Ekki er mannkynið alvont

Ég fór nokkuð snemma út á Bjarg í morgun  til að smíða. Um hálf tíu kom ég inn aftur og þá var Valdís búin að kveikja á sjónvarpinu og horfði á Vasagöngu kvenna sem er styttri ganga en sjálf aðal Vasagangan. Hún fer fram á sunnudaginn í næstu viku. Ég gat ekki annað en fengið mér gott sæti til að horfa á tvær fyrstu konurnar koma í mark. Þær voru langt á undan þeim næstu og þær höfðu greinilega samvinnu í keppninni þó að þær væru líka að keppa sín á milli um fyrsta sætið. Sú fyrsta átti að fá það sem samsvarar einni miljón ísl kr í verðlaun og hin 600 000. Þær höfðu sem sagt samvinnu og á þann hátt að þær skiptust á að vera á undan. Að því er mér skilst er léttara fyrir þann sem er á eftir í sömu slóð og því hvíld í því að skiptast á. En í síðasta sprettinum var það engin miskunn og þær voru nálægt því að vera hlið við hlið. Þó varð sú fyrsta vel á undan hinni. Þegar þær voru komnar yfir stirkið fleygðu þær sér niður til að kasta allra mestu mæðinni. Þarna lágu þær í snjónum með höfuðin saman, þær sem kepptu af fullri hörku einhverrjum sekúndum áður, og í stólnum hér heima sat ég og var sannarlega hrærður. Önnur þeirra var norsk og hin sænsk.
 
Ég sagði í bloggi í fyrradag að ég hefði séð svo ógeðslega frétt í sjónvarpi og það fékk mig til að finnast mannkynið vont. Ég veit samt sem áður að það skeður meira gott í þessum heimi en vont. Þegar ég sá konurnar upp í Dölum liggja í snjónum höfuð við höfuð eftir grjótharða keppni sín á milli var ekki hægt að telja mannkynið bara af illum toga. Það sem er að ske þarna uppfrá er af hinu góða. Á sunnudaginn í næstu viku fer eins og sagt var Vasagangan fram og þar verða þátttakendur væntanlega rétt yfir 15 000 talsins. Í dag og fram að sjálfri aðalkeppninni verða margs konar minni Vasagöngur eins og til dæmis í dag. Samtals verða það 65 000 manns sem taka þátt í þessum keppnum. Aðeins fáir fara til að vinna. Flestir fara einfaldlega til að vera með. Er þetta ekki frábært? Ég ber stóra virðingu fyrir þeim sem mæta upp í Dölum til að ganga 90 km á skíðum á nokkrum klukkutímum. Það er mikil hátíð í árdegissjónvarpinu þann dag.
 
 Ég get heldur ekki látið mér detta í hug að heimurinn sé vondur þegar Hannes Guðjón kemur hlaupandi á móti mér á járnbrautarstöðinni í Kumla. Eða þegar ég horfi á fólkið á sjúkrahúsinu í Örebro sýna Valdísi sitt besta viðmót og gera allt sitt besta til að hjálpa henni. Fyrir all nokkrum árum valt rúta, skólabíll með börn í fyrstu bekkjum grunnskóla, hjá litlu þorpi skammt sunnan við Örebro. Stuttu áður hafði verið námskeið í hjálp í viðlögum í skólanum. Þegar fjölmennt björgunarlið kom á vetvang voru börnin komin út úr bílnum þar sem þau höfðu hjálpað hvert öðru og sérstaklega þeim sem verst urðu úti. Þau héldu áfram að taka höndum hvert um annað þar til björgunarliðið kom og leysti hetjurnar af. Ég man svo vel enn í dag hversu hrærður ég varð þegar björgunarliðar lýstu þessu í kvöldfréttum dagsins þegar þetta skeði.
 
Það hefur verið drjúgur og skemmtilegur smíðadagur á Bjargi í dag. Svo kom öll nágrannafjölskyldan í heimsókn, þau sem eiga heima í næsta húsi sunnan við okkur, foreldrar og tvær dætur. Þau fara upp í fjöllin á morgun og verða þar í viku á skíðum og að gera margt skemmtilegt. Valdís leysti þau öll út með sokkum sem hún hefur prjónað. Svo fékk hún sms frá þeim nokkru eftir að þau komu heim með mynd þar sem þau sátu hlið við hlið í nýju sokkunum og eitt þeirra hafði tekið myndina niður á fæturna alla átta. Það er gaman að þessu og góður hugur sem býr að baki hjá Valdísi.
 
Í síðasta bloggi talaði ég um að ég kæmi oft inn þegar ég er úti við. Í tilefni af þessu sagði Valdís í dag að ég þyrfti ekki að koma svona oft inn hennar vegna. En mér finnst það eiginlega réttindi tveggja ellilífeyrisþega að geta hittst oft þegar báðir eru heima við. Það fer bara vel á því og það gerir heiminn örugglega fallegri og lífið betra fyrir okkur sem hlut eigum að máli. Það eru að fara í hönd tímar nýrra verkefna. Við þurfum að fá hann Arnold í heimsókn og ég að fara með honum um skóginn. Það er gott að hafa vanan skógarbónda með í ráðum þegar við veljum tré til grisjunar. Annars eigum við góðar byrgðir af eldivið þannig að það þarf ekki að fella mörg tré þess vagna, en grisjunin þarf alla vega enn sem komið er að vera árlegur viðburður. Það gerir skóginn fallegri. Hvað er fallegra í skógi en veltigrænar, frískar og breiðar trjákrónur? Þannig verða þær í vel hirtum skógi.
 
Valdís hefur verið að hlusta á enn eina sænska undankeppni í söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Ég hef heyrt lögin útundan mér þar sem ég hef setið hér við tölvuna og öðru hvoru hef ég farið fram að sjónvarpi til að fylgjast með. Á morgun er konudagurinn og þá förum við að fá okkur að borða á ágætu veitingahúsi í sveit hér nærri. Það var fyrir mörgum árum að við vorum að enda við að borða kvöldmatinn að Sólvallagötu 3 í Hrísey að Valdís sagði daginn fyrir konudaginn að á morgun væri það mitt hlutverk að laga matinn. Þetta var á föstudegi. Þorsteinn dýralæknir var þá hjá okkur og hlustaði á þetta. Eftir stutta stund sagði hann að við skyldum halda okkur í rúminu þangað til að hann léti okkur vita að maturinn væri tilbúinn. Hann skyldi laga matinn. Þorsteinn var vel kunnugur heima og rataði í frystikistuna og kryddskápinn ásamt öðru sem fylgir góðu eldhúsi.
 
Svo kallaði hann á okkur í matinn á konudaginn eftir mjög langa hvíld hjá okkur Valdísi. Hann hafði lagað góðan mat, eitthvað sem var okkur framandi, eitthvað sem ég gæti trúað að hann hafi kynnst í Noregi á námsárunum. Ég var honum mjög þakklátur fyrir þennan greiða, það skalt þú vita Þorsteinn vinur minn.


Kommentarer
Auja

Það er alltaf svo gott og nærandi að lesa bloggin þín Guðjón nú styttist í okkur, mætum 22 mars flutt til Örebro eigum örugglega eftir að eiga góðar stundir saman hlökkum til knús á Valdísi

Svar: Takk Auja. Og við hlökkum líka til að hitta ykkur. Það verða ber í skóginum næsta sumar.Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2013-02-23 @ 22:54:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0