Framhald um dellur og kraftaverk

Fyrir nokkru síðan skrifaði ég blogg sem ég kallaði Dellur og kraftaverk. Nú kemur eiginlega framhald af því bloggi.
 
Þar sem ég sit núna sit ég oft, og beint fyrir framan mig er gluggi móti austri. Þar utan við er bara skógur. Trén sem næst mér eru eru væntanlega um fimmtán metra há en trén sem ber við himinn í svo sem þrjátíu metra fjarlægð eru væntanlega tuttugu og fimm metra há. Laufhafið bærist ekki fyrr en augað nálgast krónurnar efst uppi á hæstu trjánum þar sem það bærist mjúklega. Það hefur varla orðið albjart í dag, veðrið hefur verið rakt en gott. Núna er að byrja að bregða birtu klukkan hálf tíu á sunnudagskvöldi.
 
Eitthvað svipað þessu hef ég skrifað oft, oft áður en það er eins og það sé alltaf nýtt fyrir mér.
 
 
Myndin er nákvæmlega af útsýninu sem ég hef út í gegnum gluggann bakvið tölvuna mína en hún passar samt ekki almennilega við lýsinguna, þó er lýsingin rétt og myndin er rétt. Þannig er það stundum að mynd getur ekki sagt það sem orðin segja en samt er hvort tveggja rétt.
 
*     *     *
 
Það er hátt í tvær vikur síðan ég skrifaði þennan texta og af einhverri ástæðu vil ég ekki fleygja honum. Núna ætla ég að bæta aðeins við hann. Það er hæg rigning, þungbúið eftir góðviðrisdag og það er enn einu sinni farið að bregða birtu. Á þessum tæpum tveimur vikum hef ég haldið áfram að hlú að skóginum, ég hef grisjað, ég hef lagfært göngustígana sem ég gerði fyrir einum átta árum. Mold í hjólbörum, skófla, járnkall i hendi, garðhrífa, hænsnaskítur í fötu, grasfræ í skál, valtari, garðslanga, spígspora fram og til baka.
 
Hreinsa illgresi frá matjurtum, sá meiru, vökva, rölta um með greinaklippurnar, handleika eldivið og að lokum fann ég út að það væri alveg nauðsynlegt fyrir mig að gróðursetja þrjá sólberjarunna í viðbót við á tvo sem til voru. Því lauk ég fyrir nokkrum dögum.
 
Þannig líða margir dagarnir ásamt einhverju öðru sem ég hef ekki nefnt og jafnvel man ekki. Svo setst ég á veröndina, gjarnan með kaffi, horfi á skóginn, geng út í skóginn og finnst ég vera ríkasti maður í heimi. Menn kaupa málverk, listaverk, á miljónir og hundruðir miljóna króna.
 
 
Hér er listaverk þar sem skaparinn sjálfur var að verki. Síðan gaf hann mér möguleika á að vernda listaverkið, hlú að því og hjálpa því að lifa, en mér hefur ekki tekist allt of vel til. Neðst til hægri er grindverk sem ekki passar inn í listaverk skaparans og ennþá síður passar alúmíníumsnúran til vinstri. En alla vega; ég get fundið mér stað á veröndinni þar sem hvorki grindverkið eða snúran skemma myndina. Eina stundina lítur listaverkið út eins og það gerir á myndinni, síðan dregur ský fyrir sólu og listaverkið hefur tekið á sig allt aðra mynd og vestan blærinn skapar enn eina útgáfuna.
 
Að morgni er listaverkið á einn veg, að kvöldi er útlitið allt annað. Á hæglátum rigningardegi er þetta listaverk kannski lang fallegast. Þannig er það; endalaus breytileiki og ég verð aldrei þreyttur áhorfandi.
 
 
Ti hægri: Hvít ylliblóm. Bráðum verður gert ylliblómasaft! Skaparinn leyfði mér að kaupa yllinn, grafa fyrir honum og gróðursetja hann. Jú, ég fæ vissulega að vera með í sköpunarverkinu, svo miskunnsamur er Hann.
 
 
Valtarinn sem tilheyrði önnum dagsins, dökki flekkurinn í miðri mynd einnig.
 
 
Hér vann ég líka í dag en það sér enginn nema ég sem þekki til.
 
 
Viðgerð neðst til vinstri. Eik í miðri mynd ásamt miklum breytileika í gróðri.
 
Ég talaði um dellur í bloggi fyrir tæpum tveimur vikum. Ég hef aldrei jafnað mig eftir delluna sem ég smitaðist af fyrir um það bil sjötíu árum þegar Sveinn bróðir sáði fyrir birkinu. Það er þess vegna sem ég get endalaust bloggað um trén í Sólvallaskóginum.
 
Að sumrinu verð ég bara að vera hér. Skógurinn, matjurtirnar, berjarunnarnir og ávaxtatrén kalla á það. Því hef ég slegið á frest Íslandsferð sem ég var búinn að tala um og ég er búinn að kaupa flugmiða til Íslands þann 13, september og verð þar fram til 1. október.


Kommentarer
Steinar Þorzteinsson

Falleg ljóðræn bloggskrif, full af hlýjuog væntumþykju, takk Guðjón

2017-06-24 @ 19:26:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0