Saga kringum Sænautavatn

Ég sagði í síðasta bloggi að ég hefði þá nýlokið við að skrifa blogg um viss íslensk stjórnmálaöfl og svo framvegis og ég hefði skrifað það í hreinni reiði. Síðan þegar ég hafði skrifað það, hafði ég fengið útrás og sá ekki ástæðu til að birta það.

Er þetta Ísland í dag hugsaði ég þegar skrifunum lauk í það skiptið og ég hallaði mér aftur á bak í stólnum og fann fyrir létti yfir að þessum skrifum var lokið. Síðan minntist ég sumardags eins 2002 þegar við Valdís sáum Ísland rísa úr sæ þar sem við nálguðumst Seyðisfjörð með ferjunni Norrænu. Ég var ákveðinn í einu; að koma við hjá Sænautavatni og hugsa til sögunnar um hann Bjart í sumarhúsum og fjölskyldu hans. En eftir því sem ég best veit hafði Halldór hugsað sér Sumarhús Þar sem ég hafði áður séð fallandi bæjarrústir í nágrenni Sænautavatns, Sænautasel. Síðast þegar ég kom þarna voru menn byrjaðir að reisa þar ný hús í stíl gömlu íslensku sveitabæjanna.

Á hafnarbakkanum í Bergen þegar við biðum eftir því að fá að komast um borð í ferjuna sáum við sænskan miðaldra mann sem gekk glaðlega milli bílanna og geislaði af löngun til að kynnast einhverjum komandi ferðafélaga. Þetta var kennarinn Gunnar og í nálægum bíl sat Barbro kona hans, félagsdmálafulltrúi í Smálöndunum. Hún kom líka á vetvang þegar hún sá að Gunnar hafði hitt fólk sem var tilbúið í félagsskap. Gunnar og Barbro urðu góðkunningjar okkar í ferðinni til Íslands og ég var ákveðinn í því að segja þeim eftir bestu getu eitthvað um hið mjög svo afskekta heiðarbýli við Sænautavatn.

Þegar við komum upp á öræfin og komum að skiltinu Sænautavatn ókum við Valdís inn á afleggjarann að vatninu og Gunnar og Barbro fylgdu á eftir okkur. Eftir eina tvo kílómetra áttaði ég mig á því að vegagerðarmenn höfðu fært veginn og ég hafði ekki hugmynd um hversu mikið. Það varð því úr að við færum ekki að heiðarbýlinu sem mig langaði þó svo mikið að heimsækja. Mig langaði að heimsækja Bjart og dreyma mig inn í sögu heiðarbóndans sem ætlaði að verða sjálfstæðasti maður Íslands af eigin krafti en tókst ei. Gunnar og Barbro voru manneskjur sem hefðu drukkið í sig allt sem við hefðum getað sagt þeim um þetta heiðarbýli og hina hörðu lífsbaráttu sem fólk háði. En úr því sem komið var ákváðum við að halda áfram til Mývatns og skipta okkur ekkert af hvert öðru fyrr en við mundum hittast á litlu veitingahúsi við Mývatn, veitingahúsi sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þar ætluðum við að fá okkur kaffi og vænar brauðsneiðar og reikna síðan með því að leiðir okkar mundu skilja þar.

Heiðarbærinn fannst mikið í hugskoti mínu á leiðinni til Mývatns og ég fór gegnum ýmislegt sem ég hafði ætlað að segja vinum okkar frá. Það voru margir og ólíkir fulltrúar í fjölskyldu Bjarts. Það var þreytta konan sem barðist áfram til að halda lífinu í börnunum sínum, þeim sem fengu að lifa, og reyna að koma þeim til manns. Það var Nonni litli sem ætlaði að gera heiminn betri með því að syngja fyrir hann.

   . . .
   "Mamma. Í fyrra sumar, þá sá ég einu sinni fossinn í bæjargljúfrinu og hann rann uppámóti í vindinum, hann rann afturábak yfir fjallið.
   Elskan mín, sagði hún þá, -mig dreymdi svolítið um þig.
   Ha?
   Mig dreymdi að huldukonan tók mig með sér í hann Bæarklett og rétti mér könnu af mjólk og sagði mér að drekka, og þegar ég var búinn að drekka, þá segir huldukonan: Vertu góð við hann Nonna litla, því hann á að sýngja fyrir allan heiminn.
   Hvernig? spurði hann.
   Ég veit það ekki, sagði móðir hans.
   Svo hvíldi hann við brjóst móður sinnar um stund og vissi ekki um neitt í öllum heiminum, nema hjárta móður sinnar sem sló. Að lokum reis hann upp.
   Mamma. Af hverju á ég að syngja fyrir allan heiminn?
   Það er draumur, sagði hún.
   Á ég að syngja fyrir heiðina?
   Já.
   Fyrir mýrina?
   Já.
   Og á ég líka að syngja fyrir fjallið?
   Svo segir huldukonan, sagði móðir hans."
   . . .

Heiðarbóndinn Bjartur í Sumarhúsum varð ekki sjálfstæðasti maðurinn í landinu. Þegar lífið hafði barið hann sundur og saman, svo heiftarlega að hann að lokum sá sér þann kost vænstan að taka ofan og lúta höfði, þá hafði hann misst jörðina Sumarhús. Hann hélt því að enn afskekktara heiðarbýli, Urðarseli. Þangað fannst ekki einu sinni hestvagnaslóð. Eitt systkinanna, Ásta Sóllilja, tákn ástarinnar í sögunni, stúlkan sem Bjartur hafði hrakið að heiman forðum tíð vegna þess að hún varð ófrísk. Nú voru komnar á sáttir en hún var mikið veik. Hún var þarna með í för en komst ekki lengra af eigin kröftum. Þá tók Bjartur til sinna ráða.
. . .
"Síðan tók hann Ástu Sóllilju í fang sér og sagði henni að halda vel um hálsinn á sér, teymdi af stað. Þegar þau voru komin hátt upp í brekkurnar, hvíslaði hún:
   Nú er ég aftur hjá þér.
   Og hann svaraði:
   Haltu þér fast um hálsinn á mér, blómið mitt.
   Já, hvíslaði hún. Alltaf-meðan ég lifi. Eina blómið þitt. Lífsblómið þitt. Og ég skal ekki deyja nærri nærri strax.
   Síðan héldu þau áfram."

Bjartur og fjölskylda voru með í för á fjallvegunum á leið til Mývatns þennan sumardag árið 2002 þó að ferðin að Sænautavatni hefði mistekist. Eftir að hafa lesið Sjálfstætt fólk í fyrsta skipti finnst mér oft sem fólkið hefði verið til í raun. Ég held líka að Halldór Laxness hafi verið svo sannur í skrifum sínum að það sé hægt að segja að það hafi verið til. Þegar ég nú skrifa þetta finn ég fyrir sterkri þörf fyrir að lesa bókina einu sinni enn. Hvílíkur auður fyrir íslendinga að eiga þessar gersemar sem Halldór skildi eftir sig. Nú er lag að lesa góða bók.

Þegar við Valdís að lokum komum að Mývatni og hittum Gunnar og Barbro voru það varla sömu manneskjur sem við hittum. Ferðin um fjallvegina og öræfin hafði tekið þau svo sterkum tökum að þau voru sem ölvuð. Þeirra fyrsti dagur á Íslandi hafði tekist með afbrigðum vel þó að mér hefði mistekist að kynna fyrir þeim fjallabóndann Bjart. Ég komst síðar að því að vegurinn hafði verið færður 13 kólómetra frá gamla fjallabýlinu.


Kommentarer
Valgerður

Ertu búinn að lesa Böðvar Guðmundsson?

2009-11-23 @ 14:59:30
Guðjón

Ég er bara hálfnaður að lesa fyrri bókina sem ég hef, Hýbýli vindanna.

2009-11-23 @ 16:22:38
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0