Geysir

Örebroflugvöllur er nánast beint norðan við Sólvelli í svo sem sjö kílómetra fjarlægð. Því er ekki óvenjulegt að kannski upp til fimm flugvélar fljúgi hér yfir dag hvern. Það er okkur ekkert vandamál og við unum því mun betur en ef það færu 200 bílar um veginn framann við bústaðinn. Í gær heyrðum við kunnuglegar drunur koma frá suðri, en þessar drunur boðuðu að ein af stærstu flutningaþotum heims væri í aðflugi. Svona nokkuð þekkjum við orðið og við hikum ekki við að fara út horfa á þessi ferlíki líða svo ótrúlega hægt hér yfir, mjög lágt og það gerðum við í gær. Það var orðið dimmt og það var næstum óraunverulegt að sjá þetta hálf upplýsta bákn svona nærri með öllum þeim gný sem fylgir.

Næstum óraunverulegt sagði ég og seint septemberkvöld 1950 var það líka býsna óraunverulegt þegar Valdemar stöðvarstjóri á Klaustri hringdi heim á Kálfafell eftir að allir voru sofnaðir að því er ég best man. Pabbi fór í símann og kom svo til baka með þeim orðum að millilandaflugvélar í vöruflutningaferð væri saknað og pabbi var beðinn að vera úti fram til klukkan tvö um nóttina eða svo og fylgjast með hvort nokkurrar flugvélar yrði vart. Eftir tiltekinn tíma var óþarft að vera úti þar sem þá væru bensínbyrgðir vélarinnar þrotnar. Síðan fór pabbi út í haustmyrkrið með þremur eldri bræðrum mínum ef ég man rétt. Alla vega meðan þeir voru úti á þessari vakt er ég viss um að ég svaf ekki og það snerist mikið í mínum átta ára heila þessa nótt. Hugsunin um að bensínið mundi klárast var mér ógnvænleg og ég skildi þegar þá hvert það mundi leiða ef flugvél í lofti yrði eldsneytislaus.

Síðan hófst leitin að Geysi, en það hét flugvélin, og er auðvitað minnisstæð öllum sem hafa aldur til og vakti þetta flugslys athygli á heimsmælikvarða. Meðan leitin stóð yfir var kartöfluupptaka á Kálfafelli og bæjunum í kring og safnaðist fólk af þessum bæjum saman og hjálpaðist við að taka upp. Það var verið að taka upp á Kálfafelli um kvöldið þegar þurfti að sækja kýrnar til mjalta, en þennan dag höfðu kýrnar einmitt tekið upp á því að fara upp í heiði eins og sagt var. Mikið hafði verið af flugvélum á ferðinni þennan dag og var ekki annað að sjá en þær væru að leita að Geysi þarna kringum bæina, í gljúfrum, skorningum og meðfram klettum. Hins vegar held ég að þær hafi verið þarna þar sem vonast var eftir að það mundi létta til upp á Vatnajökli og skyldi þá leitinni beint þangað. Þetta flug svo nærri og tengt þessari leit, setti í mig mikinn óhug. Svo kom að þessu skelfilega sem mig hafði grunað eftir að vitað var að kýrnar hefðu farið upp í heiði. Ég átti að sækja þær. Ég átti að fara aleinn upp í heiði þar sem tætlurnar af Geysi gátu hæglega leynst í einhverju giljadraginu. Ég held að þetta hafi verið einhver mesta hræðsla sem greið mig sem barn. Hvort ég sótti svo kýrnar eða ekki get ég ekki munað, en mér var mjög erfitt að segja nokkurri lifandi manneskju frá þessari skelfingu minni.

Svo kom Ísafold og Vörður, blaðið sem var keypt heima. Ég get ímyndað mér að þá hafi Geysir verið fundinn þar sem hann hafði brotlent á Bárðarbungu. En hvað um það, í blaðinu var mikið skrifað um þennan atburð og það voru birtar myndir af allri áhöfninni í einkennisbúnungum og aðvitað af Ingigerði Karlsdóttur flugfreyju með sinn flugfreyjubát á höfði og mér fannst hún alveg ómótstæðilega falleg. Svo falleg var hún að ég, átta ára guttinn, tók Ísafold og Vörð og faldi mig með blaðið til að horfa á flugfreyjuna á Geysi. Þetta var í fyrsta skipti í mínu lífi sem kona kveikti í mér með fegurð sinni. Ég sagði engum frá þessu sem barn eða unglingur en í dag get ég talað um það áhyggjulaus yfir hvað öðrum finnst.

Þegar flugvélagnýr hefur fyllt loftið í haust- og vetrarmyrkri hefur mér oft dottið í hug þetta með Geysi sem þá var ein af stærstu flugvélum íslenska flugflotans. Það er annað tengt þessum atburði sem hefur haft sterk áhrif á mig en þar sem þetta blogg er orðið lengra en til stóð eins og ætíð, þá verður einhvern tíma seinna að koma framhaldsblogg um Geysi.



Kommentarer
Valgerður

Ég man að við Kiddi bróðir báðum gjarnan um þessa sögu fyrir svefninn ef ekki var bók í lestri. Páll Vilhjálmsson kom seinna og var lesinn fyrir Rósu og Kidda. Þá var ég að verða unglingur með eigið herbergi (kompan á Bjargi) og ekki upp í við lesturinn.

VG

2009-10-28 @ 10:21:59
Guðjón Björnsson

Þessu man ég vel eftir þegar ég hef verið minntur á það. Sagan um Geysi var vinsæl. Hins vegar held ég að ég hafi ekki sagt frá flugfreyjunni.



Kveðja,



pabbi

2009-10-28 @ 13:36:24
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0