Kjell

Kjell var vinur minn og vinnufélagi minn varð hann líklega í ársbyrjun 1998. Fyrst hitti ég hann 1996 og mér fannst hann ögn merkilegur med sig og þá varð enginn kunningsskapur milli okkar. En sem sagt, síðar urðum við vinir. Kjell dó 1. október eftir ótrúlega sjúkrasögu.

Þegar ég var dagskrárstjóri í Vornesi þurtfi ég eitt sinn sem oftar að taka óvinsæla ákvörðun. Það var ekki eining um þetta, í þessu tilfelli vegna þess að ákvörðunin fjallaði um lifandi manneskju. Svo var fundur starfsfólks klukkan þrjú og ískaldur norðanvindur hríslaðist um fundarherbergið. Ákvörðuninni hafði verið framfylgt. Þá var Kjell nýkominn til vinnu þar sem hann átti að vinna um kvöldið og hann skynjaði aðstæður. Nokkru síðar sat ég einn á vinnuherbergi mínu á efstu hæð og glímdi við verkefni mín. Svo heyrði ég kunnuglegt, hæglátt fótatak í stiganum og svo var bankað á dyrnar. Inn gekk Kjell. Hann settist á móti mér við stórt skrifborð. Finnst þér þú vinna í mótvindi spurði hann. Nei, svaraði ég, það er mótvindur. Já, Kjell talaði um að þegar raunveruleiki og tilfinningar blönduðust saman eins og í þessu máli, þá færi það gjarnan svona. Hann hafði unnið mörg ár sem fulltrúi og samningsaðili hjá verkalýðsfélagi og það hafði mótað hann og gerði honum oft kleyft að ganga inn í óþægilegar aðstæður. Svo ræddum við saman um stund. Að lokum stóðum við báðir upp, gengum að enda skrifborðsins, tókum hvor utan um annan og dunkuðum á hvors annars hrygg. Svo gekk hann álútur út, lokaði rólega á eftir sér hurðinni og fótatakið hvarf með honum þar sem hann fjarlægðist á leið sinni niður stigann.

Þetta var Kjell.

Við Ingemar ókum saman til Stokkhólms í desember síðastliðnum til að heimsækja Kjell eftir risastóra aðgerð. Ég ók bílnum og með hendina á stýrinu sá ég stundum á vísifingri hægri handar plástur sem ég hafði sett á örlitla skrámu, sem sagt ekki vegna þess að skráman væri stór, heldur til að fá ekki blóð í fötin mín. Plásturinn var svo líkur húðinni að hann sást varla. Þegar við komum til Kjell á stóru sjúkrahúsi í sunnanverðum Stokkhólmi sat hann í stól með háu baki, aldeilis umkringdur þvílíkum fjölda af slöngum, pokum og flöskum að við Ingemar urðum forviða yfir hvernig hann hefði verið færður í stólinn úr rúminu. Við stoppuðum þarna all lengi og á tímabilinu kom starfsfólk sem færði hann í rúmið aftur. Þá sáum við hvernig þetta var framkvæmt og það var ekkert einfalt mál. Svo hófust ótrúlega líflegar umræður á ný. Allt í einu varð Kjell að orði að ég væri með plástur á fingri. Við Ingemar urðum svo aldeilis hissa á því að hann í sínu ástandi skyldi yfir höfuð taka eftir þessum næstum ósýnilega smá plástri.

Þetta var líka Kjell.

Klukkan rúmlega ellefu þann 1. október fékk ég sms frá eldri dóttur Kjell þar sem hún bað mig að hugsa til pabba síns því að hann væri að deyja. Ég hugsaði til hans, fór í eina af mínum mörgu æfingagönguferðum og hugsði um Kjell. Svo lagði ég mig og dottaði nokkrum sinnum. Allt í einu heyrði ég eins og vekjaraklukku hringja þar sem ég lá í svefnherberginu heima í Örebro, ekki inn í herberginu, heldur var líkara því að hún hringdi upp undir lofti frammi í stofunni. Ég þekkti þarna hljóðið frá vekjaraklukku í Vornesi sem allir sem unnið hafa nætur þar hafa notað, meðal annars Kjell. Ég varð mjög undrandi, brá við, og athugaði hvað klukkan væri. Hún var tuttugu mínútur yfir tvö. Kjell dó einhverri mínútu áður.


Kommentarer
Þórlaug

Ég samhryggist þér vegna Kjell, þar misstir mikinn og góðan vin

2009-10-18 @ 18:43:15
Valgerður

Leitt með Kjell pabbi en kannski líður honum nú betur eftir mikla veikinda- og þrautagöngu síðustu árin. Lobbðu þér að trúa því pabbi minn ég held að það sé staðreynd.

Valgerður

2009-10-18 @ 19:12:39
Guðjón Björnsson

Dætur Kjell slepptu ekki, fyrr en þá kannski allra síðustu dagana, hugmyndinni um kraftaverkið. Það er hins vegar langt síðan ég hugsaði sem svo að það er mikið betra að þessu ljúki en að hann dragi fram lífið mánuð eftir mánuð í þeirri niðurlægingu sem veikindin buðu upp á. Mér er því léttir en vinur er horfinn á braut. Nú hef ég minnst Kjell.



Þakka ykkur fyrir Valgerður og Þórlaug,



kveðja, Guðjón

2009-10-18 @ 21:07:08
URL: http://gudjon.blogg.se/
Brynja

ég votta þér samúð mína Guðjón minn. Merkilegt þetta með vekjaraklukkuna, hann hefur viljað láta þig vita hversu stór tilveran er. Knús á ykkur hjónin, kær kveðja frá Val,við söknum ykkar.

2009-10-18 @ 22:20:00
Brynja

ég votta þér samúð mína Guðjón minn. Merkilegt þetta með vekjaraklukkuna, hann hefur viljað láta þig vita hversu stór tilveran er. Knús á ykkur hjónin, kær kveðja frá Val,við söknum ykkar.

2009-10-18 @ 22:22:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0