Fjöskyldumót framhald

Í gær hætti ég þar sem Kristinn dóttursonur, ellefu ára gamall, var kominn með lestinni frá Stokkhólmi upp í Falun og þaðan heim til okkar í Svärdsjö. Þar voru þá margir íslendingar og Kristinn varð fljótur að eignast þar vinkonu, hana Elísabetu Gísladóttur. Hann meira að segja fékk að sitja með henni einn dag í skóla. En svo var það þetta með dýr sem var svo yfirmáta spennandi. Við fórum út að keyra á skógsvegum án árangurs lengi vel fyrir utan svartan kött sem við sáum lámast yfir veginn og ekki vakti neinn fögnuð. Annað síðdegi vorum við á svipuðum slóðum og vorum að leggja af stað heim á leið þegar við komum í skógarrjóður þar sem lítil hæð var á hægri hönd. Og loksins. Þarna í hæðinni fékk Kristinn að sjá stóra elgskú með kálf. Hann réði sér varla fyrir kæti og ég held að við Valdís höfum líka verið álíka glöð yfir að þetta tókst. Í annað skipti vorum við á leið til Falun og völdum fáfarnari minni veg. Þarna eru dádýr sagði Valdís allt í einu úr aftursætinu. Við stoppuðum og gátum stutta stund horft á nokkur dádýr í þokkalegri fjarlægð. Þegar þeirri sýningu lauk leit Kristinn aftur í til ömmu sinnar og sagði: Mikið varstu nú góð amma mín að taka eftir þessu.

Við fórum með Kristin í það sem við kölluðum óvissuferð, stefndum á Björnparken, Bajarnargarðinn, langt norðvestur í Dölunum, og Rósa og Pétur voru einnig með. Innan skamms varð Kristinn leiður á þessari óvissudellu í okkur og var orðinn þungur á brún og röddin djúp og örg. Allt í einu tókum við eftir að hann snarlifnaði við, bara á einu andartaki, og sagði gerbreyttri röddu: Það er næst til hægri Pétur (ég held að Pétur hafi keyrt bílinn). Kristinn hafði séð vegskilti þar sem stóð Björnparken og þar var ör til hægri. Síðan sá hann marga skógarbirni og óvissuferðin varð góð.

Sumarið 1996 var ég að vinna í Vornesi þegar Valgerður kom í heimsókn með Guðdísi, en hvorugt okkar Valdísar hafði þá hitt hana áður. Á leiðinni heim eftir vinnutörn velti ég því fyrir mér hvernig það yrði að hitta þetta barnabarn. Skyldi hún vilja koma til mín og hvernig mundi okkur verða til vina? Þegar ég kom inn heima og heilsaði, þá þrýsti hún sér upp að mömmu sinni og leitaði vars. Hann var greinilega skrýtinn kallinn sem kom þarna. Margar lestir fóru daglega fram hjá húsinu sem við bjuggum í og Guðdísi fannst lestirnar spennandi eða hreinlega að við gerðum henni þetta spennandi. Við sögðum lest, lest og hún kom hlaupandi svo að við gætum lyft henni svo að hún sæi yfir svalahandriðið. Þegar Guðdís kom heim til sín eftir Svíþjóðarferðina vissi hún ekki að það var lest sem rúllaði eftir teinunum, við höfðum óvart kennt henni að það væri lest lest.

Erla mín, nú ert þú eftir, smiðurinn sem kom í heimsókn fyrir rúmlega tveimur árum. Þá komu öll systkinin í heimsókn, Kristinn með Karlottu kærustuna sína, Guðdís þá 12 ára og Erla 10 ára. Kristinn kom á Sólvelli og hjálpaði mér að rífa utanhússpanel af vegg, vegg sem þá var orðinn undir þaki vegna viðbyggingar. Erla sagðist vilja hjálpa líka og hún greip hamar og fór að naglhreinsa. Það gekk kannski ekki eins og hjá smið til margra ára en eitt er víst; hún gaf sig ekki. Svo sýndi hún afa og ömmu hvernig maður fer í splitt.

Þarna voru þær systur sem sagt Guðdís og Erla verðandi unglingar. Það var í fyrsta skipti sem þær tóku eftir fólki, landslagi, náttúru og fleiru sem fullorðnir taka kannski frekar eftir. Þær voru búnar að fá dýraáhugann sem bróðir þeirra hafði haft 13 árum áður þegar hann kom í heimsóknina til Svärdsjö. Þær hrifust af víðaáttumiklum ökrunum sem mikið er af í landbúnaðarhéraðinu þar sem Sólvellir eru. "Mikill morgunverður hér" sögðu þær þegar við fórum framhjá þessum ökrum og þá voru þær farnar að meta akrana í heitum hafragraut og fersku brauði. Svo fóru þær nokkrum sinnum með okkur um Sólovallaskóginn og voru forvitnar um trjátegndir og annað sem fyrir augu bar. Já, það var skemmtileg heimsóknin þeirra sumarið 2007.

Eitt atriði enn um þá heimsókn. Annelie vinkona Valdísar á synina Adam og Samúel og þeir eru á svipuðum aldri og þær systur. Hún kom með synina til að veita systrunum frá Íslandi svolítinn félsagsskap og hafði talað um það við þá á leiðinni að vera nú skemmtilegir við íslensku stelpurnar. Svo komu þau út úr bílnum og bræðurnir reyndu dauðfeimnir að fela sig bakvið mömmu sína. Það tók hún ekki í mál en feimnir voru þeir samt og svo urðu íslensku stúlkurnar feimnar líka. Þau stóðu öll fjögur og horfðu steinhljóð hvert á annað og enginn vissi hvernig ætti að brjóta þennan hræðilega múr. Allt í einu fléttaði Guðdís saman fingurna og sneri svo upp á handleggina en Erla fleygði sér á jörðina og fór í splitt. Yngri bróðirinn hoppaði upp og lét sig svo detta á rassinn en hinn benti á hann og rak upp tröllahlátur. Svo varð öllu léttara yfir samkomunni. Fyrirgefið Guðdís og Erla að ég segi svona frá þessu, en þetta var bara reglulega sniðugt og svo undur eðlilegt.

Hér með líkur þessum annálum af barnabörnum í heimsóknum í Svíþjóð en síðar koma nýir annálar eftir nýjar heimsóknir


Kommentarer
Valgerður

Veit ekki hvort þú viljandi slepptir því þega Erla kom fyrst til Svíþjóðar eða hvort þú hafðir það ekki í huga þegar bloggið var skrifað en þá var Guðdís þriggja og hálfs árs og Erla þá eins og hálfs og þið bjugguð í Falun.

VG

2009-11-01 @ 14:19:40
Guðjón Björnsson

Það er þessi heimsókn sem er óljósust í mínum huga en við fluttum til Örebro í Brickebackann 1. febrúar 1997 svo að heimsóknin sem þú talar um hlýtur að hafa verið til Örebro. Við sigldum á bátnum Paddan í rigningu upp eftir Svartánni upp að stað sem heitir Karlslund. Afskaplega falleg siglingaleið en rigningin dró auðvitað úr gæðunum. Rósa passaði Erlu og Guðdísi og skilaði á meðan við vorum í siglingunni mynd sem við höfðum leigt daginn áður.



Kveðja,



pabbi

2009-11-01 @ 15:05:35
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0