Ja hérnana hér

Við Valdís ákváðum síðdegis í gær að fara heim og fara í meiri háttar hreingerningu og smávegis lagfæringar hér heima. Rimlagardínuna sem ég var of taugaveiklaður til að geta gert við daginn sem hann dóttursonur minn og nafni fæddist dró ég undan kommóðu í gærkvöldi svo að ég mundi án alls efa muna eftir að gera við hana í dag. Viðgerðin tók mjög langan tíma en nú er ég kominn með góða kunnáttu í því að setja nýjan músastiga í rimlagardínur og ég mun því taka gardínuna í eldhúsinu, sem er farin að láta á sjá, taka hana til viðgerðar án þess að kvíða fyrir því í marga daga. Batnandi manni er best að lifa.

Hreingerningin lenti mest á Valdísi og það sem sú manneskja tók til hendinni í dag. Það var alveg með endemum. Mér stóð varla á sama krafturinn í konunni. Svo mikil var ferðin á henni að ég sá mér ekki annað fært en leggja frá mér hina hækjuna líka og ganga um hækjulaus. Annars hefði ég bara verið fyrir. Þegar hreingerningunni var að verða lokið studdi Valdís sig allt í einu við skúringagræjuna og sagði; þetta verður nú jólahreingerning líka. Ég nýt þeirra hugmyndar núna þegar ég er að skrifa þetta og ég vona að hún geri það líka.

Síðan fór Valdís á kóræfingu út í kirkju og ég á AA fund í Fjugesta með honum Hans vini mínum. Ég kalla hann alla vega Hans. Hér erum við nú að búa okkur undir það að bursta og pissa og leggja okkur því að við eigum von á heimsókn klukkan tíu í fyrramálið, en sú heimsókn er ennþá leyndarmál, verður kannski alltaf. Þetta er búinn að vera afbragðs góður dagur ef Valdís hefur ekki gert sér illt með hreingerningatörninni. Það er orðið áliðið.

Áður en ég fór á fundin og strax eftir fundinn skrifaði ég ógnar langt blogg um íslensk stjórnmál. Ég lét reiði mína gasa í þessu bloggi en þegar ég var búinn að gera gróft uppkast taldi ég mig hafa fengið útrás og ákvað að birta það ekki. Ég ætla bara að segja að ákveðin stjórnmálaöfl eru ábyrg fyrir því að greiðslur okkar Valdísar frá Íslandi hafa lækkað að verðgildi um nákvæmlega 50 %.

Að öðru leyti er ég harð ánægður með minn hlut. Ég sagði áðan að ég hefði lagt frá mér hina hækjuna líka. Já, heilsa mín er ólýsanleg og ég þurfti bara að borga 400 krónur til að fá hana. Allt það dásamlega fólk sem kom nálægt mjaðmaaðgerðinni minni á fjörutíu ára afmælisdaginn hennar Rósu, og allt fyrir utan þessar 400 krónur borgaði sænska ríkið. Rósa kallaði það afmælisgjöfina frá sænska ríkinu. Við Rósa og Pétur og Valdís erum ekki nýsk á að borga skatt. Við fáum mikið fyrir hann. Hins vegar mun ég samkvæmt góðum ráðum nota hækjurnar enn í einar fjórar vikur til viðbótar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0