Nú urðu mér næstum á mistök

Í morgun sáum við svo ógeðslegar fréttir í sjónvarpi að ég hef ekki alveg getað sleppt hugsuninni um það í allan dag. Jafnframt kom upp í huga mér í dag ýmislegt sem er svo ótrúlega ógeðslegt og það var einfaldlega framhald fréttarinnar í morgun. Svo settist ég við tölvuna og skrifaði á bloggið mitt með ótrúlegum hraða og það hreinlega flæddi fram með slíkum krafti að ég hafði alls ekki undan að skrifa. Svo þegar þetta var orðið að meðallengd blogga minna stoppaði ég og las yfir. Þá sá ég að þetta var svo ógeðslegt að það ætti alls ekki heima á blogginu mínu. Það var bara ekki mín tegund. Ég var nærri búinn að eyða því en á síðustu stundu vistaði ég það án þess að birta og ég get því í rólegheitum tekið ákvörðun um hvað ég geri við það, en það á ekki heima sem "mitt" blogg. Hér kemur svo punktur á eftir því efninu.
 
Annars var þessi dagur góður dagur í mörgum skilningi. Mér gekk vel við það sem ég tók mér fyrir hendur og Valdís sýslaði við sitt. Ég kom inn og fór, kom inn og fór, en í stórum dráttum var byggingarvinna á Bjargi mín iðja í dag ásamt því að sækja svolítið efni. Dagurinn var með afbrigðum skemmtilegur þrátt fyrir fréttina í morgun. Í gær stóð líka til að svo væri, en gærdagurinn varð dagur afturfótanna hjá mér og dagur þumalfingursins í miðjum lófanum. Ég hálf datt þegar ég steig niður af tröppunni, týndi verkfærunum, mældi vitlaust, gleymdi hvað ég var að sækja, sótti annað en ég ætlaði að sækja, gat ekki hugsað, var þungur í sinni og dapur í bragði. Svona dag get meira að segja "ég" átt. Svo var ég á AA fundi í Fjugesta í gærkvöldi og það var það sem kallað er opinn fundur og prestur einn frá kirkju í mið Svíþjóð kom á fundinn til að vita hvað við aðhöfumst þar. Hann gekk ekki óhrærður af þessum fundi. Á fundinnum fékk ég minn rétta Guðjón til baka. Svo svaf ég með afbrigðum vel þangað til Anders smiður kom í heimsókn snemma í morgun. Meira um það seinna.
 
Hér um daginn spurði ég Valdísi hvað henni fyndist, hvort ég ætti að stoppa við með vinnuna á Bjargi eða halda áfram. Það voru þáttaskil í framkvæmdunum þá og kominn tími til að taka þessa ákvörðun. Svar Valdísar var innvafið slíkum klókindum að það var ekkert meira að ræða um. Það var bara að halda áfram og mér ber að láta það ganga vel og reyna að vinna það þannig að hugur okkar beggja verði virkur við framkvæmdina. Því verður dagur eins og gærdagurinn svo fullkomlega máttlaus og tilgangslaus en dagur eins og dagurinn í dag svo mikils virði og ríkur af lífi. Ég er með það í kollinum hvað ég ætla að gera á morgun og í hvaða röð. Allt efni er til staðar og svo er bara að sjá til þess að ég annist sjálfan mig þannig að ég verði einnig til staðar. Hugsa gott, drekka vatn, borða hollan morgunverð, hóflega mikið kaffi og ekkert sætt með kaffinu. Meðal annars þannig get ég annast sjálfan mig vel. Þá verður álíka gaman á morgun og það hefur verið í dag.


Kommentarer
Björkin.

Gangi þér vel við bygginguna mágur minn.

2013-02-21 @ 22:23:55
Svandís Gunnarsd

Við erum komin í Hjallann úr Hveragerði sem var frábær dvöl. Við höfum fylgst með ykkur og ég er að byrja á að lesa bloggin þín Guðjón. Okkur Ottó langar bara að senda ykkur bestu kveðjur með óskum um að allt gangi ykkur í hag. 'Eg hringi þegar við erum komin heim.

Svar: Þakka þér fyrir Dísa min og Ottó. Mikið var gaman að fá kveðju frá ykkur. Gangi ykkur allt í haginn og skilið kveðju til fólksins ykkar. Kveðja frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2013-02-23 @ 16:46:25


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0