Fótsporin í sandinum

Það var í fyrradag, miðvikudaginn 31. janúar, að það var fremur þungt kvöld hér á Sólvöllum. Svo kom sms í símann hennar Valdísar. Hún var að enda við að horfa á eitthvað í sjónvarpi og svo tók hún símann og athugaði smsið. Svo sagði hún: mikið var þetta fallegt af henni. Ég spurði hvað það hefði verið, hún las og sagði að þetta hefi komið frá henni Evu. Eva var með smsinu að óska Valdísi góðs gengis og lauk því með orðunum; "þú manst eftir sporunum í sandinn, þú veist hver ber þig áfram."
 
Ég fór inn að tölvu og fann Fótsporin í sandinum á sænsku, skrifaði út og fékk Valdísi. Ég á þetta einhvers staðar sagði hún þá og ég kannast vel við það. Ég hugsaði með mér setja þessa frásögn yfir á íslensku og birta í blogginu mínu. Ég hef gert það áður en það gerir engum illt að ég geri það aftur.
 
 
 *
Fótsporin í sandinum
 
Nótt eina dreymdi mann nokkurn draum. Hann dreymdi að hann gekk ásamt Guði eftir ströndinni. Á himninum birtust allt í einu atvik úr lífi hans. Hann veitti því athygli að á hverju tímabili í lífi hans voru sporin í sandinum eftir tvenna fætur: annars vegar voru það hans spor og hins vegar Guðs.
 
Þegar síðasti hluti af lífi hans birtist leit hann til baka á fótsporin í sandinum. Þá sá hann að oft undir lífsferlinu sáust bara spor eftir eina fætur. Hann veitti því einnig athygli að þetta átti sér stað þegar hann var mest einmana og átti í mestum erfiðleikum.
 
Þetta olli honum sannarlega áhyggjum og hann spurði Guð út í þetta. "Herra, þú sagðir mér þegar ég ákvað að fylgja þér að þú mundir aldrei yfirgefa mig, heldur vera við hlið mér alla leiðina. En ég hef tekið eftir því að á allra erfiðustu tímabilum lífs míns hafa það bara verið fótspor eftir eina fætur. Ég get ekki skilið að þú skyldir yfirgefa mig þegar ég var í mestri þörf fyrir þig."
 
Herrann svaraði: "Mitt kæra barn, ég elska þig og mundi aldrei yfirgefa þig á stundum þrauta og þjáninga. Þegar þú sást bara spor eftir eina fætur - þá bar ég þig."
 *
 
 
Ég man vel þegar ég las þessa frásögn í fyrsta skipti. Það var þegar ég var nýlega byrjaður að vinna í Vornesi að ég staðnæmdist við þunna svarta steinplötu sem hékk þar á vegg og á þessa steinplötu var þessi frásögn letruð. Þegar ég las síðutu fjögur orðin var sem eitthvað gæfi eftir í brjósti mér og ég varð snögglega grátklökkur. Það er dýrleg gjöf að geta hrifist þannig við að lesa fallegan texta -taka myndmálið inn í hjartað. Mér finnst oft að ég þurfi að verða betri maður og ég vona að þetta blogg um Fótsporin í sandinum bæti einum góðum pússlkubb í sálarpússlið mitt.
 
Þarna lengst frá í myndinni er hún Eva. Þetta er frá því þegar við fórum út að borða jólamat á afmælisdeginum hennar Valdísar. Með henni á myndinni er Elín dóttir hennar og maðurinn hennar, hann Sven. Eva, þú mátt alveg treysta því að smsið þitt gladdi og lyfti upp kvöldstemmingunni hér á Sólvöllum þetta umrædda kvöld. Orðin voru svo einföld og vel meint að þau gátu ekki annað en glatt og þau komu á nákvæmlega réttum tíma.
 
Seinni partinn í gær sagði Valdís allt í einu; ég þarf að skreppa inn í Marieberg. Þá fórum við auðvitað inn í Marieberg og í verslunarmiðstöðinni þar eru vegalengdirnar ærið langar á tveimur hæðum. Mér hættir allt of oft til að fara einhverjum skrefum á undan Valdísi og svo stoppa ég og bíð. En í gær gekk hún hraðari skrefum en hún hefur gert lengi og stundum horfði ég á eftir henni og hugsaði eitthvað á þá leið að hvað hefði eiginlega átt sér stað með þessa konu. Mér fannst það ekki leiðinlegt.


Kommentarer
Auja

Þetta er nákvæmlega hún Eva perla, tek undir þessi orð fallegt

2013-02-02 @ 22:18:12
Guðjón

Já Auður, mér þótti vænna um hana þetta kvöld en nokkru sinni.
Með bestu kveðju til ykkar frá Valdísi og Guðjóni.

2013-02-02 @ 22:23:09
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Björkin.

Góð kona hún Eva,svo hlý og góð.Líði ykkur sem allra allra best mín kæru.Knússsssssss

2013-02-03 @ 22:29:46
Eva

Takk fyrir þessu fallegu orð, kæri Guðjón. Ég hugsa mikið til ykkar. Mér finnst alveg yndislegt að hafa kynnst ykkur. Sjáumst bráðlega, knús á ykkur, elsku vinir. Takk fyrir bloggið þitt svo gaman að lesa það.

Svar: Takk Eva. Já, vonandi sjáumst við bráðlega. Það er ekki lítið að eiga þig að. Það er rólegt kvöld í sveitinni og Valdís horfir á Þátt með Lena Filipsson.
Gudjon

2013-02-22 @ 20:14:39


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0