Geturðu hjálpað mér að binda húfuna mína?

Eitt sinn bjó hún Svandís Svavarsdóttir í Hrísey og var þá meðal annars kennari dóttur minnar. Eftir að hún hafði hætt kennslu í Hrísey og hafið háskólanám, var hún þar mikið á sumrin í sumarhúsi í Hrísey ásamt fjölskyldu sinni og annarri fjölskyldu til. Þá var sonurinn Oddur Ástráðsson orðinn einn fjölskyldumeðlimanna. Í gær sá ég á feisbókinni að Svandís var orðin amma og faðirinn var Oddur. Við Valdís fengum líka ömmubarn fyrir einum mánuði og einhvern veginn kallaði þetta fram hugsanir og margar minningar.

Í morgun eftir að hafa klætt mig, borðað morgunverð, litið aðeins eftir fréttum og eitthvað smálítið annað fór ég inn í rúm og lagði mig sem ég geri oft þessa dagana. Svo nálgaðist klukkan ellefu og Valdís var komin að sjónvarpinu til að fylgjast með fréttinni um friðarverðlaunin. Ég hafði séð mynd af barnabarni Svandísar á netinu og var eitthvað að velta þessu fyrir mér með barnabörn og framtíð þeirra þar sem ég lá í rúminu. Rétt fyrir klukkan ellefu fór ég fram að sjónvarpi því að ég vildi líka fylgjast með þegar nafn friðarverðlaunahafans yrði birt. Svo var það allt í einu ljóst að verðlaunahafinn var Obama. Heimsfriður, ófriður, illindi, góðgerðarstarfssemi, barátta um völd og nafngiftir og bara nefndu það, allt mögulegt svona flakkaði um huga minn. Ég lagði mig aftur og lét hugsanirnar reika.

Svo kom Oddur Ástráðsson, hinn nýorðni faðir, upp í huga mér og ég upplifði kannski 20 ára gamalt atvik honum tengt. Ég get ímyndað mér að hann hafi verið fimm eða sex ára. Ég var á ferðinni framan við kaupfélagið í Hrísey og við götuna sem liggur þaðan niður að höfninni. Það hlýtur að hafa verið helgi því að það var mjög lítið af fólki á ferðinni og engin athafnasemi yfirleitt virtist vera í gangi að mig minnir. En lengra niður á Hafnargötunni var þó eitt barn á ferðinni. Það var Oddur Ástráðsson sem sjálfsagt hefur verið á leið til einhvers eða frá einhverjum eftir að hafa verið að leika sér, eða þá að foreldrarnir voru ekki svo langt undan. Á þessum árum var líka leikvöllur þarna nálægt. Þegar það var all nokkur spölur á milli okkar kallaði Oddur: Heyrði manni, geturðu hjálpað mér að binda húfuna mína? Ef ekki þetta var frábær beiðni, hvað þá? Ég veit ekki hvort Oddur hafi áttað sig á því að hann hafði einhvern tíma hitt mig, en hann vissi alla vega ekki hver ég var. En hann þurfti að fá hjálp með húfuna sína og svo kom maður, einhver maður, og hann bað hann að hjálpa sér. Þetta snerti mig samstundis. Svo mættumst við Oddur og ég batt húfuna hans og hann horfði á mig með sínum hrekklausu, fallegu barnsaugum og svo svo fullur af trausti til umheimsins. Hann hafði ekki hugmynd um hver ég var, ég var bara manni. Og þakklátur var hann fyrir hjálpina. Líklega hefur hann verið orðinn kaldur á eyrunum. Svo var húfan tilbúin og við gengum hvor í sína áttina en atvikið hefur fylgt mér öll ár síðan. Sum atvik eru bara þannig, þau fylgja okkur og þau þurfa alls ekki að líta svo stór út.

Hugsið ykkur ef við gætum lifað svona, að við gætum öll treyst því að það væri í lagi að fá hjálp hjá óþekktu fólki til að binda húfuna okkar. Að við gætum treyst því að enginn mundi girnast veskið okkar, jafnvel fínu húfuna, að fólk mundi ekki hlæja að okkur fyrir að þurfa hjálp með hana. Þá þyrfti engin friðarverðlaun því að það væri friður og engin börn eða fullorðnir þyrftu að deyja angistarfullum dauða fyrir vopnum manna sem ágirnast.

Í morgun sendi ég nokkrar línu til Odds og spurði hvort ég mætti blogga um margra ára gamalt atvik honum tengt og nefndi hvað það var. Það var svo sjálfsagt og síðustu orðin í svari hans voru um soninn Úlf. Oddur sagði að lokum: Kannski átt þú einhvern tíma eftir að binda húfuna hans. Oddur minn. Til hamingju með drenginn þinn hann Úlf og til hamingju öll fjölskyldan. Þakka þér fyrir að það vorum við sem mættumst þennan morgun á Hafnargötunni í Hrísey.


Frá Hrísey


Kommentarer
Valgerður

Þá er hún þessi hún sagan líka komin á prent, pabbi þér er að takast að festa þau mörg minningarbrotin á prent, vonandi áttu þetta líka á varanlegra formi en bloggi.

2009-10-10 @ 10:44:15
Gudjon

Ég hef lausan harðan disk til að kopiera inn á.



Kveðja



pabbi

2009-10-10 @ 14:55:21
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0