Barbro og Gunnar á Kirkjubæjarklaustri

Í síðasta bloggi talaði ég um sænsk hjón, Barbro og Gunnar, sem voru okkur samferða með Norrænu á leið til Íslands árið 2002 og við ætluðum að sýna þeim Sænautasel á Jökuldalsheiði, og auðvitað Sænautavatn með. En það mistókst og svo höfðum við smá kveðjustund við Mývatn og reiknuðum ekkert með að hittast meira í þessari Íslandsferð. En það verður aðeins að segja frá augnablikinu þegar við hittumst þarna eftir ferðina yfir öræfin. Við Valdís komum fyrst til Mývatns og nokkru síðar renndu þau í hlað. Þegar Barbro steig út úr bílnum héldum við fyrst að hún hefði fengið sér all vel í tána. Hún hreinlega flögraði um kringum bílinn og baðaði út höndunum. Svo kom í ljós að þetta voru áhrifin af fyrstu kynnum hennar af Íslandi. Síðan steig Gunnar út úr bílnum en hann reyndi að sína aðeins meiri stillingu þrátt fyrir að hann væri líka frá sér numinn eftir ferðina. Kolsvartir hraundrangar trjónandi upp úr sandflákum, stórgrýttir hnjúkar og ásar, víðáttur, sjóndeildarhringur í órafjarlægð, grænn dýamosi í skorningum og fleira og fleira nýstárlegt hafði fangað hug þeirra allan. Reykur úr einkennilega litum leirkeldum við Námaskarð hafði einnig vakið athygli þeirra. Svo drukkum við kaffi og borðuðum stórar brauðsneiðar með reyktum fiski úr Mývatni.

Að lokum kvöddumst við og skiptumst á símanúmerum ef við skyldum vilja hafa samband síðar, annað hvort á Íslandi eða eftir að heim til Svíþjóðar væri komið. Við Valdís héldum til Hríseyjar og þar var að fara í gang Hríseyjarhátíð. Annað kvöldið sem við vorum í Hrísey vorum við á samkomusvæðinu og horfðum á skemmtiatriði. Þá studdi einhver hönd á öxl okkar, og viti menn; Barbro og Gunnar voru mætt á svæðið og stóðu þarna allt í einu mitt á meðal okkar. Þau höfðu sögur að segja. Þau höfðu farið aftur í Námaskarð og gengið um leirhverasvæðið og Gunnar sagði að það hefði ekki einungis verið magnað, honum fannst það líkjast hugmyndum hans af helvíti. Þau höfðu farið í hvalaskoðunarferð frá Húsavík og séð marga hvali og þannig héldu þau áfram. Þegar þau voru komin í hús á Akureyri kíktu þau í bækling um Hrísey sem Valdís hafði gefið þeim og þá áttuðu þau sig á Hríseyjarhátíðinni og hvar okkur var að finna. Það var engum blöðum um það að fletta að þau drifu sig af stað aftur og óku út á Sand og náðu einni af mörgum ferjuferðum þetta kvöld og svo hittumst við í Hrísey.

Frá Hrísey héldum við Valdís á Skagaströnd til Guðnýjar systur, síðan til Reykjavíkur og að lokum á Kirkjubæjarklaustur þar sem Valgerður var þá skólastjóri. Að kvöldi dags á Klaustri fékk ég sms. Það var frá Gunnari og hann sagði að þau væru í Vík og færu þaðan áleiðis austur morguninn eftir. Hann spurði hvar á landinu við værum. Ég svaraði og með leyfi Valgerðar og Jónatans bauð ég þeim til morgunverðar heima hjá þeim morguninn eftir. Það voru glaðar manneskjur sem komu til þessa vel útilátna morgunverðar og þau spurðu hvort þetta væri dæmigerður íslenskur morgunverður. Þeim var svarað því að þessi morgunverður væri venju fremur vel útilátinn. Þau voru þarna um stund í góðu yfirlæti og virtust himinlifandi yfir þessari óvæntu uppákomu.

Aðeins fóru kveðjur á milli okkar og þeirra hjóna þegar til Svíþjóðar var komið en það var ekki fyrr en árið eftir sem við spurðum þau hvar væri skemmtilegast að vera í Smálöndum ef við legðum leið okkar þangað. Við Valdís höfðum verið með áætlanir um Smálandaferð í nokkur ár. Þau sögðust eiginlega ekki geta svarað því en sögðust hins vegar stinga upp á að við gistum hjá þeim einar þrjár nætur og þau skyldu kynna fyrir nokkur hluta Smálandanna. Það varð úr og meðan á þessari heimsókn okkar til þeirra stóð, töluðu þau mikið um Íslandsferðina. Þau voru afar þakklát yfir að hafa hitt okkur og kannski var það meiningin hjá Gunnari þegar við hittum hann á hafnarbakkanum í Bergen, að kynnast einhverjum sem gæti verið svolítill tengiliður milli þeirra og Íslands. Eitthvað það allra besta við ferðina var morgunverðurinn á Klaustri. Að fá að koma inn á íslenskt heimili og eiga stund með íslenskri fjölskyldu, það var ekki á óskalistanum því að það var ekki mögulegt. Það varð eigi að síður. Það stórkostlegasta við íslenskt landslag voru öræfin á Norðausturlandi og síðan Frá Vík og austur til Seyðisfjarðar, sérstaklega sanda- og jöklasvæðin á Suðausturlandi.

Hugmyndin að þessum línum fékk ég þegar ég bloggaði um Bjart og fjölskyldu að Sumarhúsum í fyrradag. Ef einhver skyldi vilja vita hvaða áhrif ferðalag útlendinga um Ísland hefur á viðkomandi, þá reyndi ég að koma því aðeins á framfæri. Barbro og Gunnar voru frábært fólk að kynnast.



Kommentarer
Valgerður

Það var nú bara í gærkveldi a við Jónaan vorum að tala um að nýr þáttur í ferðamanabransanum gæi verið að selja aðgang, heimóknir inn á íslensk heimili. Okkur fnnst það frkar óð hugmynd hjá okkur og þetta blogg styður það.

VG

2009-11-23 @ 15:06:51
Guðjón

Ég veit hvað varðar Barbro og Gunnar, þá var það mikils virði.

2009-11-23 @ 16:24:35
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0