Meira um Geysi

Þegar menn voru farnir að hugleiða að hætta leitinni að Geysi var það býsna þrár flugstjóri, sá sem átti að taka við Geysi þegar hann kæmi til Reykjavíkur og fljúga honum vestur um haf, ef hann hefði komið fram, sem ákvað að fara austur fyrir land á Catalina flugbáti til að leita eftir björgunarbáti úr vélinni. Hann ákvað að fljúga yfir Vatnajökul þar sem þar hafði verið skýjað undanfarna leitardaga. Það sem þá skeði hlýtur að hafa verið mjög sterk upplifun. Allt í einu sáu þeir sem fremst voru í vélinni hvar reykur steig til himins frá Bárðarbungu á Vatnajökli, en Bárðarbunga er 2000 metra há. Jú, þarna lá flakið af Geysi, mikið brotið, og öll áhöfnin, sex manns, var sjáanleg og í snjóinn var búið að skrifa stafina OK. Geysir átti að koma inn yfir Vestmannaeyjar frá Luxemburg á leið sinni til Reykjavíkur þannig að mikið hafði borið af leið. Var nú varpað niður birgðum og hugað að björgunaraðgerðum. Ekki var þyrlum til að dreifa, alla vega ekki sem gátu sinnt þessu hlutverki. En nú var tekið til þess ráðs að senda tvo knáa menn á skíðaflugvél frá hernum í Keflavík sem síðan lenti hjá Geysi og átti að taka áhöfnina um borð. Ekki tókst þó betur til en svo að skíði vélarinnar frusu föst við jökulinn jafn skjótt og hún stöðvaðist og enginn mannlegur máttur fékk neitt að gert. Nú voru flugvélarnar á Bárðarbungu orðnar tvær og tvær áhafnir, alls átta manns. Áhöfn Geysis var lítið sár fyrir utan flugfreyjuna sem var all nokkuð slösuð.

Hér kemur svo að kjarna málsins í þessu bloggi dagsins. Akveðið var að skipuleggja björgunarleiðangur frá Akureyri sem fara skyldi á bílum upp að norðanverðum Vatnajökli og ganga þaðan á skíðum upp á Bárðarbungu með þann búnað sem talinn var nauðsynlegur. Hér var ekki um einfalt verk að ræða á þessum árum og það var alveg ljóst að til þessarar ferðar þyrfti að velja þá bestu leiðangursmenn sem Ísland gat boðið upp á. Ekkert sem upp gat komið mátti buga þessa menn. Upp á jökli beið fólk sem væntanlega hefur þá þegar verið hálf bugað og það var nóg. Fyrst var valinn leiðangursstjóri og ég tel að ég fari rétt með að Það var Tryggvi Þorsteinsson skátahöfðingi. Fari ég rétt með, sem ég vona, þá er þetta ljóð til eftir Tryggva:

Þú leitar oft gæfunnar langt fyrir skammt,
þú leitar í fjarlægð, en átt hana samt.
Nei, vel skal þess gæta, hún oftast nær er,
í umhverfi þínu hið næsta þér.

Þessar ljólínur segja nokkuð um manngerðina sem valdist til að stjórna förinni. Síðan voru valdir menn, alls ekki af handahófi, heldur menn sem nutu alls þess trausts sem hægt var að ætlast til af dugmestu mönnum Íslands. Síðan var lagt af stað og komið að Vatnajökli og síðan gengið á skíðum á Bárðarbungu.

Mikið var sagt frá þessu öllu í útvarðsfréttum og ég þori nánast að fullyrða að eyru mín stóðu beint út í loftið til að ná öllu sem skeði. Og ég get ímyndað mér hvort ekki var tilfinningaríkt augnablik við flugvélarnar á Bárðarbungu þegar höfuð leiðangursmanna birtust við sjóndeildarhring.

Þegar leiðangursmenn og áhafnir voru tilbúin til að yfirgefa þennan furðulega stað á einu af hæstu jökulbungum landsins var lagt af stað niður að jökulrótum. Sjúkrasleði var með í för fyrir flugfreyjuna þar sem hún var slösuð. Bandaríkjamennirnir tveir sem höfðu lent skíðaflugvélinni á jöklinum hafa eflaust verið vel þjálfaðir hermenn og frábærir flugmenn þar sem þeir voru valdir til að freista þess að bjarga áhöfn Geysis. En víðátta vatnajökuls og tuga kílómetra skíðaganga, þessar aðstæður urðu þeim ofviða. Að lokum gaf flugfreyjan þeim eftir sjúkrasleðann svo hægt yrði að koma þeim til byggða. Eftir því er mér skilst eftir all langt ferðalag frá flugvélunum kom upp eitthvað sem gerði það að verkum að einhver varð að fara til baka að flakinu, eitthvað hafði gleymst eða farist fyrir sem útilokað var að horfa framhjá. Ábyrgir og dugmiklir menn ljúka verkefni sínu. Einhver varð að fara til baka. Leiðangursstjórinn sá sig tilneyddan og hann gekk að einum leiðangursmanna og sagði: Þorsteinn Svanlaugsson, þú ert maðurinn sem getur gert þetta. Síðan skyldu leiðir. Leiðangurinn og áhafnirnar mjökuðust niður af jöklinum en einn maður, Þorsteinn Svanlaugsson gekk einn móti heiðmyrkrinu, órofa þögninni, Bárðarbungu og flugvélunum tveimur í tunglsskininu, til að sinna því sem ekki varð hjá komist. Hann gekk mót einverunni, einni jökulbungunni af annarri, skuggunum sem lækkandi septembersól myndaði, ef til vill sjáandi skýjabólstra í suðvestri og svo þeirri fullvissu að nú var hann einsamall manna að treysta á. Hann lauk þessu hlutverki sínu.

Árið 1982 þegar ég byrjaði að vinna hjá Hríseyjarhreppi fjölgaði mjög ferðum mínum á skrifstofu sýslumanns á Akureyri. Þar voru nokkrir afgreiðslubásar hlið við hlið en á móti var hins vega afgreiðsludiskur og að baki hans var haldið utan um fasteignir á Eyjafjarðarsvæðinu. Eignum var þar þinglýst og afgreidd veðbókavottorð svo eitthvað sé nefnt. Þar vann nokkuð eldri maður, lágvaxinn og hárið farið að lýsast. Hann hafði sérstaklega hógvært og þægilegt viðmót og það var gott að hitta hann. Hann spurði gjarna frétta úr Hrísey, við ræddum gjarnan um veðrið og veðurspána, hvort farið væri að slá í Glæsibæjarhreppi, um einhverja nýja frétt úr blöðum eða útvarpi og svo framvegis. Þetta var ekki bara kurteisisspjall, þessi maður var of ekta fyrir svoleiðis. Ekki geri ég ráð fyrir því að hann hafi gert sér grein fyrir því hversu gríðarlega virðingu ég bar fyrir honum. Þessi maður var stórmennið Þorsteinn Svanlaugsson, sá sem sneri við á Vatnajökli í september 1950. Allir leiðangursmenn voru í mínum augum stórmenni og eru enn.

Hvað er að vera stórmenni? Það lá við að fjöldi fólks væri farið að sjá útrásarvíkingana sem stórmenni. Fyrir mér er Þorsteinn Svanlaugsson, Tryggvi Þorsteinsson og félagar þeirra í leiðangrinum á Bárðarbungu stórmenni. Þessi skrif eru ekki sögulegs eðlis, heldur minningarbrot og upplifanir blandaðar mikilli virðingu og óneitanlega tilfinningum.



Kommentarer
Rósa

Skemmtileg saga.



Kveðja frá Stokkhólmi!



R

2009-10-29 @ 08:39:08
Valgerður

Sko ég man alveg eftir því að þú sagðir okkur Kidda frá Þorsteini og líka flugfreyjunni a.m.k. þetta með að hún let flugmönnunum eftir sjúkrabörurnar.

VG

2009-10-29 @ 16:46:30
Guðjón Björnsson

Já Rósa, þetta er skemmtileg saga þrátt fyrir allt og hún er falleg líka. Það segir líka nokkuð um söguna að börn gátu hugsað ér að hlusta á hana á kvöldin í staðinn fyrir að hlusta á upplestur. Ég hef sjálfsagt líka fundið einhvern stíl sem hentaði börnum að skilja hana. Hvað flugfreyjuna áhrærir geri ég ekki ráð fyrir að ég hafi sagt ykkur að ég átta ára varð skotinn í henni.



Kveðja,



pabbi

2009-10-29 @ 17:34:31
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0