Svo lék hún á alls Oddi það sem eftir lifði dags

Á aðfangadag birti ég blogg sem að mestu var eignað Valdísi og sjúkdómi hennar á síðastliðnu ári. Ég las það blogg rétt í þessu og varð fyrir all sterkum áhrifum af að minnast þess sem þar stendur. Þegar það var skrifað vorum við rétt vongóð þrátt fyrir ýmislegt sem okkur fannst ekki vera eins og það ætti að vera. Síðan versnaði ástandið og Valdís hafði samband við krabbameinsdeildina á sjúkrahúsinu nú á nýju ári og þar var henni vel tekið sem og alltaf áður. Hún var send í sneiðmyndatöku sem að því er við best vissum sýndi að æxlið í vinstra lunganu hafði ekki stækkað.
 
Við mættum hjá krabbameinslækninum, henni Maríu, og hún sagði að til að hún gæti gert sér einhverja grein fyrir því hvað málið snerist um, þá þyrfti hún að fara niður í lungun til að skoða og taka sýni. Svo var það gert tæpri viku seinna. Seinna þann sama dag sagði María að nú yrðu sýnin ræktuð, en einnig að hún hefði satt best að segja ekki séð neitt sem vekti illan grun hjá henni. En þó tók hún það fram að hún gæti ekki fullyrt neitt fyrr en hún hefði fengið niðurstöður af ræktun sýnanna. Þetta var á fimmtudag í næst síðustu viku, þann 24. janúar. Ég heyri af mér á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku sagði hún. Þá yrðu niðurstöður af sýnunum tilbúnar.
 
Það virtist sem þessi miðvikudagur eða fimmtudagur væru mjög, mjög langt framundan. Þessi bið var óþægileg fyrir okkur bæði og auðvitað hlýtur biðin fyrir Valdísi að hafa verið mikið erfiðari en mín. Rósa og Hannes komu og dvöldu helgina sem þar kom á milli og það voru þvílík verðmæti að fá þá heimsókn. Hannes vildi ekki fara heim aftur þegar komið var að brottför þeirra og við vissum að hann væri einhver bjartasti sólargeislinn í þessu öllu saman. Tíminn leið hægt og ég fann oft að Valdís var hljóðari og meira hugsi en mér líkaði. Mánudagskvöldið 28. janúar sagði hún allt í einu: Í kvöld er ég órólegri og hræddari en ég hef verið allan tímann síðan þetta byrjaði. Ég sveiflaðist tilfinningalega eftir hennar líðan eins og loftvog gerir í misjöfnum veðrum.
 
Svo kom miðvikudagurinn, fyrri dagurinn sem María ætlaði hugsanlega að láta heyra frá sér. Hún hringdi ekki. Svo kom fimmtudagurinn og það var komið fram yfir hádegi og Maria hringdi ekki. Þá hringdi Valdís í ákveðið fólk á sjúkrahúsinu sem hún má alltaf hringja til og þau ætluðu að tala um þetta við Maríu. Stuttu síðar var hringt til baka og Valdís var boðuð í viðtal til Maríu klukkan eitt eftir hádegi í dag, mánudaginn 4. febrúar. Miskunnarlausar grunsemdir hrönnuðust upp fyrst hún gat ekki talað um niðurstöðurnar í síma og skammdegið svartnaði. En einmitt þá reisir Valdís sig upp og segist þurfa inn í Marieberg til að sinna nokkrum erindum. Svo lék hún á alls Oddi það sem eftir lifði dags. Ég skrifaði um þetta í mínu síðasta bloggi
 
Svo liðu dagarnir með misjöfnum þunga og loks var kominn mánudagurinn 4. febrúar. Valdís var óróleg og við vorum bæði óróleg. Að lokum sátum við á biðstofunni og biðum eftir Maríu. Svo kom hún með hughreystandi bros á vör og við gengum inn til hennar. Hún hafði ekki svo langan formála og tilkynnti að það væri komið æxli í hitt lungað líka. Það var henni þungt að segja þetta og það var þungt að meðtaka það.
 
Ég ætla ekki að tíunda allt sem sagt var þarna, en að lokum sagði Valdís að það væri svo mikil óreiða í höfðinu á sér á þessari stundu. Þá sagði María að hún skyldi láta þessa óreiðu hafa sinn gang, það væri mikilvægt. Síðan lýsti hún hvað við tæki. Valdís verður sett á krabbameinslyf, töflur sem hún á að taka á hverjum morgni í ótakmarkaðan tíma, og svo verða viðbrögðin látin ráða hversu lengi, kannski alltaf. Það verður engin sjúkrahúslega, en ný athugun fer svo fram eftir fjórar vikur til að meta árangurinn. Hjúkrunarfræðingurinn Rose-Marie talaði einnig við okkur og útskýrði hvernig Valdís ætti að taka nýju lyfin og sagði ennfremur að hún skyldi hringja þegar í stað ef einhverjar spurningar vöknuðu. Þetta fólk býr yfir mikilli manngæsku.
 
Eftir áfallið í dag er fjallkonan mín orðin róleg og glöð. Við komum við í búðum á leiðinni heim og keyptum meðal annars vel útilátnar rækjusneiðar sem við tókum með heim. Já, og svo létum við bæði klippa okkur líka. Svo hituðum við kaffi þegar við komum heim og borðuðum þessar vel útilátnu brauðsneiðar með. Ég þurfti að vera giftur henni í meira en hálfa öld, henni Valdísi minni, til að átta mig á hennar allra sterkustu hlið. Sú hlið er ótrúlega sterk. Þó að bænin mín um nóttina forðum, sem ég skrifaði um á aðfangadagskvöld, hafi ekki verið heyrð eins og ég óskaði mér, þá breytir það engu með gildi bænarinnar fyrir mig. Ég er svo óralangt frá því að skilja allt í þessum heimi hvort sem er.
 
Í gær borðuðum við síðbúinn hádegisverð hjá Annelie og Kjell. Þau eru mikið yngri en við, eða á aldur við Valgerði. Þær Annelie og Valdís kynntust fljótlega eftir að við komum til Örebro árið 1997 og þær hafa verið órjúfandi vinkonur síðan. Í þeirri vináttu hafa verið fólgin mikil verðmæti.
 
 


Kommentarer
Valgerður

Það er frábært að eiga slíka vini sem þið lýsið. Njótið og ég gleðst fyrir ykkar hönd

2013-02-04 @ 22:16:40


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0