Hún er ekki á fermingaraldrinum lengur

Hún er ekki á fermingaraldrinum lengur hún Susanne en hún er samt ekki af baki dottin. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2008. Nú síðustu fjögur árin í röð hefur hún af ótrúlegri þrautsegju framhaldsmenntað sig í að annast veika og aldraða. Fyrst tók hún tvö ár í að læra sérstaklega um umönnun veikra í heimahúsum. Það var undir lok þess tímabils sem við hittumst. Hún var þá þegar ákveðin í að læra meira.  Nú síðustu tvö árin hefur hún svo sérmenntað sig í líknarhjálp.
 
Þegar hún lauk fyrra tveggja ára náminu spurði kennarinn hana hvort hún vildi ekki taka hlé í eitt ár en hún var þá þegar ákveðin í að halda áfram án þess að taka hlé. Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að hún hefði byrjað á ný ef hún hefði tekið þetta hvíldarár. Í dag mundi ég heldur ekki vilja til þess hugsa að hún ætti eitt ár eftir.
 
Eftir gríðarlega mikið starf, lengi vel í 80 % vinnu og 50 % námi, mest heimanám, og eftir mikla röð mótlætis á síðasta árinu, þá hefur hún staðist prófið. Þetta með mótlæti í lífinu er bara gangurinn hjá öllu venjulegu fólki, en Susanne fékk á sig þessa röð mótlætis á svo stuttum tíma og einmitt þegar henni var svo mikilvægt að hafa frjálsar hendur.
 
Í gærmorgun fór hún til Stokkhólms í eina af þessum mánaðalegu tveggja daga ferðum í skólann þar sem áttu að fara fram próflok. Ég fór með hana á járnbrautarstöðina í Hallsberg og kvaddi hana þar og fann að hún bjó yfir styrk og bjartsýni. Þrjátíuogtveir byrjuðu í þessum hópi fyrir tveimur árum og nú voru átján eftir. Seinni partinn í gær borðaði þessi hópur betri mat á hóteli í Stokkhólmi, hafði smávegis lokaveislu. Lokaatriðið í prófinu var munnlegt þar sem líka var notast við skyggnur.
 
Við töluðum sem allra snöggvast saman snemma í morgun, ég óskaði henni góðs gengis og hún var aldeilis stálslegin. Stuttu fyrir hádegi hringdi síminn og ég sá að það var Susanne. Ég svaraði en fékk ekkert svar á móti. Halló, halló kallaði ég hvað eftir annað en ekkert svar. Ég hlustaði. Ég heyrði að Susanne talaði og ég heyrði að hún var full af sjálfsöryggi og að hún vissi hvað hún var að tala um. Ég heyrði einstaka orð en ég heyrði ekki samhengið. Svo gafst ég upp og lagði á. Þannig gengur það með farsíma, þeir geta allt í einu farið að hringja í einhvern af einhverri hreyfingu eða að hönd er sett í vasa. Susanne hafði ekki hugsað sér að hringja en mér þótti skemmtilegt að heyra hversu vel hún tók sig út með bekknum sínum.
 
Nokkrum mínútum síðar kom sms frá Susanne þar sem stóð: LOKSINS, ÉG HEF STAÐIST PRÓFIÐ.
 
Seint í dag var hún á járnbrautarstöðinni í Hallsberg á ný. Hún var þreytt, henni var létt og eiginlega vildi hún enga myndatöku eins og sést á myndinni. Hún var mikið ánægð og það minnsta sem kallinn gat gert var að gefa henni blómvönd með fallegustu blómunum sem fengust í Skrúðgarðabúðinni í Åbytorp.
 
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0