Mér er farið að líka athafnaleysið

Ég veit bara ekki hvenær áður í lífi mínu ég hef lifað við svo nánast algert athafnaleysi sem núna síðustu tæpar fjórar vikurnar. En viti menn; svei mér ef mér er ekki farið að líka þetta. Ég get horft inn í skóg, yfir til Kilsbergen, á akrana hérna vestan við, hugsa um ýmislegt sem eftir er að framkvæma við bústaðinn og svo mætti halda áfram. Ég hef aldrei verið atorkumaður en verið drjúgur við að seiglast áfram og sjaldan látið venjuegan dag líða án þess að snúa mér að einhverju verkefni. En sem sagt; nú gildir að gera ekkert.

Ég hef ekki talað um heilsu mína i nokkra daga og verð aðeins að koma þar við núna. Þegar ég var mænudeyfður á sjúkrahúsinu í Lindesberg fann ég hvernig verkurinn í vinstri fæti fjaraði út, snögghvarf ekki, heldur fjaraði út. Ég hafði ásett mér að fylgjast vel með þessu og gerði mér í hugarlund að verkurinn mundi snögg hverfa en svo varð ekki. Hann hvarf hægt. Nú eru tæpar fjórar vikur síðan og ég hef engan verk haft síðan verkurinn hvarf þarna við mænudeyfinguna. Vissar æfingar er mér uppálagt að stunda og sumar þeirra ullu sársauka meðan ég hafði stóra flekki af mari á fætinum, en við aðrar aðstæður; alls enginn sársauki. Svo hefur ýmislegt annað í heilsufari mínu brugðið til betri vegar eftir aðgerð. En hvað um það; ég á að fara mjög gætilega næstu vikurnar sem hingað til eftir aðgerð.

Í dag eins og flesta fyrri daga á Sólvöllum í heila viku hef ég horft mikið út um austurgluggann. Ég hef horft mikið á tvö beykitré sem við gróðursettum í fyrra vor. Ég segi tré. Þau eru rúmlega þrír metrar á hæð og við fengum að stinga þau upp í beykiskógi með það fyrir augum að grisja þann beykiskóg og svo gróðursettum við þau í Sólvallaskóginum. Nú erum við með 21 svona beykitré í skóginum hjá okkur, gróðursett á þremur árum, en ekkert á síðastliðnu vori. Það má segja að þessi gróðursetning á beykitrjám sé frumkvöðlavinna hér á svæðinu. Hér í nágrenninu eru engin beykitré.

En aftur að þessu að ég hafi verið að horfa á þessi tré undanfarið. Mig hefur nefnilega klæjað í fingurna eftir að ganga út að þessum trjám, koma aðeins við þau og sjá hvernig brumin líta út. Brumin sem byrja að þrútna í apríl í vor og þroski þeirra núna verður afgerandi um vöxt þessara trjáa á næsta ári. En, -ég má ekki ganga á ójöfnu landi ennþá. Á fjórða tímanum fór ég út í aðra æfingagöngu dagsins. Ég fann hvernig ég drógst næ og nær skóginum og að lokum ákvað ég að þetta væri alls ekki ójafnt land og ég gekk út að beykitrjánum. Gaman, gaman. Brumin á fyrra trénu sem ég kom að litu alveg óvenju vel ut. Ja, hérna. Svo gekk ég að ví næsta og sama þar. Þvílík falleg brum. Ég sá mig í anda í apríl næsta vor fara að ganga út í skóginn til að fylgjast með þessum fallegu brumum þegar þau fara að þrútna út og búa sig undir að opnast, sjá þau að lokum opnast og fylgjast með trjánum vaxa. Svona líf er gott líf.


Það var ekki hægt annað en láta fylgja með eina skógarmynd frá sumrinu, valin af slump á myndasafninu. reyndar gefur að líta eitt af þessum beykitrjám nær okkur og aðeins til hægri á myndinni. Það fyllir ekki mikið ut í þarna í skóginum en tölum saman árið sem við Valdís verðum sjötug, árið sem fólk fer að tala um beykiskóginn á Sólvöllum.


Kommentarer
Rósa

Duglegur þú að vera letipúki!



Kveðja,



R

2009-10-21 @ 09:09:42


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0