Frá dagsins önn á Sólvöllum


Seinni partinn í dag heyrði ég að Valdís fór að skera eitthvað hart á eldhúsbekknum. Hvað ertu að skera? spurði ég. Palsternacka, svaraði hún til baka. Þá varð ég svangur. Þessi góða súpa átti að verða í kvöldmatinn. Og hún er ekki bara góð á bragðið, hún er líka góðfyrir kroppinn. Palsternacka, gulrófur, hvítkál, rósakál, paprika, laukur og krydd. Svo er byrjað að sjóða. Lætur þetta ekki vel? Svo þegar súpan er næstum tilbúin er sett út í svolítið af niðurbrytjaðri Falupylsu til að auka bragðið og til að gera súpuna matarlegri. Ég varð svo glaður að ég þaut út til að ganga nokkur hundruð metra. Nú erum við búin að borða fyrir nokkru og þegar ég jós annan diskinn alveg fleytifullan sagði ég við Valdísi að þetta gæti ég aldrei klárað. Svo kláraði ég. Mikið var þetta góður matur.

Palsternacka fékkst ekki á Íslandi þegar við fluttum til Svíþjóðar að því er við best vitum. Núna fæst hún þar sjálfsagt en við vitum ekki hvað hún heitir. Svo nefndi ég krydd áðan. Þegar Valdís setur ákveðið magn af kryddi í matinn verður hann góður, en ef ég set sama magn verður maturinn ekki góður. Hvers vegna!?!



Sjálfsagt er ég gamaldags. Mér finnst að sum verk séu mín verk vegna þess að þau séu karlmannsverk. Til dæmis að fella tré, saga af þeim greinarnar og brytja þau í lengdir. Að tæma kamarinn meðan hann var og hét, grafa skurði og flytja eldivið úr geymslunni inn í húsið. Að kljufa við í vél geta bæði konur og karlar gert og Valdísi finnst það gaman. Ég ætlaði að flytja mikinn eldivið inn í bústaðinn áður en ég færi á sjúkrahús. En sannleikurinn var bara sá að það var ýmislegt sem ég ekki kom i verk síðustu vikurnar fyrir aðgerð. Það er ég búinn að koma auga á. Ég flutti aldrei þennan eldivið inn í húsið.



Hér á myndinni sjáum við Valdísi sinna einu af þeim verkum sem ég tel til karlmannsverka. Það er að segja að flytja eldivið inn í húsið. Þarna í kúfullum hjólbörunum er hún með eldivið af risabjörk sem stóð of nálægt húsinu og við felldum fyrir rúmlega einu og hálfu ári. Þetta var nokkrum klukkutímum áður en hún byrjaði að brytja í súpuna. Að kveikja upp í kamínunni og að bæta á eldinn, það finnst mér vera verk fyrir bæði karla og konur og það gildir á þessum bæ. Það streymdi mikill hiti frá kamínunni í dag og það annaðist Valdís.




Á þessari mynd gefur að líta eitthvað sem líkist heypoka sem er illa troðið í og síðan rúllar áfram undan norðan golunni. Svoleiðis heypokar er ólögulegir. Eftir að hafa skoðað myndina tók ég ákvörðun. Í framtíðinni skuluð þið svo sannarlega fá að sjá mann sem er beinni í baki og stæðilegri. Þarna er ég í morgun að leggja af stað í mína fyrstu gönguferð. Valdís tók af mér nokkrar myndir og þetta var sú lang besta.




Hvað skyldi nú liggja þarna á matborðinu á Sólvöllum? Jú, það er eikarfræ af stóru Sólvallaeikinni. (ekollon) Valdís tíndi upp nokkur slík í morgun fyrir mig áður en ég byrjaði göngur mínar. Hver ganga fram og til baka er 200 m og í hverjum hring þegar ég geng fram hjá húsinu á norðurleið læt ég eitt eikarfræ í ákveðna tinskál. Þetta er göngubókfærslan mín. Hver ferð hefur sem sagt sitt fylgiskjal, eikarfræ. Svo get ég gengið í mínum hugsunum eða dagdraumum utan að þurfa að vera að leggja fjölda ferða minna á minnið. Afrakstur dagsins var 10 eikarfræ í tinskálinni, sem sagt tveir kílómetrar. Ég setti mynd af þessari gönguleið á bloggið mitt í gær. Ég hefði nú ekki talið það frásagnar vert fyrir all nokkrum árum að ganga tvo kólómetra. Ég er á leiðinni þangað aftur og þá gengur út úr heypokanum reffilegur kall.


Kommentarer
Valgerður

Duglegur þú pabbi, haltu áfram að telja eikarfræ og áður en þú veist af eru kílómetrarnir orðnir nokkuð fleiri en nú er.

Valgerður

2009-10-14 @ 22:21:33
Guðjón Björnsson

Ekki spurning. Nú er kominn háttatími fyrir mig og þó fyrr hefði verið. Á morgun er nýr dagur. Góðan bata og farðu vel með þig.



Kveðja



pabbi

2009-10-14 @ 22:51:18
URL: http://gudjon.blogg.se/
Rosa

Heypoki hvað?!? Þú lítur bara stórvel út pabbi minn. Og mamma er reffileg með viðinn.



Kveðja,



R

2009-10-15 @ 08:29:10
Guðjón Björnsson

Ég ætla nú samt að vera reffilegri en þarna á myndinni. Mamma þín flutti þrjár hjólbörur av við in að kamínunni.



Kveðja,



pabbi

2009-10-15 @ 09:24:19
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0