Góður hversdagsleiki

Ég varð svo hugfanginn af skóginum sem ég fór um í gær að ég þurfti að taka mig taki til að hafa ekki bloggið allt of langt í gær. Og ekki minna hugfanginn af því hvað ég er orðinn fíkinn í að ganga. Ég talaði um furur sem eru tveir til fjórir metrar á hæð og að þær eru svo fallegar í þeirri stærð. Það fékk mig til að taka myndavélina með í dag og staðfesta það sem ég sagði. En það dugði ekki með þessa einu gönguferð. Ég fór af stað aftur í gær og fór nú í þveröfuga átt við fyrri gönguferðina og hafði hug á að mæta sporunum mínum frá því fyrr um daginn. Ég virtist óstöðvandi, en skynsemin sagði að ég mætti ekki fara svo langt að ég kæmist ekki til baka aftur. Því sneri ég við fyrr en ég vildi og áður en ég mætti sporunum mínum eins og ég sagði áðan.

Að vera út í skógi er hrein lystisemd. Ég sé ekki alltaf langt, eða öllu heldur, sé oft voða stutt. En það er ekki málið. Hins vegar er líka alltaf gaman þegar komið er út úr skóginum og við blasir langt útsýni eða stöðuvatn sem er innrammað af háum skógi. Svona stöðuvötn eru mjög gjarnan spegilslétt og þá verður dýpi þeirra eins djúpt og himingeimurinn ofan við er hár. Þetta eru engin ný sannindi en það er bara svo heillandi. Þá er auðvelt að verða dreyminn, eða hugfanginn, eða aldeilis orðlaus. Mér líkar vel, ég vil ekki segja allra best, og þó. Stundum er alla vega allra, allra best að vera einn út í skógi, jafnvel þar sem ég sé minnst í kringum mig. Ef ég er í góðu jafnvægi verð ég einn með öllu þessu lifandi kraftaverki. Trjánum sem umlykja mig, skógargróðrinum, hérunum, músunum og dádýrunum sem lifa á því sem náttúran býður upp á. Þá skiptir engu máli þó að ég sjái ekki til fjalla í fjarska.

Birkir frændi minn á Selfossi sendir mér stundum myndir úr heiðunum ofan við Kálfafell. Í sumum tilfellum er sem ég hafi setið á steininum sem næstur er á einhverri myndinni og ég get fundið fyrir heimþrá þegar ég sé óheft útsýnið til allra átta. Svo kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég mundi gjarnan vilja geta heimsótt þessar slóðir oftar en ég geri en ég vilji þó heldur búa þar sem gróðurinn er óendanlegur. Þegar ég kom fyrst í Dalina á miklu frostatímabili í febrúar 1994 fannst mér sem ég hefði verið þar áður. Ég var næmur fyrir umhverfinu þá, það man ég vel, ég sem hafði haft löngun til víðáttumikilla skóga allt frá unglingsárum. Þarna var ég kominn mitt inn í djúpa skógana eins og þeir gerast bestir í Dölunum. Tveimur árum síðar fór ég að vinna í Vornesi sem er 200 kílómetrum sunnar. Á þeirri leið er nánast órofið skógarsvæði á 80 kílómetra kafla. Mér leið alltaf vel þegar ég ók gegnum þetta skógarþykkni.

Myndavélin var með í dag og hér fyrir neðan eru nokkrar myndanna.


Víst er það landslag, eða hvað? Það er bara lifandi. Þessar ungu furur þöktu fleiri hektara en að baki þeim er hálf gamall skógur blandaður furu og greni. Hálf gamall skógur, kannski 60 til 80 ára. Sólvellir eru spölkorn hinu megin við hæstu trén sem greina má lengst frá fyrir miðri mynd.


Skógarbotn í nærsýn, svo ótrúlega fallegur þó að komið sé fram í nóvember.


Skógarbotn séð lengra til. Trén þarna eru bæði greni og fura. Svo var þarna ein ólánleg björk fyrir mér. Hefði ég verið frárri á fæti hefði ég farið yfir skurð sem er við vegkantinn til að ná betri mynd út í kyrran skóginn. Ég ákvað þarna að á þessum stað skyldi ég seinna, þegar ég er laus við hækjur, fara í rannsóknarferð um þetta heillandi svæði.


Þvílík fín fyrirsæt þessi stafafura (held ég) sem hefur vaxið eina 60 sentimetra á árinu og hvað hún brosti fallega við myndavélinni og mér. Meðan vaxtarsprotinn enn er jurtakenndur á furunum eru þeir eftirlætisfæða elgsins. Hann bara fær ekki betra. Og þó að allra, allra flestir beri mikla virðingu fyrir elgnum sjá skógarbændur eftir nýsprotunum í hann. Sagan segir að þegar fururnar eru orðnar of háar fyrir kálfana, þá beygi mæðurnar tréð þangað kálfarnir ná að bíta toppinn af.


Kommentarer
Anonym

Hafðu nú í huga pabbi minn að höggva eitt jólatré fyrir ykkur að ahfa með til Rósu að hafa um jólin. Þú hefur nógan tíma til að velja.

Kv

Valgerður

2009-11-12 @ 17:58:33
Guðjón

Ég hef bara allan tíma sem til er og töluverðan efnivið.

Kveðja,

pabbi

2009-11-12 @ 18:56:10
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0