Þá brosti konan mín oft

Í fyrrinótt svaf ég ekki átta tíma í einni lotu eins og ég geri stundum. Ég vaknaði nefnilega klukkan hálffjögur vegna þess að mér var nauðugur einn kostur að fara minna erinda fram á bað. Í fljótu bragði virðist þetta kannski óþarfa skýrslugerð. En það var reyndar framhald á atvikum næturinnar. Þegar ég kom til baka reIsti Valdís sig upp og sagði að það væri best fyrir sig að fara líka fyrst hún væri vöknuð. Þegar hún kom til baka sagði hún að það hefði aldeilis verið létt í þetta skiptið að fara þetta fram og til baka. Ég ætla bara rétt að segja að þetta gladdi mig afar mikið. Bjartsýnin lagði sínar mildu hendur yfir rúmið okkar og svo sofnaði ég aftur. Valdís líklega eitthvað seinna.
 
Rúmlega sjö hringdi vekjaraklukkan hjá Valdísi því að við þurftum að fara á heilsugæsluna í Fjugesta. Heilsugæslulæknir Valdísar hafi hringt og ráðlagt henni að koma þangað til að láta taka blóðsýni. Við vorum nokkuð snögg í hreyfingum þarna um morguninn og drifum okkur af stað. Eftir all nokkra bið komst Valdís að og svo fórum við heim til að borða morgunverðinn. Ég áttaði mig ekki á að það lægi neitt sérstakt fyrir hér innan húss og fór því út á Bjarg að bauka svolítið, en síðan ætluðum við til Örebro. Þegar ég var farinn út fór Valdís að fást við þvott en að því loknu settist hún í djúpa stólinn til að slappa af áður en við færum af stað aftur.
 
Valdís fór til Örebro til að hitta vinkonur sínar fjórar, þessar sem hún borðar með einu sinni í mánuði. Ég athugaði hins vegar með efni á meðan, verð og gæði, og svo fór ég með myndir til hans Berts í byggingarvöruversluninni, manns sem ég minnist stundum á. Hann varð svo glaður yfir að sjá þessar myndir og svo gaf það okkur kost á að tala líflega saman í einn hálftíma. Svo fór ég niður í Krämaren og þar fengum við Hans okkur kaffi og kladdkökur. Hans er Örebroari sem ég hitti fyrst 1995 og við höfum ræktað vinskap með okkur síðan. Svo hringdi Valdís og kvaðst tilbúin til heimferðar. Þá höfðu þær vinkonurnar haft rúma þrjá tíma saman.
 
Þegar Valdís settist inn í bílinn fann ég að gleðin geislaði ekki beinlínis af henni. Hún var treg til að segja nokkuð um það en sagði þó að tvær af konunum hefðu haft það mesta á hornum sér. Ég velti fyrir mér þeim framförum sem gerðu vart við sig nóttina áður, en nú var sem sá bati væri allur á braut. Þegar við komum heim var Valdís í fyrsta lagi þreytt og lífið virtist vera á móti henni. Mér stóð ekki á sama og braut heilann um hvað væri eiginlega á seiði. Dagurinn leið sem fremur daufur dagur og við lögðum okkur frekar snemma.
 
Í morgun tókum við lífinu með meiri ró, eða með öðrum orðum á hefðbundinn hátt. Batinn frá því í fyrrinótt bærði ekki á sér. Ég greip ryksuguna eftir morgunverðinn og byrjaði á hreingerningu. Þá auðvitað tók Valdís klút og fór að þurrka af og lagfæra eitt og annað sem ekki var í réttum skorðum á bænum. Upp úr hádegi færði ég í tal við hana hvort heilsa hennar væri lakari. Nei, svaraði hún, ég er bara þreytt eftir gærdaginn. Við höfðum verið snemma á ferðinni og hinn hefðbundni dagur brenglaðist. Það lætur kannski ólíkindalega, en sannleikurinn er bara sá að það sem við venjulegar aðstæður er minni háttar frávik, getur við erfiðari aðstæður verið meiri háttar frávik.
 
Svo tóku þær frá mér kraft í gær konurnar þegar þær voru í ólund að nudda, önnur út af biluðum ísskáp og fyrirtækinu sem leigði henni íbúðina, og hin út af lélegu herbergi á Majorka þar sem hún dvaldi fyrr í vikunni. Þær nudduðu út af þessu allan tímann sem við vorum þarna sagði Valdís. Og Valdís, sem var kannski sú eina úr hópnum sem hefði getað borið sig illa, hún lét sér nægja að vera hljóður áheyrandi. Stundum er ekkert annað að gera en bara að lána eyra. Þetta var í fyrsta skipti sem Valdís hefur orðað að það hafi ekki verið gott að hitta þessar konur. Við bara vonum að þetta hafi verið frávik sem ekki hendi aftur. Væri ég að skrifa á sænsku mundi ég ekki fara inn á þessa umræðu eða alla vega orða frásögnina öðru vísi. En hvað um það; eftir þessar skýringar fann ég fyrir því að mildar hendur bjartsýninnar komu til baka og gáfu heimilinu blíðan andvara miskunnseminnar á ný.
 
Valdís hefur verið að sortera myndir, taka myndir úr römmum og færa yfir í sérstakar möppur. Einnig að henda römmum og ganga frá öðrum til geymslu í kassa sem nú er á loftinu á Bjargi. Þetta hefur verið lengi í umræðunni og er nú komið vel á veg. Við skoðuðum möppu með myndum sem eru teknar frá tíma okkar í Falun. Það leynir sér ekki að tíminn í Falun var góður tími. Það sést á þessum myndum að þá brosti konan mín oft og bjó við aðra heilsu en í dag. Að skoða þessar myndir var eins og að lesa vel færða dagbók og fallega skrifaðar góðar minningar. Mikið varð ég glaður við að sjá þetta. Það er ekki skrýtið þó að mér finnist eitthvað sérstaklega mikið til um Dalina.
 
Upp á lofti, yfir hluta af svefnherberginu og hluta af eldhúsinu, eru svo sem tveir plastkassar með svona myndamöppum. Það eru margar dagbókarfærslur get ég látið ykkur vita. Þegar ég gef mér tíma til að verða ellilífeyrisþegi á þann hátt að ég læt það ekki skipta máli hvort ég skoða myndir í hálftíma eða þrjár vikur, þá þarf ég að hafa myndaskanna til umráða. Svo á ég hundruð metra af svarthvítum filmum til að fara í gegnum. Mikið verður hlutverk mitt í framtíðinni.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0