Veskið mitt ó veskið mitt

Ég talaði um það hér um daginn að það hefði verið reist gasstöð sunnan við Örebro sem framleiddi allt eldsneyti fyrir strætisvagnana í Örebro og auk þess alla aðra bíla á vegum borgarinnar. Þetta eldsneyti er lífrænt og ég lýsti yfir stolti mínu vegna þessa.

Fyrir tveimur og hálfu ári keyptum við bíl sem brennir svokölluðu etanol sem er 15 % bensín og 85 % einhvers konar spíritus sem er framleiddur úr lífrænum efnum. Etanol var umdeilt en þeir sem voru með sögðu að ef aldrei yrði byrjað á neinu mundi aldrei verða nein þróun í rétta átt hvað varðar hlýnun jarðar af manna völdum. Svo hljóðnuðu ádeiluraddirnar að mestu. Þegar við höfðum átt bílinn í hálft ár fengum við 10 000 skr ávísun frá ríkinu sem viðurkenningu á vilja okkar til að hlú að Jörðinni okkar. Trygging er einnig lægri af bílnum vegna þessa og smálítið fleira kemur til. Við Valdís erum komin á efri ár en við eigum börn og barnabörn. Þegar við keyptum etanolbílinn tengdum við það barnabörnunum vegna þess að þau voru flest ennþá varnarlaus gegn því sem hendir í umhverfismálum. Gætum við lagt eitthvað af mörkum til að gefa þeim betra loft að anda að sér í framtíðinni, þá væri það alls virði.

Fyrir fáeinum dögum kom í fréttum að allt of margir, ekki allir, etanolbílaeigendur væru farnir að kaupa hreint bensín á bíla sína þar sem það væri hagstæðara fjárhagslega. Þetta fer eftir því hversu dýrt bensín er hverju sinni. Fjandinn sjálfur. Allir etanolbílaeigendur hafa fengið sína 10 000 skr ávísun eins og við og þar að auki önnur þau fríðindi sem við höfum fengið. Stundum hefur verið hagstæðara fjárhagslega að aka á etanol og stundum á bensíni. Við höfum aldrei látið þetta sjónarmið ráða. Nú höfum við fengið eitt barnabarn til viðbótar, hann Hannes Guðjón, og hann er svo ungur að hans ævi er ennþá talin í vikum. Hann Hannes Guðjón er í nákvæmlega jafn mikilli þörf fyrir jafnvægi í hlýindum Jarðar og í nákvæmlega jafn mikilli þörf fyrir að hafa gott loft að anda að sér, algerlega burtséð frá hvort það er eyrinum dýrara eða ódýrara að keyra bílinn okkar einn kílómeter. Hafi maður skoðun þá á maður að hafa skoðun og standa við það.

Nú tala ég um sænska staðhætti. En, -ég veit að þetta gildir fyrir öll lönd í hinum vestræna heimi og við höfum forystu í mörgu. Ef hægt er að spara krónu sendum vi barnabörnunum okkar skít til að anda að sér. Er það mögulegt? Svo er mögulegt að þetta með etanol sé ekki framtíðin en ég tek undir með þeim sem sögðu að ef við byrjum hvergi endum við hvergi.

Ég hef hér talað um barnabörnin okkar. Það er raunar bara myndrænt mál yfir öll börn Jarðarinnar okkar sem ekki hafa neina getu til að hafa áhrif á framtíð sína. En vitanlega þykir mér vænst um barnabörnin mín.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0