Bara venjulegur dagur

Í gær bloggaði ég ekki og í dag er ekkert að blogga um því að það er bara venjulegur dagur, sunnudagur að vísu, en hvað með það. Ég veit ekki hvort ég á að vera að hamast svona við þetta, en eins og ég hef sagt oft áður er þetta ágætis dagbók og þó að ég hafi ekkert að segja er kannski gott að skrifa dagbók eigi að síður. En núna virðist vera einn svona dagur þar sem ekkert er að segja, alla vega ekkert sem aðrir hafa áhuga fyrir.

Sumt hefur gengi svolítið á afturfótunum hjá okkur í dag. Við vissum í gær að tíminn mundi breytast í nótt er leið þannig að við breyttum vissum klukkum þegar í gærkvöldi. Við sáum fram á stutta nótt og það má segja að með tilliti til þess fórum við of seint að sofa. Valdís ætlaði í kirkju en ég ætlaði ekki á sjálfa messuna, heldur ætlaði ég mæta í kirkjukaffi eftir messu, eða um tólf  leytið. Ég treysti mér ekki að sitja þarna í fleiri klukkutíma. Presturinn er nefnilega að hætta og þetta átti að verða sérstakur kveðjudagur fyrir hann, bæði messan og vandað kirkjukaffi með ræðum.

Svo í morgun hringdi klukkan hjá Valdísi og þá reiknuðum við með að hún væri níu. Valdís fór strax á fætur en ég ætlaði að lúra aðeins lengur þar sem ég hafði alveg tíma til þess. Svo fannst mér ótrúlega hljótt frammi hjá Valdísi þannig að ég tók mig upp til að athuga málið. Þá sat hún þarna í stofunni og las í bók. Við færðum klukkuna öfugt, sagði hún, hún er bara rúmlega sjö. Já, já, allt í einu höfðum við allan heimsins tíma og við færðum klukkurnar í hina áttina. Svo þegar tími var til kominn lagði Valdís af stað í kirkjuna.

Ég setti mig niður við tölvuna og byrjaði að skrifa texta sem ég var byrjaður á áður og nú skyldi ég skrifa það sem á vantaði. Hugurinn flaug og andinn var í gangi og orðin runnu í stríðum straumum inn á síðurnar. Svo var kominn tími til fyrir mig að fara í kirkju og á sömu stundu var ég tilbúinn með textann. Ég sparaði nokkrum sinnum meðan á þessum skrifum stóð. Ég var ánægður með skrif mín og vildi ógjarnan tapa þessum góða texta. Svo flutti ég þessi skrif inn á laust minni til að hafa með mér á Sólvelli og vinna þar áfram með þetta. Sjöhundruð orð hafði ég skrifað á stuttum tíma.

Eftir kirkju, brauðtertu og margar ræður komum við heim aftur og ég ætlaði að sýna Valdísi hvernig ég hefði flutt textann inn á lausa minnið. En hvað var nú þetta. Á lausa minninu var bara gamli textinn. Ég fann hvernig ljótur grunur læstist um bæði líkama og sál. Ég gáði með hraði á harða diskinum, en hvurt í þreifandi! Það var sama þar, bara gamli textinn var þar en þessi sjöhundruð orð sem ég hafði skrifað á hreinu flugi fundust hvergi. Eftir mikla leit og samráð við dóttur og tengdason i Stokkhólmi var bara að viðurkenna að textinn var tapaður.

Þarna sat ég og velti fyrir mér að einhvern tíma hefði mér orðið þungt í skapi yfir þessu. Það leiddi hugann að atviki sem átti sér stað fyrir meira en fimmtíu árum. Það var lestími í Skógum og mér gekk illa. Það var eins og allt væri á móti mér, orðabókin sem ég fann ekkert í, blýanturinn með brotnu blýi, yddarinn sem ekki fannst, strokleðrið sem lenti bakvið miðstöðvarofninn og festist eða eitthvað þessu líkt. Þá varð ég verulega reiður. Svo var lestíminn liðinn og við nemendurnir hittumst inn í skólabyggingunni yfir mat eða kvöldhressingu. Mér var enn heitt í hamsi yfir ógöngum mínum og ég sagði einni skólasysturinni frá þeim. Hún leit undrandi á mig og spurði með áherslu hvort ég virkilega hefði orðið reiður? Ég man enn hvað ég skammaðist mín hræðilega. Af hverju var ég að blaðra frá þessu. Ég vissi að þessi skólasystir mín hafði verið skáti og ég hugsaði sem svo að skátar lærðu að taka á svona hlutum. Hún var greinilega mikið þroskaðri en ég. Bölvaður bjáni ég hafði verið að þegja ekki. Það var í þá daga, og þá þurfti ekki mikið til að ég skammaðist mín, enda ekki sjálfstraustið upp á það besta.

Ég hef ekkert sérstakt að skrifa um í dag eins og fram er komið. Það læðist að mér grunur um að ég eigi eftir að finna textann aftur, þennan sem gekk svo vel að skrifa í morgun. Þá yrði ég glaður.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0