Að taka stund með Óla lokbrá

Vikan byrjaði á því að á mánudag fórum við til Fjugesta þar sem Valdís fór í blóðrannsókn. Í gær fórum við svo til Örebro þar sem hún fór í sneiðmyndatöku. Í dag, miðvikudag, fórum við svo aftur til Örebro þar sem Valdís fékk viðtal við krabbameinslæknirinn. Allt varðandi blóðrannsóknina leit vel út. Æxlið í vinstra lunga hafði minnkað verulega en ógreinilegir punktar í hægra lunga höfðu ef eitthvað var stækkað lítillega. Þetta var niðurstaðan eftir óvissubið í nokkra daga.
 
Og hvað svo? Jú, María vildi halda áfram með sömu lyf í fjórar vikur í viðbót og gera þá svipaða athugun og gerð var núna í vikunni. Ég mundi ekki stinga upp á því ef ég teldi það þýðingarlaust, sagði hún. Hún er mikill ljúflingur við sína sjúklinga og það met ég út frá því hvernig hún mætir Valdísi. Þegar hún segir að hún mundi ekki reyna þessi lyf áfram ef hún tryði ekki á það, segir hún það af þeirri ákveðni að það er ekki annað hægt en trúa á að hún meini það virkilega. Hún er yfirlæknir á sinni deild, en samt tekst KiddaVillasysturinni frá Hrísey að koma því á framfæri við hana að hún hafi mannkosti sem hjálpi fólki. Það tekst Valdísi á einhvern þann hátt sem er svo ekta.
 
Þegar við vorum tilbúin spurði María hvort við ætluðum að fá okkur kaffi áður en við yfirgæfum sjúkrahúsið. Það var svolítið sniðug spurning því að við gerum það alltaf áður en við leggjum af stað heim. Það eru nokkur veitingahús á sjúkrahúsinu sem hægt er að velja um. Rækjusneiðarnar á þessum veitingahúsum eru vel útilátnar með miklu af rækjum og heilu eggjunum. Kladdkökurnar eru góðar líka. Í dag urðu rækjusneiðar fyrir valinu. Svo héldum við heim á leið með viðkomu í verslun þar sem Valdís keypti handavinnuefni.
 
Valdís hefur eitthvað jafnvægi í þessu öllu saman sem virðist hjálpa henni afar mikið. Ég er ekki alveg búinn að sjá að ég mundi geta sýnt þetta jafnaðargeð. Hins vegar er hún með samviskubit yfir að gera ekki meira en hún gerir hér heima. Þetta var rætt á sjúkrahúsinu í dag og María gaf Valdísi þau ráð að hreinlega leggja sig á daginn sem hún hefur ekki verið svo iðin við að gera. Ég hef trú á því að eftir þessa læknisheimsókn byrji fjallkonan mín að leggja sig. Ekki bara að setjast í stólinn og prjóna eða sauma út, heldur að leggja sig og jafnvel hitta Óla lokbrá svolitla stund eftir hádegið.


Kommentarer
b

Hún er engri lík hún elsku systir mín.Knús frá Heilsubælinu til ykkar mín kæru.

2013-02-28 @ 14:08:40
Guðjón

Já, og ég þurfti 53 ár til að þekkja að fullu hennar innstu eiginleika. Með bestu kveðju í Hveragerði frá Valdísi og Guðjóni.

2013-02-28 @ 17:04:05
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0