Bjartur er samur við sig

Sælir eru þeir sem eru búnir að borga reikningana sína því að þeir þurfa ekki að vera hræddir um að týna peningunum sínum, sagði ég áðan við Valdísi. En þá var ég einmitt að enda við að ganga frá reikningum mánaðarins í greiðslu. Þá veit ég að ég er frjáls maður í einn mánuð til. Svo er ég að lesa Sjálfstætt fólk og hann Bjartur í Sumarhúsum sá sjálfstæði mannsins á sinn hátt. Það er ótrúlegt hvernig Laxness bara gat dottið í hug að setja texta á blað eins og hann gerði. Hvaðan eiginlega fékk hann þetta allt saman? Ég var í gær nað lesa um pex þeirra sumarhúsahjóna um það hvort saltaður steinbítur, soðning, væri mannamatur eða ekki. Og Bjartur talaði um stórar fyrirætlanir sínar við Rósu sína en hún virtist ekki heyra hvað hann sagði. Hins vegar kom hún af stað eftirfarandi samtali:

   "Bjartur, sagði hún eftir stutta þögn. Mig langar í kjöt.
   Kjöt? spurði hann hissa. Á miðju sumri?
   Það kemur vatn í munninn á mér þegar ég sé kind.
   Vatn, endurtók hann. Jæja, ætli það sé ekki nábítur?
   Þessi saltsteinbítur er ekki hundum bjóðandi.
   Ég held að þú sért að verða eitthvað undarleg, heillin.
   Á Rauðsmýri var alltaf kjöt tvisvar í viku.
   Minstu ekki á andskotans hrossakjötið þess.
. . .
   Þar var aldrei slátrað öðru en gamalám og húðarbikkjum í fólkið. Það var þrælakjöt.
   Hvar er þá þitt kjöt?
   Frjáls maður getur lifað á soðningu. Sjálfstæði er betra en kjöt."

Og ekkert kjötið fékk Rósa í Sumarhúsum enda varð hún ekki glöð. Þrátt fyrir það get ég ráðlagt lestur þessarar bókar.

Við Valdís borðuðum hins vega lambakjöt um helgina og vinnan í eldhúsinu hélt áfram. Í dag hefur hins vegar ekki mikið áunnist annað en að skipuleggja framhaldið. Ég fór á trésmíðaverkstæði í dag með tvær skápahurðir sem ég þarf að fá lagfærðar ögn. Þegar ég kom þangað voru einungis tveir smiðir þar inni og einn ofur rólegur viðskiptavinur. Eins og hálfri mínútu síðar vorum við orðnir sjö. Maður á mínum aldri vatt sér inn með hurð i fanginu og honum fylgdu tveir yngri menn. Þar með upphófst ótrúlegur óróleiki þarna inni og maðurinn með hurðina fór mikinn og lýsti einhverju með miklu handapati sem ég hirti ekki um að hlusta á þar sem stór hjólsög hvein rétt við hliðina á þeim. Eftir nokkurra mínútna dvöl þarna inni fóru þessir þremenningar út og andrúmsloftið varð kyrrt á ný. Sögin hélt áfram að hvína og ungur smiður tók á ný að mata hana með smíðaviði. Ég fékk afgreiðslu hjá hinum manninum. Síðan gekk ég að sterklegri hurðinni sem borin hafði verið inn. Hún var hressilega brotin við skrána og greinilega var um innbrot að ræða. Kannski einhvern hafi vantað peninga fyrir reikningum sínum um mánaðamótin. Hann verður væntanlega ekki frjáls maður á næstunni, jafnvel þótt hann hafi haft eitthvað upp úr krafsinu og fari huldu höfði. Óttinn og samviskan verða væntanlega hans förunautar.

Nú er lítið annað að gera en hefja hinn hefðbundnu verk í baðherberginu fyrir háttinn og svo lít ég í bókina um Sumarhúsafólkið. Það er  merkilegt með hann Bjart, hann hefur ekki breytst hætis hót síðan ég las bókina fyrir einum 25 til 30 árum. Þrátt fyrir það get ég heils hugar ráðlagt ykkur að lesa hana.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0