Hálfrar aldar afmæli dóttur okkar

Það eru eflaust yfir 30 ár síðan ég var á gangi á götu í Reykjavík og mætti skólasystur minni frá Skógum. Þá var ég búsettur í Hrísey og hún í Reykjavík. Hún var þarna á gangi með dóttur sinni og þegar ég leit á dótturina og sá að þarna var á ferðinni ung kona á þeim aldri sem ég var á þegar ég taldi mig vera orðinn fullorðinn mann. Þá greip mig að ég væri orðinn gamall, alla vega að það hefðu liðið afar mörg ár. Mér hreinlega brá. Samt var þetta all einkennilegt þar sem elsta dóttir mín var á svipuðum aldri og þessi unga kona var sem ég hafði fyrir framan mig. Ég þurfti að sjá dóttur einhvers annars sem ég þekkti til að átta mig á því að árin hefðu liðið.
 
Í dag er dóttir mín 50 ára sem segir jú að það er liðin hálf öld síðan ég varð pabbi. Með öðrum orðum, hún fæddist 8. febrúar 1963. Ég var montinn pabbi og þótti mitt barn alveg sérstakt barn. Ég held að það eigi líka mjög vel við mömmu Valdísi. Auðvitað var hún alveg sérstakt barn þar sem hún var hún sjálf og engin önnur. Það var hún Valgerður. Við keyptum mjög fínan barnavagn fyrir hana og ef ég man rétt hafði hann svipaðan stíl og Chevrolet fólksbíll ársmódel 1955, en ég lærði einmitt að keyra á þannig bíl í Reykjavík hjá Gísla nokkrum Sesselíussyni. En alla vega, mér fannst barnavagn Valgerðar alltaf líkjast Chevrolet 1955 sem á þeim árum var toppur allra bíla í mínum augum. Við Valdís vorum bæði stolt af vagninum.
 
Dag einn fórum við Valdís í heimsókn til Guðrúnar frænku minnar frá Fagurhólsmýri sem bjó í áratugi í  Skaftahlíð 16 og ferðin var gagngert gerð til að sýna henni frumburðinn. Ég hafði áður leigt herbergi hjá Guðrúnu og hún er kona sem alltaf hefur verið nærri hjarta mínu. Hjá henni var staddur frændi minn einn ættaður úr Öræfunum og stoltur tók ég Valgerði upp úr vagninum og lagði hana í kjöltu hans. Það stóð ekki lengi því að frændinn spratt skjótt á fætur, rétti mér dótturina og niður aðra buxnaskálm hans rann eitthvað vott. Hún hafði gert sér hægt um hönd og pissað á frænda sinn úr Öræfum.
 
Stuttu seinna hringdi þó þessi maður og sagðist vera að fara austur á bíl sínum. Hann ætlaði að vera samferða fjölda fólks sem þá fór í árlega páskaferð í Öræfin, en skilja bílinn eftir á Kálfafelli, mínu barnsdómsheimili. Hann bauð okkur far austur ef við skyldum vilja heimsækja fólkið mitt á Kálfafelli. Við þágum það með þökkum og þar sem barnastólar voru óþekktir í þá tíð og enga áttum við körfuna, þá fórum við með Valgerði í pappakassa þar sem mamma hennar sat við hlið hennar í aftursætinu.
 
Þá var þegar ákveðið hvað hún skyldi heita og við páskamessu á Kálfafelli skírði séra Gísli Brynjólfsson hana og móðir mín hélt á henni undir skírn. Ég hef grun um að eftir það hafi mömmu fundist sem hún ætti svolítið í þessu barni, henni nöfnu sinni, enda var Valgerður þar í sveit síðar árum saman ásamt frændum sínum úr Reykjavík og fleiri ungmennum sem voru í sveit á Kálfafelli.
 
Það var í árdaga. Stúlkan óx og óx og varð með tímanum mjög ákveðinn unglingur og síðar ung kona. Eftir skyldunámið sem hún lauk á Dalvík ákvað hún að lesa til stúdents við kvennaskólann í Reykjavík. Ef ég man rétt var það ekkert að semja um, þannig bara skyldi það vera. Þar með má segja að Valgerður væri flutt að heiman sem var ungt á þeim árum. Hún hélt áfram að vera ákveðin og er það enn í dag.
 
Hún varð stúdent frá kvennaskólanum og síðar kennari frá kennaraháskólanum ásamt fleiru sem hún hefur lagt stund á. Hún hitti Jónatan og eignaðist Kristinn. Svo eignaðist hún Guðdísi og Erlu. Hún kom í heimsókn til okkar til Falun með Guðdísi og ég var ekki heima þegar þær mæðgur komu. Ég var í vinnu og kom heim þaðan á föstudagskvöldi. Þegar ég kom inn um dyrnar heima í Falun ætlaði ég að heilla Guðdísi við fyrsta tillit, en þetta var í fyrsta skipti sem ég sá hana. Ekki virtist henni lítast á kallinn sem var að koma heim, hljóp til mömmu sinnar og leitaði athvarfs í fangi hennar. Þá varð ég svo glögglega vitni að því að litla stelpan sem forðum leitaði athvarfs hjá okkur mömmu sinni og pabba á erfiðum stundum, hún var fullorðin kona sem var athvarf fyrir aðra.
 
Það var á Bjargi í Hrísey sem lögguhúfurnar voru búnar til. Á þessum árum lékum við mikið við börnin, meira en við gerðum síðar. Eitt sinn útbjó ég það sem við kölluðum lögguhúfurnar og þær urðu að lokum tilbúnar seint um kvöld. Þeim eldri systkinunum fannst þetta mjög spennandi og vöktu fram eftir til að geta státað sig af húfunum. Það sést á þeim að þau eru orðin þreytt en systirin Rósa var þá búin að sofa dágóða stund en vaknaði aftur. Hún er því hressust á myndinni. Hún þótti of lítil fyrir lögguhúfu.
 
Fjölskyldan í heimsókn hjá afa og ömmu í Hrísey, trúlega á sunnudegi. Myndin er tekin á lóðinni hjá þeim og Valgerður er í miðjunni. Nei, ég þarf ekki að taka það fram.
 
Þegar ég varð sextugur kom Valgerður í heimsókn til Svíþjóðar. Þarna erum við á skemmtilegum og fallegum veitingastað við suðurströnd Hjälmaren. Frá vinstri Valgerður, þá Rósa og svo Valdís og Guðjón.
 
Innilega til hamingju með áfangann Valgerður og með bestu kveðju frá mömmu og pabba.


Kommentarer
Björkin.

Innilega til hamingju með frumburðinn ykkar mín kæru.Knússsssssss í hússssssssssss

2013-02-08 @ 22:29:43
Þórlaug

Innilegar hamingjuóskir með Valgerði.
Kærar kveðjur á Sólvelli,
Þórlaug

2013-02-08 @ 22:46:34
Þosteinn

Til hamingju með frumburðinn. Ég naut þess að vera í skemmtilegri afmælisveislu hjá henni og fjölskyldunni í gær. Ég var sá sem hafði þekkta hana lengst allra í afmælinu og minntist þess að hafa þekkt hana frá því að hún var 16 ára, þegar ég kynntist fjölskyldu í Hrísey sem alltaf hefur fylgt mér og mér þykir innilega vænt um.

2013-02-09 @ 15:04:19
Valgerður

Takk fyrir hlý orð pabbi

2013-02-09 @ 16:18:20
Guðjón

Já Steini minn, eins og þú sagðir einu sinni þá varðst þú hluti af fjölskyldunni og ekkert okkar sleppur undan því. Það verður best þannig.

2013-02-09 @ 16:26:45
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Valgerður

Enda er Steini almennt séð fjölskyldumeðlimurinn sem er oftast viðstaddur afmæli og alls konar uppákomur hjá okkur hér í Eyjum. Skrmmir kannski ekki að hann á vinkonu hér sem hjálpar til við að lokka hann hingað :0)

2013-02-10 @ 19:42:33
Guðjón

Já, ég veit það. Hann hefur oft verið fulltrúi okkar og ég er honum mjög þakklátur fyrir það.

2013-02-10 @ 19:52:19
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Þorsteinn Ólafsson

Takk fyrir að eig aykkar að vinum

2013-02-10 @ 22:09:41


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0