skoðuðum við þetta um uppfinningar kvenna áður en við enduðum þessa safnheimsókn með hressingu á veitingahúsinu þar.


Nú snúum við okkur aftur að deginum hans Hannesar Guðjóns eftir útúrdúrinn um safnið. Hér eru þær Valgerður og Elísabet málvísindakona og vinkona Rósu og Péturs í Stokkhólmi. Elísabet er ekki bara vinkona þeirra, heldur mikið góð vinkona þeirra. Hún er líka Guðmóðir Hanneasar Guðjóns.


Vestmannaeyjasysturnar Erla og Guðdís ásamt Emblu dóttur Elísabetar Guðmóður Hannesar Guðjóns. Honum leið mikið vel á þessari gæru og því var svo vinsælt að taka myndir af honum þar. Hann talaði mikið og munnurinn sýndi mörg tilbrigði þegar hann tjáði sig og veifaði höndunum.


Amma og afi alveg grútmontin en reyna að fara vel með það. Ég skal bara viðurkenna að ég er orðinn svo tilfinningasamur með aldrinum að stundum verð ég að taka málhvíld til að jafna mig.


Þarna fengu pabbi og mamma hann til að hlæja og það var alveg ofsa gaman.


Þessi mynd var tekin daginn áður og ég held bara að hann sé þarna að enda við að segja: Mikið er alltaf gott að koma aftur og aftur til hennar mömmu.

Ef einhver skyldi vilja sjá fleiri myndir finnst mikið af þeim á myndasafninu hennar Valdísar
www.flickr.com/photos/valdisoggudjon


Kommentarer
Valgerður

Gott blogg pabbi minn.

Valgerður

2009-11-08 @ 17:49:06
Guðjón



Takk fyrir það Valgerður mín.

2009-11-08 @ 17:52:33
URL: http://gudjon.blogg.se/
Rósa

Þetta er mikð fallegt blogg hjá þér, pabbi minn. Hann nafni þinn biður að heilsa.



Kveðja,



R

2009-11-08 @ 18:44:09
Guðjón

Þakka þér fyrir Rósa mín og skilaðu mikið góðri kveðju til baka.

2009-11-08 @ 19:00:31
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Mikið er gaman að lesa þetta og sjá myndirnar.

Ég held að ég geti skilið hvernig ykkur leið. Á sunnudaginn fyrir viku voru litlu tvíburarnir hennar Arnheiðar skírðir í Akureyrarkirkju og eftir skírnina þegar við vorum búin að syngja síðasta versið í skírnarsálminum breyttist eftirspilið í brúðarmarsinn. Nýskírðu bræðurnir voru settir í fangið á okkur ömmunum og foreldrarnir gengu hönd í hönd upp að altarinu. Þetta fór svo leynt að enginn vissi þetta nema þau tvö og presturinn. En þetta var yndisleg stund og ennþá betri þegar frá líður.

Bestu kveðjur til allra í fjölskyldunni.



Þórlaug

2009-11-08 @ 23:08:30
Þóra H Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón mikið er yndislegt að sjá hvað allt gengur vel hjá ykkur Valdísi og eru þetta myndar barnabörn sem þið eigið , mikið hefur verið gaman hjá ykkur að hittast þarna öll ,ég óska ykkur als hins besta og vonandi heldur þú áfram að hressast eftir aðgerðina og skrifa meira ,það er alveg hægt að gleyma sér hér við lestur langt fram á nótt

kveðja Þóra

2009-11-09 @ 00:29:32
Guðjón

Ja hérna Þórlaug og Þóra. Það var gott að lesa innleggin ykkar svona nýkominn á fætur. Það er eins og fólki líki vel að lesa um venjulegt líf sem ekki er fullt af hetjudáðum, afrekum og heiftarlegum uppákomim, heldur bara þetta sem á sér stað í flestum fjölskyldum á sinn lítilláta hátt. En ég skil þig Þórlaug að hafi virst næstum undur og stórmerki þegar byrjað var að spila brúðarmarsinn í kirkjunni.



Með þakklæti og bestu kveðjum til ykkar,



Guðjón

2009-11-09 @ 09:31:23
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0