Þjóðfundur og framtíð mannkyns

Kannski er ég meira gamaldags en gengur og gerist og ætti þá jafnvel að hafa vit á að fara mátulega hljóðlega með það. En nú þegar ég las í morgun frétt í íslensku blöðunum um þjóðfund, þá fannst mér sem ég gæti látið alla vega þá sem hugsanlega lesa þetta blogg vita hvernig minn gamaldags hugsunarháttur lítur út.

Ég byrjaði að vinna í Vornesi í febrúar 1996 og þar sem við bjuggum þá í Falun sem er í 240 km akstursfjarlægð frá Vornesi bjó ég þar alla þá virku daga sem ég vann. Þetta þýddi að ég fór í flestum tilfellum heim á föstudögum og fór til baka á sunnudagskvöldum eða mánudagsmorgnum. Fyrri hluta árs 1996 skiptum við um sjónvarp. Normandi tækið sem við keyptum í Hríesy var þá orðið 16 ára að ég held, og nú fengum við nýmóðins Sony tæki. Ég fann engan mun á gamla Normandi tækinu og nýmóðins Sony tækinu annan en þann að það var hægt að lesa textavarp í Sony. Það uppgötvaði ég þó ekki fyrr en löngu seinna. En nú bar vel í veiði. Ég bjó einn í húsi í Vornesi lengi vel og þess vegna fór ég með gamla Normandi þangað og gat nú horft á sjónvarp að vild þegar ég var ekki að vinna. Ég horfði í fyrsta lagi á fréttir því að í þessum nýja landshluta, Södermanland, var margt nýtt að sjá og var ég mikið á gönguferðum eða að ég fór í smá bíltúra á kvöldin til að sjá mig um.

Í fréttum hér var mikið talað um atvinuleysi árið 1996. En það komu líka fréttir um þær miklu framfarir í Norrköping að pósturinn væri kominn með tölvu til að lesa sundur póst og þar með væri hægt að segja upp 14 manns. Út frá ágóðasjónarmiði fyrirtækis gat ég skilið að þetta væri framför en alls ekki út frá sjónarmiði þeirra sem misstu vinnuna. Þessi frétt var svo endurtekin nokkrum dögum síðar en ég gat samt ekki skilið, -ekki til fullnustu. Þetta horfði ég á í 16 ára gamla sjónvarpinu sem flutt var til Svíþjóðar frá Hrísey. Síðan árið 1996 hafa komið þúsundir frétta um tækni sem gerir kleyft að segja upp fólki.

Þegar kreppan skall á, kreppa sem ég hef svo sem ekki orðið var við á annan hátt en að íslensku greiðslurnar okkar Valdísar eru nú bara hálfvirði, töluðu stjórnmálamenn hér í landi um lausnir. Forsætisráðherrann sagði eitt sinn, eða oft, í sjónvarpsviðtali að bjartsýni fólks þyrfti að aukast aftur svo að neyslan færi í gang og auka þyrfti framleiðsluna. Þá ykist vinnan og þá ykist kaupmátturinn og þá ykist neyslan enn meira og framleiðslufyrirtækin færu á fullt á ný.

Allir sem fylgjast með vita að ef allir jarðarbúar lifðu eins og við vesturlandabúar gerum, þá þyrftum við nokkrar jarðir til viðbótar til að geta skaffað hráefni og mat til neyslunnar og þá er enn óleyst hvað gera skal við allan úrganginn hvort sem það eru hálf notuð sjónvörp, bílar, heimilistæki eða útblássturinn frá bílunum okkar með meiru. Öll jarðarinnar börn sem búa við lélega heilsugæslu, samgöngubresti, hungur, menntunarleysi og allt mögulegt fleira vilja komast þaðan og nálgast þau lífsgæði sem við vesturlandabúar lifum við. En við ströndum bara á því að það er ekki hægt. Flestir þeir sem missa vinnuna vegna tækniframfara eiga kannski kost á nýrri vinnu ef þeir eru nógu duglegir. En hvað mneð getu jarðarinnar?

"Þjóðfundur um íslenskt þjóðfélag, endurmat þeirra grundvallargilda sem samfélagið er reist á og skýrari framtíðarsýn" . . . er yfirskrift Þjóðfundarins sem nú stendur yfir í Reykjavík. Ég vil undirstrika endurmat þeirra grundvallargilda sem samfélagið er reist á. Eftir því sem ég skil best hefur íslenski Þjóðfundurinn vakið heimsathygli. Ég vona að niðurstaðan verði svo mikilvæg að hún veki líka heimsathygli. Ég held að heimurinn þurfi þess með. Ég á fjögur barnabörn og þrjú þeirra eru ennþá varnarlaus gegn því sem við eldri aðhöfumst.


Ps
Normandi sjónvarpið varð 26 ára og bilaði aldrei. Mér fannst það alltaf jafn gott þar við sem unnum í Vornesi horfðum á það. Að lokum varð það fyrir og það var flutt í viðeigandi gám á haugunum. Nýja Sony tækið er orðið 13 ára. Til að koma máli mínu á framfæri hefði ég þurft mikið lengra blogg en þetta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0