Haust

Í morgun vöknuðum við, ég ætla ekki að nefna hvað klukkan var þá, og heyrðum regnið dynja á þakinu sem þó er mjög vel einangrað. Ég fór út að glugga móti skóginum, margnefndum austurglugganum, og síðan sagði ég að  þetta væri bara fallegasta haust sem ég myndi eftir. Ég yrði að taka myndir og birta þar sem Rósa dóttir okkar hefur kvartað undan því að sjá ekki nógu mikið af myndum frá Sólvöllum. Síðan gekk ég út að vesturglugganum og sá að í úrkomumælinum var eitthvað yfir 20 mm eftir nóttina. Samt var fallegt. Þessar myndir eru teknar svolítið í aðrar áttir en við erum vön að gera. Nú er það svo að okkur tekst ekki að setja myndir inn á Flickr hér með Sólvallatölvunni svo að það verður bloggið fær æruna.



Það sem í fyrsta lagi gefur þessari mynd haustliti eru eikur og hlynur. Mér sýnist að ég hafi  nú skrifað þetta áður. Í skóginum er mikið til bæði af ekum og hlyni sem eru tveggja til fjögurra metra há. Það virðist nú einsýnt að hlú að þessum litlu trjám til að fá í gang góða fulltrúa haustlitanna. Á til dæmis næstu þremur árum verða þau orðin ansi mikið stærri tré. Og að lokum; þessi mynd er tekin frá austurglugganum.



Þessi mynd er tekin til vestsuðvesturs. Þarna eru það að vísu margar bjarkir sem halda uppi litaskrúðinu, en þær eru líka hlés megin. Þarna er að vaxa skógur á fyrrverandi akurlandi og kemur til með að taka frá okkur útsýni en í staðinn munum við líka fá minni vestlæga vinda.



Tekið til suðsuðvesturs og ekki mikið meira um myndina að segja.



Til suðurs. Í húsinu þarna búa ungu hjónin Stína og Lars med dæturnar Sif og Ölmu. Trén hægra megin á myndinni eru silfurreynir, hlynur og eik. Lauflausu trén við húsið eru bjarkir. Við hliðina á bílnum má greina litla eik sem við fluttum innan úr skógi í júli fyrir tveimur árum. Það sjást líka stuðningshælar kringum hana. Það var aldeilis fáránlegur tími til að flytja tré, en við þráuðumst samt. Við vildum ekki láta nokkurn mann sjá hvað við vorum að gera svo að við fluttum eikina eftir miðnætti í hálfgerðu rökkri. Hún hefur dafnað afburða vel alla daga síðan. Einhvern tíma var Arnold bóndi hjá okkur í kaffi ásamt fleirum og við sögðum frá þessu. Þá sagði Arnold: Það hefði mátt halda að þið væruð að stela. Hann sagði þetta að gmani sínu og eikin er vissulega úr okkar skógi.

Nú er ekki mikið annað að gera en að fara að fá sér fyrsta kaffibolla dagsins og svo út að ganga. Ef það verður rigning er bara að taka fram regngallann sem hangir inni í skáp.



Kommentarer
Rósa

Takk fyrir myndir! Það er barasta haustfallegt á Sólvöllum í dag.



Kveðja,



R

2009-10-26 @ 12:31:12


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0