Máninn hátt á himni skín

Klukkan átta í kvöld var þáttur í sjónvarpi sem ég nefndi líka í gær, þátturinn sem ég kallaði þá Veröld vísindanna. Þátturinn í kvöld var um mánann og þá meðal annars þýðingu hans fyrir okkur jarðarbúa. Ekki ætla ég að reyna að flytja það áfram sem við horfðum á í þessum þætti, en vissulega var hann afar forvitnilegur. Hvort hann gerði mig svo að meiri eða þroskaðri manneskju ætla ég ekkert að fullyrða um, en ég þori að fullyrða að margt efni sem sýnt er í sjónvarpi gæti skaðað mig, en þættir af þessu tagi gera það örugglega ekki.
 
Ég veit ekki hvort dagskrárstjórinn valdi kvöldið í kvöld fyrir þennan þátt af neinum ásetningi, en nokkru áður en þátturinn byrjaði horfði ég á mánann senda geisla sína gegnum skóginn í austri þar sem hann var þá að koma upp. Það leyndi sér ekki að það var fullt tungl. Þegar svo þættinum lauk var máninn kominn all hátt á loft og kringum hann voru lýsandi þokukenndir hringir í ólíkum litum. Eftir að ég byrjaði að skrifa þetta fórum við fram til að huga að þessum hringjum. Þeir eru í fjórum litum rétt eins og regnbogi væri tekinn og honum vafið utan um mánaljósið. Það er frostþoka í lofti, mátulega þunn til að sleppa ljósinu í gegn og til að mynda þessa fallegu hringlaga umgjörð. Okkur Valdísi rekur ekki minni til að hafa séð þetta áður, alla vega ekki svo afgerandi litskrúðugt og fallegt.
 
Það er frostþoka sagði ég. Frostið er upp undir 10 stig. Nú er orðin mikil breyting á öllu loftslagi. Það er um það bil frostlaust á daginn og spáð hægri hlýnun á daginn í langtímaspám. Hins vegar er spáð nokkru frosti á nóttunni. Það er einmitt kominn sá tími að þetta skeði og á þennan hátt nálgast vorið, hægt en örugglega. Það er spáð dálítilli snjókomu einhvern næstu daga, en svo fer það minnkandi líka. Það er mikill munur að vakna í birtu, og eins og pípulangingamaðurinn sem heimsótti okkur í dag sagði; nú er kominn sá tími að maður vill fara á fætur á morgnana.
 
Og það er hægt að vinna við birtu úti fram til klukkan milli fimm og sex, nokkuð eftir veðurfari. Fuglarnir eru orðnir líflegri og þessi leyndardómsfulla breyting á skóginum er sýnileg. Ég veit eiginlega ekki hvað það er, en það er bara eins og lífið í skóginum vilji líka fara að fara á fætur á morgnana. Að draga djúpt andann úti við núna er mikið meiri nautn en það var í svartasta skammdeginu. Svo er kominn tími til að ég labbi nokkrar ferðir út í skóg á degi hverjum og pissi á beykitrén okkar. Þau þakka fyrir sig með örari vexti. Þar með get ég sagt að ég eigi meira í þeim. Svo er líka að koma réttur tími til að klippa til eikartré ef ég á annað borð á að skipta mér af vexti þeirra.
 
Nú er mál að ég leggi mig, en fyrst vil ég birta tvær myndir. Önnur er frá því í dag þegar sólin skein glatt á snævi þakta jörð og hrímþoka í vestri lagði hulu dulúðarinnar yfir akurlönd og skóga. Hina tók ég rétt áðan þegar máninn hafði komið svo hátt á loft að engin tré voru í veginum.
 
Séð mót Kilsbergen með aðdráttarlinsuna á hálfu.
 
Myndavélin gerði svo gott hún gat til að fanga litróf tunglsljóssins.


Kommentarer
Björkin.

Rosalega flottar myndir mágur minn.

2013-02-26 @ 12:42:32


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0