Jónsmessuhelgin

Jónsmessuhelgin hefur farið afar rólega fram hér í sveit. Ég er einn heima. Susanne er í heimsókn upp í Dölum, nánar tiltekið í Orsa þar sem úlfar og birnir eru ekki all fjarri. Ég valdi að fara ekki og ég valdi líka að fara ekki til Íslands eins og ég hafði þó hugsað mér. Það bloggaði ég um í gær.
 
Eins og mörgum er kunnugt er Jónsmessan mikil hátíð hér, kallast miðsumarhátíð, og svipar að sumu leyti til verslunarmannahelgarinnar á Íslandi. Það eru til margar mjög gamlar hefðir sem tilheyra þessum degi, hefðir sem að vísu hafa tekið breytingum, en alla vega er þessi helgi byggð á alda gömlum grunni ef svo má segja.
 
Tilheyri maður ekki þeim starfsgreinum sem alltaf verða að vera til staðar, þá vinnur maður ekki um miðsumarhelgina. Samt vinn ég en ég fer afar varlega fram, ég sýni Svíunum fulla virðingu í því. Ég hafði á fimmtudaginn viðað að mér mold á vissum stöðum í skóginum næst íbúðarhúsinu. Ég hafði flutt þangað verkfæri, garðslönguna, og ég hafði skipulagt það þannig að ég bara hyrfi út í skóginn og yrði umhverfinu ósýnilegur.
 
Ég held að allir nálægustu nágrannaranir hafi farið í ferðalög eða heimsóknir því að á fimmtudagskvöldinu var ekki bara hljótt, það var fullkomlega hljótt. Í eins kílómeters fjarlægð í beinni línu er Torp og þar höfðu safnast saman um fimmtán þúsund manns á kristilega samkomu, en þaðan heyrðist ekki hið minnsla hljóð heldur. Mikið var þetta notalegt.
 
Svo kom föstudagurinn, aðal hátíðisdagurinn. Ég gekk að því sem ég hafði undirbúið og skipulagt daginn áður og það skrifaði ég um í gær og birti myndir. Það ískraði í valtaranum og það var óþolandi hávaði í allri kyrrðinni. Ég hellti olíu á ákveðna legu og þá þagnaði hann. Nokkru síðar byrjaði fólkið í Torp að leika við börnin sín og þá varð meira líf í sveitinni. Nágrannarnir norðan við komu líka til að vera í sumarbústanum sínum að kvöldi miðsumardagsins. Þannig lauk föstudeginum, miðsumardeginum, í mikilli kyrrð og friði.
 
*          *          *
 
Laugardagurinn gekk í garð og ég borðaði sameginlegan morgunverð og hádegisverð. Ég gekk út um hádegisbil -en viti menn; ungu nágrannarnir sunnan við voru þá heima eftir allt saman. Ég gekk til þeirra og þau höfðu bara notið kyrrðarinnar eins og ég en ég sá aldrei til þeirra. Þau sáu ekki til mín heldur en samt er minna en hundrað metrar á milli húsanna og ekkert ber á milli. Síðan hélt ég áfram þar sem ég var kominn á föstudeginum og nú var ég ekki alveg jafn hljóðlátur en fór varlega samt.
 
Ég hef notið mín þessa helgi og aðallega vegna þess að ég var svo ákveðinn í því að stuðla að þessari kyrrlátu stemmingu sem ég hef lýst. En eiginlega, þegar öllu er á botninn hvolft, er þetta ekkert öðru vísi en aðrir dagar hér um slóðir að öðru leyti en því að það var bara hljóðlátara en venjulega. Hér er jafnan kyrrð og friður. Mesti hávaðinn er þegar einhver er að smíða og þá heyrast hamarshögg. Þegar ég stend fyrir hamarshöggunum sjálfur finnst mér stundum sem þau séu alveg ærandi. Svo heyrist líka í flugvélum nokkrum sinnum á dag en það bara gengur svo fljótt yfir.
 
Í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð í þessu friðsama landi hafa menn fyrir íþrótt að skjóta hver annan. Þegar maður býr í Krekklingesókn er allt slíkt svo fjarlægt, það er eins og það eigi sér stað fjarlægu landi. Það er erfitt að trúa því að þetta eigi sér stað í sjálfu landi skóganna.
 
Einn af nágrönnunum hér vann það sem samsvarar tæpum sex miljónum íslenskra króna í happdrætti á sunnudaginn var. Við hittumst nokkur heima hjá honum í vikunni og allir samglöddust honum og fjölskyldunni svo sannarlega. Það fannst ekki fyrir minnstu öfund. Þau hafa heldur ekki haft það svo létt nú síðustu árin að þau voru vel að þessu komin. Þau buðu upp á MARGRA kílóa smurbrauðstertu.
 
Susanne kemur heim síðdegis á morgun og ég hlakka til. Hún er ánægð með fjölskyldunni sinni í Dölunum og það er vel. Okkur finnst báðum gott að vera ein inn á milli en mér finnst góðs viti að ég sakna hennar. Á morgun, sunnudag, mun ég halda áfram því sem ég hef unnið við í skóginum næst húsinu. Það verður svolítill ævintýraheimur þar skulið þið vita.
 
 
Ég tók vinnuhlé í dag og gekk lengra út í Sólvallaskóginn. Þar fann ég þetta sjónarhorn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0