Þegar ég var unglingur í Reykjavík var ég magur

Í gær byggði ég upp í huga mér nokkuð sem ég ætlaði að segja á blogginu í gærkvöldi. Jafnframt sá ég fyrir mér myndir sem búið var að taka og ég ætlaði að nota. Þegar ég var búinn að ganga frá eftir kvöldmatinn fór ég inn að tölvu, vistaði nokkrar myndir inn á bloggið mitt og lagði svo hendurnar á lyklaborðið. Ekkert kom. Byggingin sem ég hafði reist var ekki bara hrunin, hún var horfin með öllu. Ég gafst upp.
 
Ein venjuleg ástæða fyrir svona hruni er skortur á vatni. Það er svo merkilegt að enn í dag skeður það að ég gleymi að drekka vatn og drungi nær yfirhöndinni. Ég fór fram og drakk upp undir líter af vatni. Svo hreinsaði ég utan af skringilegum lim af engifer sem Valdís keypti í fyrradag og beið síðan eftir því að uppþvottavélin lyki verkefni sínu. Þar var tepotturinn innilokaður. Meðan ég beið settist ég við hliðina á Valdísi og horfði svolitla stund á þátt þar sem verið var að velja lag til söngvakeppninnar. Ekki get ég sagt að mér hafi fundist ég vaxa að visku og vexti við að horfa á þetta, en smám saman fann ég hvernig vatnið byrjaði að gera gagn. Svo var uppþvottavélin búin að þvo tepottinn, ég drakk minn krassandi engiferdrykk og svo var háttatími kominn.
 
Eftir órofinn svefn í tæpa átta tíma vaknaði ég við kyrrðina. Þessi kyrrð gladdi mig mjög og gott ef ég hreinlega vaknaði ekki við hversu hljóðlátur andardráttur Valdísar var. Andardráttur hennar stýrir mikið hugsunum mínum um nætur og nú þegar hann var hljóðlátur eins og í litlu barni, þá bara boðaði það góðan dag. Eftir að hafa kveikt upp í kamínunni lagði ég mig aftur, en datt svo í hug að það sem ég tapaði svo gersamlega niður í gær mundi koma upp aftur ef ég opnaði bloggið mitt. Svo er ég sestur hér og fingurnir sem ekki vildu bærast á lyklaborðinu í gærkvöldi eru nú farnir að leita bókstafanna.
 
Ég birti mynd af mér í peysu á feisbókinni í gær. Þá peysu prjónaði Valgerður dóttir mín eitthvað fyrsta árið sem við bjuggum í Örebro. Hún er búin að koma sér vel í vetur. En ég hef líka lengi haft í huga aðra peysu. Það er ullarpeysa sem Valdís prjónaði áður en Rósa dóttir okkar fæddist, sú sem ég er í á myndinni. Hún er prjónuð fyrir 1969 og er þá jafnframt prjónuð á Bjargi í Hrísey. Peysan gæti verið 45 ára. Hún er oft gegnum öll ár skýlt mér fyrir kulda og vetrarveðrum.
 
Nú þegar ég horfi á mig í þessari peysu minnist ég þess að þegar ég var unglingur í Reykjavík var ég magur mjög. Þá drakk ég stundum rjóma úr þríhyrndri pappahyrnu til að fá á mig svolítil hold en ekkert skeði. Í dag þarf ég ekki að drekka rjóma til að fá á mig hold, þau koma samt.
 
 Um hádegisbil í gær fór ég út á Bjarg til að bauka við minn nostursama gluggafrágang. Að vanda kíkti ég inn í bæ á svo sem klukkutíma fresti og þegar ég kíkti inn í gær sá ég hvað kona mín aðhafðist. Bollur! Það voru ekki þessar hveitihrúgur sem fást hér í verslunum nú til dags, það voru ærlegar bollur. Þær voru eins og bollurnar sem hún bakaði þegar á árunum okkar á Bjargi í Hrísey. Þær voru líka eins léttar, loftkenndar og eins bragðgóðar og í þá gömlu daga. Núna voru þær þó bragðbættar með týtuberjasultu í staðinn fyrir einhver önnur efni áður. Það var um þrjú leytið sem ég heyrði kallað: Guðjón! - kaffi! Ég var fljótur inn og svo var bollukaffi.
 
Svo vil ég færa talið að kaffikönnunni sem Valdís er að hella úr. Enga kaffikönnu höfum við átt í okkar rúmlega hálfrar aldar búskap sem er eins treg á að slefa og þessi kanna. Hvernig sem við reynum, þá er bara ekki hægt að fá dropa til að renna niður könnuna þegar búið er að hella úr henni. Síðasta kanna sem við áttum slefaði niður dropum í hvert einasta skipti sem hellt var úr henni og hún var aldrei hrein. Nú er öldin önnur. Nú vil ég færa talið að konunni minni þarna á myndinni og segja að hún er ekki veikindaleg þar sem hún er að fá sér kaffið.
 
Klukkan er nú hálf tíu á sunnudagsmorgni og ég hef verið að skrifa um gærdaginn. Nú er kominn tími til að leggja á borð fyrir morgunverð og svo elda ég minn endalausa rúsínuhafragraut. Svo verður það sjónvarpsmessa.
 
*
 
Ég sagði við næstu mynd fyrir ofan að konan mín væri ekki veikindaleg þar. Hún lítur eiginlega ekki eins frísklega út á þessari mynd. En ástæðan er held ég sú að hún er búin að raða á sig mörgum treflum. Ég bað hana að setja á sig einn af þessum treflum sem hún er svo dugleg við að prjóna því að ég ætlaði að taka mynd. En að lokum setti hún á sig fleiri trefla til að sýna litaúrvalið. Ég bauka oft úti á Bjargi en hún fæst við sitt hér inni. Hún prjónar líka mikið af sokkum og enn sem komið er hafa þeir gengið út. Henni hefur líka verið bent á að prjóna sokka á þá sem eru heimilislausir og fáklæddir og henni líst vel á það. Kannski fá einhverjir af þeim sokkana sem eru í pokanum við hliðina á henni núna. Hún er líka búin að sauma út í afar marga dúka á síðustu árum. Ef að er gáð sést í sauma og prjónakörfuna hægra megin við hana þar sem hún situr.
 
 
Það sem ég ætlaði að skrifa í gær hefur ekki skilað sér og það sem ég ætlaði að skrifa með þessari mynd er víðs fjarri. Merkilegt. En alla vega; þetta er gluggagerefti, yfirstykki að utanverðu.
 
Mér er heldur ekki alveg ljóst hvað ég ætlaði að segja hér, en þetta er vatnsbretti frá glugga. Ég útbjó átta svona stykki í gær. Það er reyndar stór gaman að vinna með blikk og með svolítilli þolinmæði er hægt að fá hluti úr blikki til að líta mjög vel út. Að fá ekki fram það sem ég ætlaði að skrifa í gær veldur mér ekki áhyggjum, það eru ekki elliglöp. Ég hef langa reysnslu af því að það sem ég ætla að skrifa á ég að skrifa þá þegar í stað. Að ætla að skrifa það seinna eða bara við tækifæri, það tekst ekki og hefur aldrei gert hvað mig áhrærir.


Kommentarer
Björkin.

Nammi namm. Flottar bollurnar hjá systur minni.Knússsssss

2013-02-10 @ 22:17:22
Rósa

Bollurnar, kellingin og kallinn líta vel út!

Kveðja,

r

2013-02-11 @ 15:41:17
Guðjón

Takk, takk, þetta var gott að heyra.Ég læt Vasldísi vita að við lítum vel ut.

2013-02-11 @ 18:16:42
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0