Fjölskyldumót

Á fimmtudag í næstu viku förum við til Stokkhólms. Það er nefnilega þannig að Valgerður kemur með dæturnar tvær til Stokkhólms og verður þar í viku. Og svo að fjölskyldan verði nú öll á sama stað förum við Valdís þangað líka. Dóttursonurinn Kristinn og tengdasonurinn Jónatan verða ekki með í för, en þrátt fyrir það kalla ég þetta fjölskyldumót.

Öll hittumst við síðast þegar við vorum í sumarhúsi á Hallandsási á Skáni fyrir líklega sex eða sjö árum, umkringd beykiskógum og rapsökrum og einmitt þá voru þessir akrar heiðgulir af rapsblómum. Þá voru Guðdís og Erla líflegir stelpuhnoðrar sem hjálpuðu afa sínum við að sortera ruslið sem til féll og ganga frá því í rétta kassa út í geymslu. Og þegar amma þeirra bakaði pönnukökur stóðu þær á stólum sín hvoru megin við hana og hjálpuðu til. Svo var það alla vega hugsað og það fylgdi góður hugur. Við betri tilfelli fóru þær í gulu kjólana sína og voru þá í frábærilega fallegu samræmi við gulan akurinn suður af húsinu.

Nú eru þær unglingar eins og Kristinn var þegar við vorum á Hallandsásnum. Þá fórum við stundum, þau systkinin og ég, til að gá að dýrum út í skógi og ókum þá litla skógarvegi. Kristinn var ekki kominn með bílpróf en honum fannst réttast að hann keyrði bílinn svo að ég gæti frekar hugað að dýrum. Svo ók hann bílnum og ég fylgdist með honum og hugaði að dýrum. Hallandsásinn var mjög nýskur á dýrin sín þessa viku svo að afrakstur var enginn.


Kristinn var hins vegar tíu ára þegar hann kom í fyrsta skipti til Svíþjóðar til að heimsækja Rósu og Pétur og afa og ömmu. Hann varð ellefu ára hjá Rósu og Pétri í Stokkhólmi og hélt upp á daginn með því að fara í tívolí í Gröna lund. Síðan vildi hann ólmur komast upp í Dali til afa og ömmu og það fór þannig að hann fór einn með lest frá Stokkhólmi til Falun, um 240 km leið. Meðan hann var á leiðinni áttum við í baráttu við sjálf okkur yfir að hafa látið okkur detta í hug að láta þennan patta fara þetta einan. Að lokum kom hin langþráða lest á stöðina í Falun og við héldum niðri í okkur andanum. En gleymið áhyggjunum. Út úr lestinni steig ungur maður með ferðatöskuna sína, alveg salla rólegur, og skimaði um eftir okkur. Hvað gerðirðu á leiðinni, spurðum við á leiðinni heim til okkar. Ég talaði við einhverja konu, svaraði hann og þótti ekkert sérstakt. Og á hvaða máli talaðir þú við konuna. Á ensku, svaraði hann og skimaði í kringum sig í þessu nýja landi. Hvar hefur þú lært ensku, varð okkur á að spyrja. Í sjónvarpinu svaraði hann og fannst ekkert sérstakt til um þetta. Jahérnanahér. Hvað amma og afi voru þræl stolt af þessum ellefu ára strák.

Nú er það svo að ég hélt þegar ég byrjaði að blogga að þetta yrðu örfáar línur. En sannleikurinn er sá að ég á heil mikið eftir. Ég verð að hafa framhald á þessu sýnist mér. En að lokum um ferðina til Stokkhólms næstu viku. Þá hitti ég hann Hannes Guðjón nafna minn í fyrsta skipti, tveggja mánaða gamlan stæltan strák. Ætli ég verði ekki feiminn þegar ég heilsa honum, eða hvað?



Þessi mynd var tekin af Hannesi Guðjóni rúmlega tveggja vikna gömlum þegar amma heimsótti hann. Þá var ég á sjúkrahúsi og því ekki með. Þegar hann var búinn að sitja svolitla stund hjá ömmu varð hann lúinn og svaf á örmum hennar í tvo tíma.

Að lokinni heimsókninni í næst viku verð ég með nóg af myndum af öðrum barnabörnum og fleira fólki til að nota á bloggið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0