Skýrsla úr Sólvallaskógi

Í gær skrifaði ég of mikið. Í dag ætla ég að nota margar myndir. Það er nefnilega búið að vera heil mikið líf á Sólvöllum í dag en merkilegt er það þó ef það virkilega er hægt að blogga um lífið á Sólvöllum dag eftir dag. Við skulum nú sjá.

Ég sem er búinn að sofa ekki minna en níu tíma á sólarhring lengi undanfarið er farinn að vakna úthvíldur á morgnana og fyrr en áður. Í morgun reif ég mig af stað upp úr klukkan átta, jah sjáum nú til, og það er stór framför. Ég kveikti upp í kamínunni þó að Valdís telji það sitt verkefni um þessar mundir. Svo vildi ég prufa eitthvað nýtt og fór út í fyrstu göngu dagsins fyrir morgunverð. Á þessari 600 metra göngu minni tók ég ákvörðun; í dag skal ég fara könnunarferð út í skóg. Hann var þarna svo skammt undan og lokkandi. Eftir þessa stuttu göngu (sem er ekki svo stutt fyrir mig um þessar mundir) var matarlystin með eindæmum. Valdís vildi líka koma með út í skóg en fyrst af öllu; sækja byrgðir af eldivið.

Valdís þrumaði af stað með hjólbörurnar og ég hringlaði eitthvað í kringum hana bendandi með hækjunum svona til að það væri nú alveg ljóst hvort okkar hefði typpið. Eftir að lagerrýmið við skorsteininn var orðið fullt af viði lögðum við af stað út í skóg. Fylgjandi myndir sýna að nokkru hvað þar er að hafa og hvort það er fyrirhafnarinnar virði að fara þangað.


Eina 30 metra frá húsinu er þessi hlynur. Blöð hlynsins eru um 15 sm breið og hlynur með fallega lagaða krónu eins og þessi er svo sannarlega staðarprýði. Svo eru hlynir þekktir fyrir að skarta afar fallegum haustlitum og þessi sannar það. Haustlitur þessa hlyns er jú gulur en annars er það breytilegt. Hér á Sólvöllum eru bjarkir búnar að missa meira lauf en til dæmis inn í Örebro. Hér blæs vestanáttin næstum óheft en við höfum líka okkar opna útsýni mót vestri.


Hér stendur Valdís bakvið beyki sem við fluttum úr skógi austur í Södermanland, nálægt Vornesi, og gróðursettum þarna í fyrravor. Það var meðal annars á þessu tré sem ég hældi haustbrumunum sem mest hér fyrir stuttu. Næsta ár má því reikna með að þetta tré fari að vaxa á fullu. Það er því mögulegt að Valdísi takist að fela sig betur á bakvið það eftir eitt ár. Myndin sýnir svo að það þarf ekki að taka það fram að þetta tré stendur stutt frá bústaðnum og væntingar eru um að það verði mikil staðarprýði innan fárra ára. Það er gaman að fylgjast með þessu.


Hér er hægt að sjá hvernig ég læt með hækjurnar, bendandi á hluti og með vit á öllu, eða hvað? Þetta er eik sem stendur lengra inn í skóginum svo sem 80 m bakvið húsið. Ég er búinn að snuðra alveg með ólíkindum í þessum skógi sem tilheyrir okkur en sannleikurinn er sá að við vorum búin að vera hér í þrju ár þegar ég fann þessa eik. Hún var illa á sig komin innan um freka reyniviði og greni sem tók frá henni birtuna. Nú er búið að kynda húsið á Sólvöllum með þessum reyniviði og það er búiða að byggja við Sólvallahúsið með greninu. Eikin er nú þakklát að ná sér á strik og krónan verður lögulegri ár frá ári.


Haustlitaða tréð vinstra megin við Valdísi er beyki flutt úr sama skógi í Södermanland og ég nefndi ofar. Það var gróðursett þarna í hitteðfyrra. Háu grenitrén framan við Valdísi voru í þeirri stærð sem við felldum og notuðum í viðbygginguna. Við bara tímdum ekki að fella þau og fegin erum við í dag. Það hefði verið rányrkja. Þau eru verðugir fulltrúar í þessum skógi í dag ásamt nokkrum öðrum stórum sem við skildum eftir, og þó að það sé meiningin að þessi skógur verði í fyrsta lagi laufskógur, þá fá þau að lifa og safna á sig mosa og þjóðsögum. Miðað við hæðina á þeim trjám sem við felldum í byggingarefni á sínum tíma þori ég að fullyrða að þessi tré eru ekki undir 26 metrum.


Háa, lauflausa tréð þarna framan við Valdísi og sem ber yfir lítið grenitré er ösp. Hún telst til stærri aspa. Ummál hennar í brjóasthæð er 134 sm. Hann Ingvar náttúrufræðingur og kórfélagi Valdísar sagði við mig á göngu um skóginn fyrir nokkrum árum að ef ég vildi vel skyldi ég láta svona aspir lifa. Hann sagði að þær væru mjög mikilvægar fyrir smáverulífið og þar með lífkeðjuna og ég sem taldi allt of mikið af öspum í skóginum. Þær meiga svo sannarlega halda áfram að vera þessi undirstaða. Þegar þessi ösp er full laufguð hefur hún tignarlega krónu.


Þar með erum við að koma út úr skóginum aftur og tréð sem ég stend undir er hlynur. Að standa undir þessari krónu, hvort heldur er að sumri eða núna á tíma haustlitanna, það er svolítið magnað. Þetta er ekkert stórt tré en krónan er þétt og frábær. Hver veit nema það komi hugleiðingabekkur undir þetta tré svona smám saman. Hinu megin við þennan hlyn er þrjár eikur sem lítið ber á, en þær eru heldur stærri en hlynurinn. Öll þessi tré áttu það sameiginlegt að vera innilokuð af greni og reyni eins og svo mörg önnur tré þegar við komum hingað þar til fyrir fjórum árum. Nú eru þau öll að launa fyrir frelsi sitt. Eftir þessa ferð sjáum við að beyki, hlynur og eik halda lengi haustlaufinu. Reyndar er það svo að ungt beyki heldur haustlaufinu þangað til það fer að laufgast næsta vor. margar ungar eikur gera þetta líka.

Hér með er lokið umferð um Sólvallaskóginn og það væri hægt að fara svona umferðir í nokkra daga og það væri alltaf ný upplifun og nýtt að segja frá.


Kommentarer
Rósa

Takk fyrir þessa skógarskýrslu! Gaman að vita hvernig gengur þarna í Sólvallarskóginum.



Kveðja,



R

2009-10-23 @ 18:19:51
Rósa

Takk fyrir þessa skógarskýrslu! Gaman að vita hvernig gengur þarna í Sólvallarskóginum.



Kveðja,



R

2009-10-23 @ 18:20:29
Valgerður

þá skrifar systir mín í tvírit, það er aldeilis að hún er orðin mikill skógarálfur. Flottir litir í skóginum ykkar.

Kv

Valgerður

2009-10-23 @ 19:47:01
Guðjón Björnsson

Já, þetta eru alveg frábærir litir og svo kemur þetta líka fyrir mig að það kemur í tvíriti. Fyrst þegar maður sendir er eins og ekkert hafið skeð og svo þegar maður sendir aftur kemur það tvisvar.



Kveðja til ykkar dætur,



pabbi

2009-10-23 @ 23:46:17
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0