Ég fékk gæsahúð

Við vorum ekki snemma á stjái í morgun get ég lofað og ekki fór mikið fyrir morgunleikfiminni. Samkvæmt veðurspánni á textavarpinu er þessi dagur þremur tímum og 28 mínútum lengri en um vetrarsólstöður. Ekki lélegt það. Það voru rólegheit við morgunverðinn og svo byrjaði sjónvarpsmessan. Þegar organistinn sló á fyrstu nótuna þekktum við byrjunarsálminn, O store Gud  . Það er nú meira hvað þessi sálmur er alltaf grípandi og sagan kringum hann líka, sálmurinn sem sunginn er meira út um allan heim en nokkur annar. Ég fékk gæsahúð og kórinn og kirkjugestirnir skiluðu flutningnum svo fallega. Valdís söng óvenju mikið með messunni í dag og mér fannst það góðs viti.
 
Presturinn talaði um að lifa á líðandi stundu en ekki langt inn í framtíðinni. Hann talaði svo ótrtúlega rökrétt um það, rökrétt samkvæmt skilningi mínum á því sem hann sagði, að þeir sem lifa á líðandi stundu koma mikið meiru í verk af góðum málum en hinir sem reyna að lifa á undan sjálfum sér og tilverunni. Mig langaði þarna í morgun að gera þessu meiri skil en þá hefði ég þurft að taka langan tíma í það, tíma sem ég var ekki reiðubúinn að leggja af mörkum í dag. Hins vegar þetta með að lifa á líðandi stundu, þá finnst mér þegar ég er að framkvæma hlutina hér heima með mínum hraða og njóta þess, þá er ég að lifa á líðandi stundu. Ég var mjög ákveðinn í morgun hverju ég ætlaði að koma í verk í dag og þó að ég kæmi mér seint af stað, þá lauk ég nákvæmlega því sem til stóð.
 
Við Valdís höfum talstöðvar þar sem ég hef aðra úti þegar ég er að vinna en hún hina inni. Í dag gleymdi ég að taka mína með og því kallaði Valdís út um dyrnar að það væri komið kaffi. Það var hreina veislan. Og nákvæmlega þegar ég skrifaði þetta þreifaði ég óvart yfir magann, en sannleikurinn er þó sá að ég hef ekki bætt á mig lengi, lengi. Hann sagði við mig bæklunarlæknirinn skömmu áður en hann skipti um mjaðmarlið í mér að hvert kíló sem ég bætti á mig mundi flýta fyrir því að slíta upp liðnum. Um leið og hann sagði þetta stakk hann fingri í magann á mér. Það er holt fyrir mig að muna þetta.
 
Einmitt meðan kaffitíminn stóð yfir hringdi Páll bróðir til okkar á skype. Svo töluðum við fjögur saman á skype og horfðum hvert á annað á meðan. Jón Sveinsson fór út með haustskipinu upp úr 1880 og sendi bréf heim til mömmu sinnar með vorskipinu árið eftir og lét hana vita að hann hefði komist heilu og höldnu til Kaupmannahafnar. Fyrir nokkrum árum flaug Rósa dóttir okkar til Indlands og af flugvellinum þar sendi hún sms til okkar mömmu og pabba til að láta okkur vita að hún væri komin fram heilu og höldnu. Svo töluðum við bróðir minn saman í dag ásamt konum okkar og við horfðum hvert á annað á meðan. Það var líka sími með sveif á Kálfafelli þegar ég var barn og síminn heima var þrjár stuttar en ekki sex eða sjö stafa tala. Svo hlustuðu allir á alla og fréttirnar bárust um sveitina sem vera bar.
 
Þegar ég var búinn út á Bjargi með það sem ég ætlaði mér lét ég Valdísi vita gegnum talstöðina að nú væri tími kominn fyrir hana að koma til að spekúlera með mér.
 
Ég var búinn að leggja út fótstykkin undir veggina kringum baðherbergið í þessu nýja húsi. Við vildum ræða málið og fara yfir hvort við værum ekki sammála um allt. Einnig hvort ekki væri allt rétt hugsað og munað eftir því sem þurfti að muna eftir. Valdís er þarna í stígvélunum hans Péturs sem eru nokkrum númerum of stór á hana en hér á Sólvöllum látum við okkur ekki fyrir brjósti brenna svona smáhluti. Við vorum sammála um framkvæmdirnar. Það er gott að virða álit hvers annars í þessu sem svo mörgu öðru. Svo sést þarna kaffibolli. Ég tók henn með mér út eftir miðdegiskaffið og það er í fyrsta skipti sem kaffi er drukkið á Bjargi.
 
Frá vinstri sturta, þá klósett og svo handlaug. Gott að teikna allt á gólfið til að sjá svo öruggt sé að skipulagið standist.
 
Svo velti ég fyrir mér hvað lægi fyrir að gera á morgun og þá tók Valdís þessa mynd. Eiginlega kom það mér á óvart að sjá hana. Ég bara vissi ekki að Valdís hefði tekið hana. Ég þarf að kaupa eina 15 viðeigandi nagla þegar við förum í bæinn á morgun og svo þarf ég að fá lánaða góða höggborvél í Fjugesta til að bora fyrir þeim í gólfið. Svo get ég fest fótstykkjunum. Nú -svo er bara að halda áfram.
 
Dagur á Sólvöllum er að kvöldi kominn. Valdís horfði á músikprógrammið Så skall det låta meðan ég skrifaði þetta. Á morgun á hún að koma til skoðunar á sjúkrahúsinu í Örebro og þar á að athuga hvort hún hafi fengið aukaverkanir af krabbameinslyfjunum sem hún tekur núna. Satt best að segja er eiginlega ekki hægt að segja að svo sé, er þó af all nokkru að taka í þeim efnum. Fjallkonan mín hefur staðið mikið af sér en það er gott að sérfræðingarnir athugi þetta. Það eru margir sem vilja Valdísi vel sem segir jú að það er margt að vera þakklátur fyrir nú til dags þrátt fyrir allt.


Kommentarer
Björkin.

Stórt knús á ykkur.

2013-02-18 @ 12:56:08


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0