Martina og Martina og þeir sem geta boðið birginn

Það var svolítið ævintýri þegar við seldum íbúðina í Örebro á sínum tíma. Við vorum ákveðin í því að ef ekki kæmi boð upp á ákveðna fjárhæð mundum við hætta við söluna. Kannski var það ekki vel sæmandi en þannig leyfðum við okkur alla vega að hugsa. Svo á ákveðnum tíma fyrri hluta dags var farið að bjóða í og við fengum sms með tilboðsupphæðinni um leið og tilboðin bárust. Tveir buðu í og þegar komið var eitt tilboð frá hvorum aðila gerðist ekkert klukkutímum saman. Bæði voru tilboðin undir þeirri tölu sem við ætluðum að sætta okkur við.
 
Þegar farið var að líða á eftirmiðdaginn lifnaði yfir viðskiptunum og svo bara jókst hraðinn allt hvað af tók og ég hafði ekki tíma til að lesa öll smsin. Upphæðin var á stuttum tíma komin upp fyrir viðmiðunartölu okkar. Svo voru viðskiptin komin í einhvern ótrúlega spennandi farveg og það var eins og tilboðahrinan ætlaði aldrei að enda. Svo kom lokatalan og annar aðilinn játaði sig sigraðan.
 
Nokkrum dögum seinna kom fasteignasalinn og fjölskyldan sem hafði borið sigur úr bítum og kaupsamningur var undirritaður heima hjá okkur. Þetta voru hjón með eina litla telpu og konan heitir Martina. Það kvenmannsnafn höfðum við aldrei fyrr heyrt. Við fengum líka að vita hvað hinn tilboðsaðilinn hét. Það var einstæð móðir og hún hét líka Martina.
 
Í dag fórum við Valdís inn í Marieberg. Ég fór reyndar lengra og keypti vatnsbretti til að geta gengið endanlega frá kringum glugga og dyr á Bjargi. Valdís endaði í stórri matvöruverslun og þar mætti hún þrisvar sinnum konu sem henni fannst kunnugleg. Þessi kona horfði líka á hana en hvorug spurði hver hin væri. Þegar ég svo fór út að bíl  með vörurnar sem Valdís hafði keypt vék sér að mér kona og spurði hvort við ættum að þekkjast.
 
Ég sagðist bara ekki vera viss og gerði mér alls ekki grein fyrir hver hún var en fannst þó andlitið kunnuglegt. Er mögulegt að ég hafi keypt íbúð af þér og Valdísi? spurði hún. Einmitt, Martina eða hvað? Jú, það var Martina. Ég var feginn að fá tækifæri til að spyrja hana hvernig þeim liði í fyrrverandi íbúðinni okkar. Alveg ljómandi vel svaraði hún. Um hverfið fínt, nágrannarnir frábærir og leikskólinn frábær einnig. Allt bara eins gott og það getur verið. Ég var feginn að heyra þetta. Mér kom það svo sem ekkert við, en það sem þau borguðu okkur var það mikið að við Valdís höfðum alltaf óskað þess að þau væru ánægð. Svo hitti ég Valdís yfir kaffibolla inn í verslunarmiðstöðinni þegar vörurnar voru komnar í bílinn og þegar ég hafði sagt frá áttaði hún sig á því hver kunnuglega konan hafði verið.
 
Nú er ég búinn að eyða mörgum orðum í það sem er svo sem alls ekki merkilegt. Og þó, þetta var svolítið atriði fyrir okkur.
 
*
 
Ég sá svolítið umhugsunarvert á feisbókinni í morgun, birt af sænskri konu sem fyrir mörgum árum ákvað að breyta ógöngum lífs síns í velgengni. Henni tókst það heldur betur verð ég að segja. Þetta umhugsunarverða sem ég sá hljómar svona:
 
Að kvarta og kveina er eins og að sitja í ruggustól - þú hefur eitthvað að gera en þú kemst ekki neitt.
 
Mér varð á að hugsa að þetta væri oft hægara sagt en gert. Svo fórum við Valdís í Marieberg og ég í byggingarböruverslunina. Þar hitti ég Bengt og ég spurði eftir Bert bróður hans. Bert hefur glímt við mikil veikindi í nánast 20 ár. Samt situr hann á skrifstofunni í verslun sinni og glímir við þau verkefni sem lenda inn á hans borði. Heima er hann kannski ekki svo líflegur, taldi Bengt, en hér þrífst hann. Við ræddum þetta fram og til baka og vorum sammála um að afstaðan og það sálræna væri gríðarlegur þáttur í batanum, en kannski ekki alltaf svo einfalt að virkja.
 
Hvernig er Valdís spurði svo Bengt. Ég sagði honum í stuttu máli það sem ég sagði í bloggi i hitteðfyrradag. Æ æ, sagði Bengt og spurði svo hvort hún hefði eitthvað að sýsla við. Jahá, hún er alla vega í Marieberg núna svaraði ég og ætlar að fara þar í apótekið og nokkrar verslanir. Hvað segirðu! sagði hann af undrun. Þarna sérðu, það er afstaðan og þetta sálræna sem skiptir máli og svo stakk hann vísifingri í bringubeinið á mér. Það var eitthvað gott við þetta samtal okkar Bengts. Við vorum báðir leikmenn en höfðum sömu heimspeki um ýmislegt í lífinu. Við töldum okkur báða standa nærri þeim sem hefur tekist að hafa jákvæða afstöðu og að virkja sálrænu kraftana.
 
*
 
Ég er búinn að lesa oft, oft í dag textann í Kyrrð dagsins sem er tileinkaður Lí Pó, en hann fæddist rétt eftir árið 700. Lí er kínverkst eftirnafn sem þýðir dagrenning.
 
Þú spyrð hvers vegna ég búi mér hús í skógi upp til fjalla,
og ég brosi og er þögull; jafnvel sál mín er þögul:
hún býr í hinum heiminum sem enginn á.
Ferskjutrén blómgast, vatnið rennur.

Húsið okkar er ekki upp til fjalla en það er í jaðri skógar sem er tuttugu til þrjátíu metra hár. Mér finnst líf mitt gæla ögn við innihald þessa texta en ég ætla ekki að fara út í það. Ég vil ekki skemma innihaldið með því að fjalla um það sem ég er ekki tilbúinn að takast á við. En alla vega; það er eitthvað merkilega frábært við þennan texta.


Kommentarer
Björkin.

Flott hjá þér mágur minn.Knús í hús.

2013-02-07 @ 22:53:37
Guðjón

Knús til baka mágkona.

2013-02-07 @ 23:09:43
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0