Þriðji dagur á Sólvölum

Það sagði í blaði í gær að hitastigið fyrri helming október jafnaðist á við októberhita í Síberíu. Hitastigið í dag var svipað og síðustu daga en ósköp var samt gott veður. Það var logn og sól, loftið hreint og gott og skyggni afburða gott. Það voru margar smáar gönguferðir hér á Sólvölum í dag og svo hvíldir inn á milli. Samt sit ég nú hér og finnst ég vera þreyttur. Hún Elísabet, nágranninn norðan við, kom hálf hlaupandi yfir til okkar þegar hún sá okkur úti í gær og spurði hvernig gengi. Hún sagði meðal annars að ég skyldi ekki láta mér detta í hug að eftir tæpar þrjár vikur frá svo miklu inngrípandi í líkamann væri ég ekki ennþá þreyttur. Æ, hvað það var gott að hún sagði þetta, þá má ég vera þreyttur. Hún er nefnilega skurðstofuhjúkrunarkona hún Elísabet og hún veit sínu viti. Í dag hringdi ég í hana Birgittu forstöðukonu í Vornesi. Hún lék svona á alls oddi og stuttu síðar sendi hún mér e-póst þar sem hún endaði á að segja að ég yrði farinn að fara í höfrungahlaup innan skamms. Ja, það er naumast.




Eftir eina gönguferðina var veðrið bara svo gott að það var ekki hægt að fara inn. Þá hellti Valdís á könnuna og svo var haustsólarkaffitími og smá kökubiti með. Þarna undir vesturveggnum var hlýtt og notalegt og útsýnið aðveg frábært, en það verður sýnt síðar. Valdís hefur verið mikið með handavinnu að undanförnu og það er spurning hvort ekki væri hægt að vinna við handavinnu undir húsveggnum í svona veðri. Annars er jafnvel spáð snjókomu á morgun og ég bara mótmæli því ákaft. En ef það verður ekki snjókoma verður væntanlega rigning. En sjáum bara til; það munu koma fleiri sólarstundir undir vesturveggnum áður en langt um líður




Hinu megin við borðið sat svo karlpeningurinn á bænum, drjúgur með sig og með derhúfu og í Nike mýsbuxum. Það verður nú að vera sæmilegt sem sextíuogsjö ára maður klæðist þegar hann tekur frí frá smíðum í bústaðnum sínum og stundar bara stuttar gönguferðir og leggur sig inn á milli. En án alls gamans, þessi útivist í dag, alveg sérstaklega eftir að við höfðum líka setið úti yfir kaffinu og dáðst að sköpunarverkinu, var góð. Ég get sagt fyrir mitt leyti alla vega að lífsneistinn kittlaði óvenju mikið í brjóstinu á eftir. Svo fórum við inn, ég opnaði bók og fór að lesa. Bókin er Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson.



Stóra Sólvallaeikin stendur stendur á traustum rótum. Aðeins er hún farin að fella lauf. Hún haggast ekki þótt það blási en einstaka gömul grein getur hins vegar fallið niður. Það er bara hreinsun náttúrunnar. Í sjálfu sér er þessi eik ekkert stór þó að ég segi það oft. En þó, maður sem stendur upp við hana verður ósköp lítill á mynd miðað við tréð sjálft, bara pínulítill dvergur.





Og hér kemur svo mynd af útsýninu sem við höfðum yfir kaffibollanum í dag, pínulítið dregin að. Ég sagði ofar að loftið hefði verið svo hreint en þó sést það ekki alveg á myndinni. Fjöllin lengst burtu eru í meira en 15 km fjarlægð og sums staðar efst á þessum fjöllum hefur verið felldur skógur á seinni árum. Á þessum skógarhöggssvæðum mátti vel sjá, héðan frá Sólvöllum, stök tré sem þá voru skilin eftir. Það er mælikvarði fyrir gott skyggni hér á Sólvöllum.


Kommentarer
Rósa

Voðalega er eitthvað næs hjá ykkur!



Kveðja,



R

2009-10-16 @ 09:22:01
Guðjón Björnsson

Já, við þurfum ekkert að kvarta held ég.



Kveðja,



pabbi

2009-10-16 @ 10:45:36
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0