Nýklipptur og fínn

 Nú sló ég tvær flugur í einu höggi um hádegisdbilið. Ég fór í æfingagöngu á rakarastofuna, fékk þar hvíld um stund í góðum stól og líflegt spjall við hann Tony, og svo var það jafn löng ganga til baka heim. Þar með lagði ég mig um stund og hringdi til Íslands og talaði við hana Guðrúnu mágkonu mína og Pál bróður minn og svo fann ég mig úthvíldan eftir þessa tæplega tveggja kílómetra göngu. Og árans munur þegar ég leit í spegilinn. Það klæðir mig nefnilega ekki vel þegar hárið stendur út í loftið á gleraugnaspöngunum framan við eyrun. Nú er þetta alveg slétt og fellt manni minn, hugsaði ég þegar ég virti mig fyrir mér.

Valdís er í Fimmkvennamat. Loksins fann ég eitthvað nafn yfir þetta, það er að segja þegar ákveðnar fimm konur hittast yfir hádegisverði heima hjá hver annarri til skiptis einu sinni í mánuði, og nú skrifa ég þetta nafn með stórum staf framvegis. Í morgun fékk ég mér granatepli með morgunverðinum en Valdís hafði þá þegar borðað sinn morgunverð. Þarna sat ég og fékk mér fyrsta kaffibolla dagsins, horfði á Valdísi brjóta saman þvott og fannst sem ég yrði að leggja eitthvað af mörkum líka. Því spurði ég hana hvort hún vildi granatepli. Já takk, svaraði hún en hún sagðist geta plokkað innanúr því sjálf. Ég hlustaði ekki á það og stillti mig upp við eldhúsbekkinn og byrjaði að plokka innan úr eplinu rauða kjarnana sem flutu þarna í rauðum, girnilegum safa. Svo small eitthvað til. Eitthvað rautt flaut á gleraugunum mínum og svo leit ég niður á hvítan stuttermabolinn sem ég var nýkominn í. Hann var allur í rauðum misstórum doppum að framan. Rauði, girnilefgi safinn var sem sagt ekki við eina fjölina felldur. Ah, sagði ég, ég fer hvort sem er í rauðan rúllukragabol á eftir svo að þetta er allt í lagi. Valdís leit á mig og það stóð ekki á svarinu. Þú bara gengur ekki svona til fara og svo kastaði hún til mín öðrum hvítum stuttermabol. Ég skipti þó ekki um bol fyrr en vinnunni við granateplið var lokið. Svo fékk Valdís sitt granatepli.

Hann Tony rakari sagði dálítið merkilegt meðan hann klippti mig. Þegar hann segir eitthvað merkilegt við mig, og aðra sem hann klipir, hættir hann að klippa, leggur hendurnar á sitt hvora öxl, og svo segir hann þetta með mikilli frásagnarsnilld. Hann hafði sagt að fyrir fjórum vikum hafði hann verið niður í Króatíu. Svolitlu seinna vaknaði forvitni mín og ég spurði hann hvort þetta væri áberandi stríðsskaðað land. Og, sem sagt, þarna lagði hann hendurnar á axlir mér og svaraði spurningunni íhugandi. Nei, hann taldi ekki að hann gæti svarað því þannig, en þegar hann var á sama stað fyrir fjórum árum, þá hefðu margir bæjarhlutarnir litið út eins og myndir frá Berlín að lokinni annarri heimstyrjöldinni. Þvílík breyting, sagði hann. Merkilegt hvað þetta skeður fljótt hugsaði ég, uppbyggingin sem sagt, og sama verður á teningnum á Íslandi þegar fólk leggst á eitt við að byggja upp í staðinn fyrir að rífa niður hvert fyrir öðru það sem verið er að reyna að gera. Einu sinni lofaði ég sjálfum mér að pólitík skyldi aldrei inn í blogg mitt og það skal heldur ekki verða framhald á. En eitt skal ég þó segja að lokum. Allir íslensku stjórnmálaflokkarnir, hver og einn, hefðu þeir komist til valda, hefðu reynt að taka ábyrgð á Iceave vegna þess eins að það er engrar undankomu auðið. Þetta er fullyrðing en ég fullyrði þetta líka. Stolt þjóð kemst ekki undan ábyrgð sinni. Svo heldur sólin áfram að koma upp á morgnana.

Haustdagarnir ganga í garð hver af öðrum og líkir hver öðrum. Séð á Suðurbæjarskóginn virðist vera einhver andvari sem hefur enga vindátt. Hitinn er átta stig og það er rakt. Svona er það gjarnan þessa dagana og vikurnar. Haustlitirnir taka meira og meira völdin en á því sést ekki dagamunur. Þann mun getur maður merkt frá viku til viku. Núna erum við búin að vera heima í Örebro í rúman sólarhring og í kvöld förum við aftur á Sólvelli. Það eru ekki stórar kröfur í þessu lífi en það er samt gott líf. Við vorum að tala við hana Elísabetu nágrannakonu okkar fyrir nokkrum dögum. Þau hjónin eiga líka heima í Örebro og eiga svo bústað við hliðina á okkar í kannski fimmtíu metra fjarlægð. Þau er bæði komin á ellilífeyri. Elísabet talaði um að það væri svo mikilvægt að hafa þennan bústað og hún sagði ennfremur að þau færu bókstaflega ekkert annað en í bústaðinn sinn og það væri bara svo gott að lifa þannig. Elísabet er skurðstofuhjúkrunarkona og maður hennar er byggingatæknifræðingur.

Nú er bloggið orðið allt of langt í dag en ein mynd að lokum.

Þannig líta litir dagsins út í Suðurbæjarskóginum. Myndin er aðeins dregin að til að ná betur litunum á litla myndina. Höfum svo öll góðan dag í sátt og samlyndi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0