Í afaleik á blogginu

Það eru bara 200 km til Stokkhólms en ekki er ég ennþá búinn að sjá barnabarnið, hann nafna minn, sem á morgun verður fimm vikna. Svo var það líka með fyrri barnabörn, það leið og beið þangað til við sáum þau. En það er samt heil mikill munur á. Í dag höfum við netið með öllum þeim fjölda möguleika bæði með myndir og texta. Ég verð því bara að fara í afaleik á blogginu og ég er búinn að sækja myndir hingað og þangað að til að nota í blogg dagsins.

Já, hvað segir maður yfir þessari mynd? Kannski færi mér best að segja ekki neitt en ég bara get ekki látið það vera. Ef ekki líf þeirra feðga er í fullkomnu jafnvægi á þessari mynd, þá bara veit ég ekki hvað jafnvægi er. Ótrúlega flott. Hann Pétur er greinilega góður pabbi.

 

Hér er minn maður ekki alveg sáttur og mamma vinnur að því að fá hann í betra skap. Hann veit nú að hann á góða mömmu líka. Ég horfði lengi á þessa mynd áðan og hugsaði með mér, hvernig mundi mér takast upp í svona tilfelli. Það er nefnilega þá sem maður stenst prófið eða ekki. Ég man ekki hvernig mér gekk í svona tilfellum í okkar barnauppeldi, en ég man hvernig það gekk þegar þau voru orðin eldri og ég las fyrir þau. Oftast sofnuðu þau en þeim fannst líka afskaplega skemmtilegt þegar ég sofnaði fyrstur og þau hlupu fram til mömmu sinnar og sögðu að pabbi væri sofnaður. Þá voru þau búin að svæfa pabba, þveröfugt við það sem til stóð. Svo hló ég líka svo mikið þegar ég las Pál Vilhjálmsson fyrir þau að ég gat ekki lesið og þá sofnaði enginn.

 

Þarna er amma komin í heimsókn og hvað gerir ekki nafni minn þegar amma allt í einu er mætt og tekur hann á arminn. Jú, hann hlær fyrir hana ömmu sína, tæplega þriggja vikna gamall drengurinn. Þegar okkar börn voru á þessum aldri var okkur sagt að þetta væri ekki bros heldur eitthvað út frá maganum. Ég segi nú bara; voðaleg vitleysa var þetta. Hér er Hannes Guðjón að brosa í fullri alvöru.

 

En amma hafði líka róandi áhrif. Eftir að hafa verið skemmtilegur með ömmu sinni um stund varð hann þreyttur og svaf í tvo tíma hjá henni. Ömmu fannst svo mikið til um að hún sleppti honum ekki allan tímann. Ég gæti alveg trúað að hún hafi þá verið orðin þreytt í arminum.

Já nafni minn. Ég ætla ekki að verða afi á löppinni endalaust. Ef ég verð duglegur að æfa mig og fá kraft í báða fætur, þá er ekki svo langt að bíða að ég komi með lestinni til Stokkhólms og byrji að kynnast þér. Spurning hvort ég verði ekki feiminn. Það er svo langt síðan ég hef haldið á svo litlu barni.

Að lokum. Meðan ég hef verið að ganga frá þessu bloggi höfum við Valdís talað um tímann þegar við vorum með lítil börn. Svo borðuðum við kvöldmatinn. Þá skeði nokkuð sem ekki hefur skeð afar lengi, hreilnega ekki síðan við vorum með lítil börn. Valdís var með graut eftir matinn, sagógrjónagraut með rúsínum og sveskjum. Oj, hvað það var gott.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0